Færsluflokkur: Bloggar
19.3.2013 | 23:09
Michael Owen
Þá er hann að fara að hætta blessaður drengurinn. Þó fyrr hefði verið segja sumir. Alltaf var maður að vona að hann næði sér á strik en eins og með nokkra, t.d. Woodgate og McManaman, þá náði hann sér aldrei almennilega á strik eftir að hann kom til baka frá Spáni. Meiðsl spiluðu þar inn í. Fram að því hafði hann verið frábær.
Tölfræðin talar sínu máli, með Liverpool lék hann 297 leiki og skoraði 158 mörk í þeim sem er rúmlega mark í öðrum hvorum leik. Fjári gott hlutfall það.
Með enska landsliðinu lék hann 89 leiki og skoraði 40 mörk í þeim sem er tæplega mark í öðrum hvorum leik. Fjári gott hlutfall það.
Þó að hann hafi ekki staðið undir gríðarlegum væntingum þegar hann seri aftur til Englands, má segja að hann hafi staðið sig ágætlega hjá Newcastle þar sem hann skoraði 30 mörk í 79 leikjum en þau hefðu án efa orðið fleiri ef meiðsli hefðu ekki sett strik í reikninginn.
Michael Owen var yngsti leikmaðurinn til að skora 100 mörk í ensku úrvalsdeildinni
Hann var kjörinn besti leikmaður í heimi árið 2001 og fékk því Ballon dOr styttuna, þá sem Messi er með upp á hillu í stofunni hjá sér núna.
Owen var frábær leikmaður og er stórt nafn í knattspyrnusögunni.
Nokkur atvik eru eftirminnileg frá ferli hans, t.d. þetta mark sem hann skoraði gegn Argentínu á HM98.
Þessu muna líka mjög mjög mjög margir eftir, sérstaklega 6. mínút í uppbótartíma.
Owen leggur skóna á hilluna | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.3.2013 | 07:58
Út að hlaupa
Þó að ótrúlegt megi virðast þá hleypur fólk til þess að láta sér líða vel. Þessu hefði ég ekki trúað fyrir nokkrum árum, þegar undirbúningstímabil fótboltans einkenndust af erfiðum og leiðinlegum hlaupum, yfirleitt í vondu veðri, frosti, roki og snjó. Þegar fótboltaferlinum var lokið og hlaupin tóku við komst ég að því að hlaup láta manni líða vel, ef ekki meðan á hlaupinu stendur, þá að loknu hlaupi. Þó að ég hafi hlaupið nokkuð reglulega um nokkurra ára skeið og hafi hlaupið maraþon þá gerir það mig ekki sjálfkrafa að hlaupaleiðbeinanda. Ég vil samt hvetja sem flesta sem ekki eru hlauparar eða skokkarar að prófa.
Þegar byrjað er gildir gamla leiðinlega klisjan, ekki fara of geist af stað. Í því felst, ekki hlaupa of langt og ekki hlaupa of hratt, reyndu frekar að hlaupa of stutt og of hægt. Það er ekki hægt að gefa upp staðlaða byrjunarvegalengd en ég myndi ekki ráðleggja neinum sem ekki er vanur að hlaupa að fara lengra en 1 km en þetta er algjörlega einstaklingsbundið, kannksi eru 100m nóg. Það er líka ágætt að skokka og ganga stutta spotta til skiptis. Svo eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga til að auðvelda sér að komast upp úr sófanum í hlaupaskólanum og út um útidyrnar, en það er yfirleitt erfiðasti hlutinn af hlaupinu.
Talaðu við sjálfa(n) þig. Ef þú ert of móð(ur) til að tala ertu að hlaupa of hratt, hægðu á þér. Þetta er skokk ekki spretthlaup.
Vertu stolt(ur). Margir halda að þeir hlaupi of hægt, séu of feitir, of sveittir, geti ekki hlaupið nógu langt. Allt þetta er rangt og þetta á ekki að koma í veg fyrir að fólk hlaupi.
Gerðu þetta að vana. Hlauptu oftar en einu sinni í viku og ekki spá í hversu langt eða hratt þú hleypur, smám saman kemst það upp í vana að fara reglulega út.
Hvíldardagur. Í stað þess að hugsa ég ætla að hlaupa þrisvar sinnum í þessari viku skaltu hugsa, ég ætla að taka a.m.k. þrjá hvíldardaga í þessari viku.
Fjölbreytni. Veldu mismunandi hlaupaleiðir, það gerir hlaupin skemmtilegri og þú færð betri æfingu út úr mismunandi erfiðum leiðum. Persónulega finnst mér óhemju leiðinlegt að hlaupa á hlaupabretti en því skemmtilegra að hlaupa úti, ég tala nú ekki um á nýjum stað í góðu veðri.
Sveigjanleiki. Ef planið var að hlaupa þrisvar í vikunni, þá þarf að sníða það eftir veðri, vinnu og fleiru. Á sama hátt, ef þig langar til að hlaupa en ætlaðir ekki að hlaupa, hlauptu þá.
Verðlaun. Það er gott að hafa gulrót með því að verðalauna sjálfan sig. Lofaðu sjálfum þér einum köldum, nýjum sokkum, nýjum bol, spa eða eitthvað skemmtilegt ef þú nærð einhverju markmiði sem þú setur þér. Það er nefnilega nauðsynlegt að setja sér markmið, t.d. að ætla sér að geta hlaupið fimm kílómetra innan þriggja mánaða. Ég lofaði sjálfum mér húðflúri á fótinn ef ég næði að klára mitt fyrsta maraþon og það hjálpaði til.
Ráðleggingar. Ráðleggingar frá hlaupurum eru af því góða og félagsskapur annarra hlaupara virka sem pepp.
Nú er ekki annað en að reima á sig hlaupa skóna, hlaupa út hægt og stutt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.3.2013 | 09:17
Mottumars
vaxi ekki skegg, það er ekki vandamálið. Vandamálið í hnotskurn birtist mér nú í mars þegar ég var búinn að sleppa því að raka mig í nokkra daga með það í huga að geta tekið þátt í mottumars og var því orðinn semi loðinn í andlitinu. Ég rakaði af mér allt nema skeggið ofan varar, þvoði af mér raksápuna og leit í spegil. Svo hló ég að sjálfum mér í svona hálftíma en hugsaði svo með mér, "nei, ég get ekki farið svona út á meðal fólks, ég get hvorki gert fólki né sjálfum mér það" og rakaði svo af mér skeggið og leið miklu betur á eftir. Að hugsa sér, þetta hefur verið í tísku!
Ætli ég verði ekki bara að sætta mig við að ég mun aldrei í lífinu verða maður til að safna mottu. Annars er framtakið þarft og aðferðin við að vekja athgyli á krabbameini hjá körlum frábær. Ég hef heyrt af einum hér í bæ sem hefur verið með yfirvaraskegg í mörg ár og auðvitað fer það honum vel enda maður orðinn vanur því en nú eru í gangi áheit sem eru öfugt við marga og ganga út á að hann raki af sér mottuna í mars. Kannski maður borgi bara frekar en að safna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2013 | 10:49
Árið byrjar vel
Nú í janúar kom út gomma af góðum plötum og ef þig vantar eitthvað nýtt til að hlusta á þá eru hér nokkrar hugmyndir. Það er alltaf gaman og gefandi að heyra nýja tónlist og allir ættu að kaupa sér geisladisk öðru hvoru.
Af geisladiskum sem komu út í s.l mánuði ber fyrst að nefna plötuna We are the 21st century ambassadors of peace and magic með hljómsveitinni Foxygen. Ég er búinn að panta mér hana frá Play.com. Þetta er svo sem frekar einföld plata, Dylan, Bowie, Bítla og Kántrý áhrifin eru greinileg. Það kæmi mér ekki á óvart þó að lag eða lög af þessari plötu slái í gegn innan tíðar.
Ra ra Riot - Beta love. Popp í fyrsta klassa sem sennilega fellur vel í kramið hjá útvarpsstöðvum. Ekki laust við eitís áhrif hljómborðin framarlega, symfónískar útsetningar og grípandi lög, allt vel gert minnir svolítið á hina frönsku Phoenix.
Ducktales The flower lanes. Hljómsveit sem byrjaði sem gítarrokksveit en spilar nú þægilegt popp, lítil átök en skemmtilegar útsetningar og fínustu lög. Ábyggilega gott til að hafa í eyrunum þegar maður er í rólegheitum eða vill slaka á einhversstaðar. Ég hef heyrt að svoleiðis sé stundum gert. Ég fann ekkert almennilegt myndband með þeim þannig að fólk verður bara að finna það sjálft með það í huga að hlusta á í rólegheitum.
Parquet Courts Light up gold. Frábær popp/pönk sveit frá Bandaríkjunum. Sannarlega hressandi plata. Gítarinn dregur hljómsveitina áfram á fúllspíd. Auk Clash og Sex Pistols áhrifa má greina smá Frank Zappa og Nirvana í þessu hjá þeim. Með hverjum deginum sem líður langar mig meira og meira að hlusta á þá, ætli endi ekki með því að diskurinn verði pantaður. Ég fann ekki neitt almennilegt myndband með þeim en verð samt aðsetja inn eitt lag af því að allir ættu að þekkja Parquet courts.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.2.2013 | 23:58
Fat Spanish Waiter
Þar kom að því að Benitez snappaði. Pressan á honum er búin að vera mikil og það kom að því að hann þoldi hana ekki lengur þegar hann lét áhangendur og stjórn heyra það. Þetta er búið að eiga sér
langa forsögu, sem má rekja aftur til ársins 2005. Þá var Benitez hjá Liverpool. Margt sem hann sagði þá er geymt en ekki gleymt hjá stunðningsmönnum Chelsea og því var það vitað frá því að hann var ráðinn að hann yrði ekki vinsæll og dáður stjóri.
Tökum dæmi: "Chelsea er stór klúbbur með frábæra leikmenn, allir vilja stjórna svona stóru liði. Ég myndi samt aldrei taka það að mér af virðingu við mitt gamla félag Liverpool, sama hvað gengur á. Í mínum huga er aðeins eitt lið á Englandi og það er Liverpool". Spurning hvort ekkert er að marka það sem hann segir eða hvort hann er hætur að bera virðingu fyrir Liverpool. Eða þetta, þar sem vísað er í það að komin er hefð á það á Stamford Bridge að gefa stuðningsmönnum Chelsea plastfána fyrir Meistaradeildarleiki: " Við þurfum ekki að gefa áhangendum okkar plastfána til að veifa, stuðningsmenn okkar eru alltaf til staðar, það er ástríða þeirra sem vinnur leikna, ekki fánar". Ætli Benitez hafi ekki kynnst því á undanförnum vikum að ástríða stuðningsmanna Chelsea er svo sannarlega til staðar. Þeir elska liðið sitt og þeim er ekki sama hver stjórnar liðinu.
Til eru fjölmörg ummæli um Chelsea frá Liverpool tíma Benitz en liðin mættust oft á þeim tíma og það er að stórum hluta það sem varð til þess að hann fékk óblíðar móttökur þegar hann mætti til leiks á Stamford Bridge. Fyrir stuðningsmenn Liverpool hefði þetta verið svona eins og ef Gary Neville hefði tekið við Liverpool eftir að Dalglish var rekinn. Það hefði verið allt annað að fá t.d. Harry Redknapp sem var laus á þessum tíma. Auðvitað spilaði það líka inn í að Di Matteo var dáður af stuðningsmönnum liðsins og það var sárt að sjá á eftir honum enda eru flestir á því að það hafi verið mistök að segja honum upp og fá í staðinn mann sem hafði verið atvinnulaus í tvö ár eftir að hann hrökklaðist frá Inter Milano þar sem hann réði ekki við verkefnið. Þar fékk hann í hendurnar ítalska meistara, bikarmeistara og Evrópumeistara en fór að kvarta fyrir fyrsta leik að hann væri ekki með nógu góðan mannskap í höndunum þrátt fyrir að hafa sama mannskap og varð Evrópumeistari. Hvorki gekk né rak hjá liðinu og Moratti, eigandi Inter, gafst upp eftir sex mánuði og rak hann.
Þegar hann kom til Chelsea fékk hann sumsé óblíðar móttökur vegna þeirrar sögu sem hann var með á bakinu, nota bene óánægjan hefur aldrei beinst að liðinu, heldur að Benitez. Það má kannski deila um það hvort það sé rétt af þeim en þeir hljóta að hafa rétt á að tjá skoðun sína. Enda er það nú svo hjá öllum liðum að ef árangur lætur á sér standa og lið spilar ekki eins vel og áður þá láta menn heyra i sér. Benitez kvaðst ekki hafa heyrt neitt slæmt af því að hann var að einbeita sér að leiknum en annað hefur nú komið í ljós. Hann sagði líka að hann myndi vinna stuðningsmennina á sitt band með því að vinna leiki og ná árangri en því miður hefur árangurinn látið á sér standa og liðið hefur spilað ver og ver eftir að hann tók við. Þegar hann tók við var liðið 4 stigum á eftir Man Utd en nú munar 19 stigum á þeim og Benitez er með versta árangur allra stjóra Chelsea frá því að Abramovich keypti liðið. Fram til þessa hefur það virkað hjá Rússanum að skipta um stjóra, titlarnir hafa skilað sér í hús og auðvitað vonuðu stuðningmennirnir að svo myndi verða núna líka. Bjartsýnin var þó ekki mikil miðað við fyrri störf hans en litið var á það sem ljósan punkt að hann var aðeins ráðinn til bráðabirgða fram á vorið.
Nú er hann farinn að láta það fara í taugarnar á sér að vera bráðabirgðastjóri og hreytir því ónotum í stjórnarmennina. Avram Grant og Di Matteo voru báðir bráðabirgðastjórar en skiluðu samt titlum, það virtist ekki trufla þá að vera kallaðir bráðabirgðastjórar. Sjálfur segir Benitez að hann sér fagmaður (professional) í sama viðtali og hann mætir í til að gráta yfir því hvað stuðningsmenn og stjórnendur séu vondir við hann. Já það er svo sannarlega fagmannlegt og skref fram á við. Eða ekki. Stundum er betra að þegja og fá orð á sig fyrir heimsku en að tala og taka af allan vafa.
Alla vega, hann er þarna og mun væntanlega klára tímabilið enda var hann ráðinn sem bráðabirgðastjóri fram á vor. Hver mun svo koma í staðinn á eftir að koma í ljós. Ef Benitez tekst að koma liðinu aftur á sigurbraut verður hann kannski ráðinn áfram en það þykir þó heldur ólíklegt (þ.e. að hann komi liðinu á sigurbraut). Þeir sem hafa verið nefndir eru Pellegrini, Mourinho, Moyes, Laudrup en þetta eru allt skot út í loftið og framtíðin verður að skera úr um þetta. Fat Spanish Waiter hefur allavega ekki gert neitt til þess að vinna stuðningsmennina á sitt band.
Benítez: Við Roman í frábæru sambandi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.2.2013 | 08:44
Ekki varð vetur
Þó að marsmánuður sé ekki hafinn er nú að verða ljóst að hér á þessu landshorni, hvort sem menn flokka þetta sem útnára eða nafla alheimsins eða eitthvað annað milli nára og nafla, að þessi vetur er, var og verður afskaplega mildur. Eftir hroðalegt stormatímabil í lok október og byrjun nóvember hefur veðrið verið afskaplega milt.
Til marks um það má nefna að Brynja fékk skauta í afmælisgjöf í desember og síðan hefur ekki frosið á polli hér og skautarnir liggja því ónotaðir inn í skáp. Flesta vetur má sjá hópa af krökkum skautandi á frosnum vötnunum hér á einu besta skautasvæði landsins þegar aðstæður leyfa en því hefur ekki verið að heilsa í vetur. Þrátt fyrir milt veður hér hefur Öxi verið ófær frá því í október enda þótt veður hafi verið milt hér á láglendinu hefur verið of kalt þar uppi til þess að snjó taki upp og skíðaferð í Oddskarð er því á döfinni fljótlega. Veðurfarinu virðist vera öfugt farið norðan lands og á Vestfjörðum þar sem vetur konungur hefur valdið töluverðum vandræðum með fjárfelli, ófærð og rafmagnsleysi.
Í svona árferði er ekki þörf á að eiga jeppa og því seldi ég minn elskulega Pajero jeppa upp á Egilsstaði þar sem meiri snjór er og meiri þörf fyrir alvörubíl. Í staðinn fékk ég Subaru Impreza, jafn gamlan en minna keyrðan. Brynja vildi helst ekki fara upp í hann fyrstu dagana en hefur nú jafnað sig þó hún segist sakna gamla bílsins okkar. Ég reyni að skýra út fyrir henni að með tilliti til hækkandi heimsmarkaðsverðs á bensíni, hár viðhaldskostnaður, dekkjakaup, bifreiðagjöld og fleiru sé ekki hagstætt að eiga stóran jeppa. Hún hefur svo sem ekki gefið neitt út á þetta þannig að ég reikna með að hún skilji hvað ég á við. Þögn er sama og samþykki.
Allavega, það sem eftir er vetrar, fram að vorjafndægrum 20. mars, er ekki útlit fyrir harðan vetur, sjávarhiti er t.d. óvenju hár miðað við árstíma, 3,0°C, í stað 1° - 2°C sem hefur einhver áhrif þannig að við getum farið að hlakka til vorsins.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.2.2013 | 22:15
Þursaflokkurinn
Ég hef því miður ekki komist á tónleika með þeim en um dagana hef ég eignast þrjá diska með þessari einstöku hljómsveit sem lengi vel var þekktust fyrir að blanda saman íslenskum þjóðlögum og rokki. Elsti diskurinn sem nefnist Hinn íslenzki Þursaflokkur kom út árið 1978 og er sá besti að mínu mati vegna þess að á hann kemur best út sem heild og öll lögin á honum eru góð. Það sem einkennir hann helst fyrir utan að vera þjóðlegur frá A til Ö er snilldarlegur fagott leikur Rúnars Vilbergssonar en þetta er í eina skiptið sem ég veit um sem fagotthljóðfærið er notað jafn mikið á rokkplötu og þarna. Og guð minn góður hvað það passar vel og lyftir upp hinum þjóðlegu áhrifum. Lögin eru ýmist íslensk þjóðlög útsett af Agli eða Þursaflokkinum í heild eða þá alveg eftir Egil.
Önnur platan, Þursabit kom út árið 1979 og er eðlilegt framhald af Hinum íslenzka Þursaflokki en í stað fagott leiks Rúnars er komið Hammond orgel sem enginn annar en Karl Sighvatsson spilar á. Þetta gerir Þursabit heldur rokkaðri og tilraunakenndari. Hammondinn hjá Karli hefur gert það að verkum að margir telja Þursaflokkinn vera mikið Hammond band þó að hann hafi aldeilis ekki verið á öllum plötunum. Eins og áður eru lögin íslensk þjóðlög í útsetningu Egils eða Þursaflokksins eða þá að lögin og textarnir eru eftir Egil. Þó að platan sé á heildina litið ekki eins sterk og Hinn íslenzki Þursaflokkur eru stærri smellir á Þursabiti, lög eins og Sigtryggur vann og Brúðkaupsvísur.
Árið 1980 kom út plata með þeim sem ég á ekki en hún nefnist Þursaflokkurinn á hljómleikum. Það sem helst er að nefna á þeirri plötu er að þar gera þeir ódauðlegt lagið Jón var kræfur karl og hraustur en einnig eru á henni tvö lög sem ekki höfðu komið út áður.
Þriðji diskurinn sem ég á er fjórði diskur sveitarinnar og nefnist hann Gæti eins verið en þar kveður við nýjan hljóm. Hinn þjóðlegur íslensku áhrif eru horfin og nútíminn hefur tekið völdin (þó ekki lagið Nútíminn sem er á Hinn íslenzki Þursaflokkur). Hvorki fagott né Hammond orgel er lengur til staðar heldur hefur analóg syntheziser (kannski Roland Juno eitthvað) tekið við Egill á flest öll lög og texta, þó á Ásgeir Óskarsson eitt og Þursar í sameiningu tvö. Þá hafa þeir fengið tvö af helstu skáldum tuttugustu aldarinnar til liðs við sig en Þórarinn Eldjárn og Einar Már Guðmundsson eiga sitt hvorn textann. Sterkustu lögin á þessari plötu eru Pínulítill karl, Gegnum holt og hæðir og Vill einhver elska.
Hvort þessi umsnúningur er góður eða ekki verða menn að dæma sjálfir. Þó svo að það geti verið kostur við hljómsveitir að þær þróist og breytist þá kann ég betur við Þursana á þjóðlegu nótunum.
Árið 2008 hélt Þursaflokkurinn nokkra tónleika ásamt Caput sem ég hafði ekki færi á að komast á en hver veit, kannski kemur tækifæri síðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.2.2013 | 09:58
Hammond hátíð 2013
Nú hefur að mestu verið gengið frá dagskrá Hammondhátíðar 2013. Ég er svo heppinn að hafa fengið að starfa að skipulagningu hátíðarinnar og hefur það verið afskaplega skemmtilegt og gefandi. Margir tónlistarmenn hafa verið inn í myndinni fyrir komandi hátíð en nú er lokamyndin komin á hátíðina. Eins og hefð er fyrir hefst Hammondhátíðin á sumardaginn fyrsta sem að þessu sinni ber upp þann 25. apríl. Lænöppið að þessu sinni er einstaklega glæsilegt.
Fimmtudaginn 25. apríl stígur á stokk hljómsveit skipuð nemendum tónskóla Djúpavogs, í kjölfarið kemur karlakórinn Trausti og þeir félagar Ómar Guðjónsson, Jónas Sigurðsson og Stefán Örn Gunnlaugsson eru svo rúsínurnar í pulsuendanum á fimmtudagskvöldinu.
Föstudagskvöldið 26. apríl hefst á að hljómsveit skipuð afburðanemendum úr FÍH stígur á svið og þar munu áhorfendur eiga kost á því að sjá og heyra í tónlistarfólki sem mun verða áberandi í tónlistarlífi íslendingar í framtíðinni. Dúndurfréttir eru seinna band kvöldsins. Ég hef aldrei farið á tónleika með þeim (hef samt farið á ball með Buff) en mér skilst á þeim sem til þekkja að þeir séu eitt besta tónleikaband landsins.
Laugardagurinn gæti svo orðið hápunktur hátíðarinnar en hljómsveitin Nýdönsk mun þá eika lög sín. Allir þekkja Nýdönsk en ætli maður hafi ekki fyrst heyrt í henni svona 1987 eða 1988 og þá með lagið Hólmfríður Júlíusdóttir. Gott ef ég sá þá ekki spila í Atlavík um verslunarmannahelgi, kannski 88, já og svo man ég eftir balli í Logalandi í Borgarfirði á svipuðum tíma. Síðan þá hefur sveitin unnið sér það inn að verða eitt af stærstu nöfnum íslenskrar tónlistarsögu.
Sunnudagurinn 28. apríl verður svo lokadagur Hammondhátíðar en sunnudagurinn hefur verið með rólegra yfirbragði en hinir dagarnir en allir þeir sunnudagshammondtónleikar sem ég hef farið á hafa verið einstaklega ljúfir og góðir og kannski það sem helst hefur setið eftir í minningunni. Nú verða það hinir goðsagnakenndu Magnús og Jóhann sem ætla að binda endahnútinn á Hammondhátíðina. Jóhann er einn af mínum uppáhalds íslensku lagahöfundum, örugglega inn á topp þremur, og því verða sunnudagstónleikarnir mikið tilhlökkunarefni, sem og öll hátíðin.
Það eru allar líkur á að það verði uppselt snemma á hátíðina í ár, enda aðeins 250 miðar í boði og því allar líkur á að færri komist að en vilja.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.1.2013 | 22:58
Teigarhorn II
Nicoline ferðaðist um Austfirði og tók myndir m.a. á Seyðisfirði og Eskifirði. Nicoline þótti hafa sérstakelga gott auga fyrir myndefni og var hún þekkt fyrir að vanda vel til verks. Margar myndir hennar hafa varðveist og eru m.a. geymdar á Þjóðminjasafninu ásamt miklu af þeim ljósmyndabúnaði sem hún átti. Þekktustu myndir hennar eru af Austfirskum þorpum og fólki í stórbrotnu umhverfi.
Nicoline giftist aldrei og var barnlaus en hélt heimili með móður sinni að Teigahorni. Systurdóttir Nicoline, Hansína Björnsdóttir (1884 - 1973), nam undirstöðuatriði ljósmyndunar af henni heima á Teigahorni áður en hún hélt til náms í kaupamannahöfn árið 1902. Hún sneri aftur ári síðar og rak stofuna til 1911.
Plötu- og myndasafn Nicoline varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands ásamt um 80 útimyndaplötum þeirra Hansínu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.1.2013 | 09:17
Naðurvaldi og önnur stjörnumerki - í hvaða stjörnumerki ert þú?
- Fiskarnir -- 12. mars til 18. apríl
- Hrúturinn -- 19. apríl til 13. maí
- Nautið -- 14. maí til 19. júní
- Tvíburarnir -- 20. júní til 20. júlí
- Krabbinn -- 21. júlí til 9. ágúst
- Ljónið -- 10. ágúst til 15. september
- Meyjan -- 16. september til 30. október
- Vogin -- 31. október til 22. nóvember
- Sporðdrekinn -- 23. nóvember til 29. nóvember
- Naðurvaldi -- 30. nóvember til 17. desember
- Bogmaðurinn -- 18. desember til 18. janúar
- Steingeitin -- 19. janúar til 15. febrúar
- Vatnsberinn -- 16. febrúar til 11. mars
Mig grunar að þeir séu margir sem eru ekki sáttir við að þurfa að breyta um stjörnumerki. Þeir geta líka andað léttar af því að stjörnuspekingar fara ekki eftir raunverulegri stöðu merkjanna, heldur ákváðu stjörnuspekingar fyrir 2000 árum að dýramerkin yrðu óhagganleg. Tólf stykki með fastar dagsetningar án tillits til raunverulegrar stöðu. Enginn þarf því að óttast að verða Naðurvaldi og ég verð áfram í krabbanum samkvæmt stjörnuspekingum en er samt í tvíburunum samkvæmt stjörnufræðingum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (24.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar