Færsluflokkur: Bloggar

Heim

Æji ég ætlaði að vera búinn að setja þetta hérna inn fyrir nokkru síðan en þetta var tekið á Barkanum 2012 einhvern tímann um miðjan febrúar.  Þarna er Telma ásamt Ásbirni að syngja lagið Home með Edward Sharpe & the magnetic Zeros með íslenskum texta eftir pabba hennar Telmu.  Þau stóðu sig með prýði og öll keppnin var hin besta skemmtun, vonandi gefst tækifæri til að fara aftur á Barka einhvern tímann síðar. 

 

Allir krakkarnir sem tóku þátt í þessu stóðu sig vel en Djúpavogskrakkarnir voru áberandi 6 eintök kepptu auk þess að vera uppistaðan í hljómsveitinni.  Sigurlagið var líka vel flutt en Vigdís söng lagið The Story með Brandi Carlile, lag sem ég hafði ekki heyrt áður en er alveg fínasta lag og alltaf er nú gaman að uppgötva ný lög.


Ormurinn

Nú í vikunni hefur gengið á netinu myndband sem tekið er af Lagarfljótinu og á því virðist gríðarstór ormur hlykkjast á móti straumnum.  Ég hef oft velt því fyrir mér af hverju í ósköpunum hafa framtakssamir einstaklingar á Fljótsdalshéraði ekki tekið sig til og stofnsett Lagarfljótsormssetur, líkt og gert er með Loch Ness skrímslið í Skotlandi.  Þarna eru án vafa vannýtt tækifæri í ferðaþjónustu.  Einu sinni, fyrir svona tíu árum kom ég til Loch Ness og heimsótti þá einmitt Loch Ness Centre sem er staðsett við vatnið fræga en þangað koma þúsundir ferðamanna árlega.  Þar voru allrahanda upplýsingar um vatnið, skrímslið og umhverfið, bæði prentað sem texti, ljósmyndir, lifandi myndir kort og fleira.  Að sjálfsögðu var svo verslun þar sem hægt var að kaupa skrímsli og ýmsan skoskan varning.  Reyndar er til vefsíða með upplýsingum um orminn en það væri hægt að gera mun meira úr þessu að mínu mati.


Eimý ég sakna þín.

Eimý.  Ég sakna þín.  Þú varst einstök. Þú hefðir ekki átt að djamma svona mikið, það getur verið hættulegt eins og þú veist líklega núna.  Ég vorkenndi þér stundum þegar þú varst að syngja á tónleikum en þú stóðst ekki í lappirnar og gast varla talað, hvað þá sungið vegna ölvunar eða annarar vímu.  En það sem þú gafst út á geisladiskum mun lifa lengi og nú eins og svo oft sannast hið fornkveðna, enginn veit hvað misst hefur fyrr en átt hefur.   Ég vil bara að þú vitir þetta en ég er nú samt ekki viss um að þú lesir þetta, enda kanntu sennilega ekki íslensku.  Ég bara nennti ekki að skrifa þetta á ensku.

Kveðja,

Kristján.


Góðir síðustu dagar

Alla jafna er vinnan mín skemmtileg.  Síðustu dagar ársins  voru þó sérstaklega skemmtilegir.  Rétt fyrir jól mættu til okkar þrír vaskir kafarar frá Köfunarþjónustu Íslands og voru hjá okkur í tvo daga.  Fyrri dagurinn var notaður til þess að senda fjarstýrðan kafbát með upptökuvél eftir öllum festingum við Stapaey til að yfirfara þær.  Það var fyrrverandi Íslandsmeistari í torfæru sem stýrði kafbátnum og allar festingar reyndust vera eins og nýjar, þrátt fyrir að vera sex ára gamlar.  Seinni daginn var svo notaður til þess að sjóða Zink undir bátinn og fengum við að aðstoða þá við suðuna  undir bátnum, en þetta er í fyrsta skipti sem ég er viðstaddur rafsuðu í kafi.  Myndavélin varð eftir heima og eftirsjáin brennur enn inn í  mér.

Unnið með kafbát

Sólarupprás

Á aðfangadagskvöld blés upp norðvestan hvellur og þar sem allar festingar á Stapaey voru í lagi hreyfðist skipið ekki en eitthvað hefur gengið á þar sem 400 m langt fóðurrör hafði vafist utan um stýrishúsið á Stapaey auk þess sem hinir ýmsu hlutir rúlluðu út um allt gólf í brúnni.  Mikið var nú gott að maður var heima að borða steikina og opna pakkana en ekki um borð í Stapaey á meðan þetta gekk yfir.

Mynd0048

Milli jóla og nýárs var svo slátrað upp úr einni kví á tveimur dögum,  farið út klukkan tvö að nóttu og komið í land um morguninn.   Allir svefntímar gengu úr skorðum og það var ekki fyrr en á nýársdag að maður náði upp svefni en mikið djöfull líður manni vel svona dauðþreyttum.

Vaskir slátrarar

Slátrun


Fram og til baka

Blogg á gamlársdegi og ég ætla að vera ófrumlegur.  Líta um öxl og horfa fram á við. 

Um síðustu áramót hét ég því að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni og sinna tónlistinni meira.  Hvort tveggja gekk upp, þetta var ár söngs og hlaupa, og nú hef ég ekki nein áramótaheit önnur en þau að halda áfram á sömu braut, enda ekki mikill tími afgangs. Vonandi færir bara árið okkur hamingju og gleði og maður skapar sér nú sjálfur sína hamingju ekki satt?  Eða skapar fegurðin hamingjuna?  Kannski.  Fegurð lífsins kannski.  Eða hvað?

Annað sem ég gerði á árinu var að fara til Lettlands og Noregs.  Í Lettlandi fékk ég Chili píku. Ég fór í sumarbústað á Blönduósi, í sumarbústað í Biskupstungum,  kom í fyrsta skipti á Hvammstanga og Skagaströnd, skoðaði eldgos eða réttara sagt öskufall, tók þátt í að stofna karlakór, sá þegar "ljósin" voru tendruð á Hörpunni, og margt, margt fleira.

Nú er allsstaðar verið að velja hitt og þetta ársins og mínar tillögur eru:

Íþróttamaður ársins:  Annie Mist Þórisdóttir heimsmeistari í Crossfit.  Í mínum huga er ekki spurning um að hún hefur náð lengra en aðrir íþróttamenn á árinu.  Hins vegar er hún ekki gjaldgeng í kosningu íþróttafréttamanna um íþróttamann ársins vegna þess að hún, eða öllu heldur Crossfit er ekki til innan ÍSÍ. Af þeim sem eru þar á blaði verður áreiðanlega um jafna keppni að ræða en ég myndi segja að Kolbeinn Sigþórsson, Kári Steinn Karlsson og Aron Pálmarsson komi sterklega til greina.

Tónlistarmaður ársins:  Mugison. Sá hann læf eins og þúsundir annarra.

Hljómsveit ársins:  Of monsters and man.  Sá  þau líka læf og heillaðist.

Plata ársins:  Haglél.  My head is an animal og Winter sun koma þar á eftir.

Lag ársins:  Little talks.

Erlend plata ársins: Adele - 21

Erlendur tónlistarmaður ársins: Adele.  Bruno Mars átti reyndar sæg af vinsælum lögum en Adele er bara frábær.

Maður ársins:  Þarna á ég erfitt með að gera upp á milli Mugison, Annie Mist og Guðmundur Felix sem ætlar að láta hendur standa fram úr ermum á næsta ári en hann er búinn að vera mjög duglegur við að vinna að því að fá nýjar hendur eftir að hann missti báðar í vinnuslysi fyrir nokkrum árum. 

Vonbrigði ársins:  Veðrið í sumar.

Tré ársins:  Nei hættiði nú alveg.


Kærleikur og ást

Hvað eru jólin?

Jólin eru kærleikur og ást.

Jólin eru líka hátíð barnsins, þar sem við hleypum út barninu í okkur og reynum að gera jólin að sérstakri stund fyrir börnin okkar.

Kristnir menn tengja jólin við fæðingu Krists og halda þar af leiðandi upp á fæðingu frelsarans sem boðaði kærleika og ást.  Ekki hefur mönnum tekist að sýna fram á það með óyggjandi hætti að Jesú hafi fæðst á þessum degi, eiginlega eru líkurnar á því 1/365 en það er algjört aukaatriði.

Aðrir trúarhópar halda líka hátíðir um þetta leiti og einhverjir þeirra halda því jafnvel fram að kristnir menn hafi stolið jólunum af sér.  Ég held samt að fólk í miðausturlöndum hafi lítið verið að spá í hvenær fólk annarsstaðar í heiminum héldu hátíð.

Jólin eiga sér sennilega enn lengri sögu en nokkur trúarbrögð.  Vetrarsólstöður og gangur himintunglanna er sennilega það sem ræður þessari tímasetningu en eftir 21. des fer daginn að lengja og þá er nýtt upphaf nýtt tímabil, nýr hringur, birtan fer að aukast og myrkrið að víkja.  Þessi tími er því kjörinn til þess að gera sér glaðan dag og fagna sigri ljóssins.  Kjörinn tími til að gera góðverk, kjörinn tími fyrir kærleika og ást.  Þetta er ef til vill orðið allt of væmið en jólin eru líka væmnasti tími ársins.

Í fyrra samdi ég jólalag sem heitir kærleikur og ást. Textinn er svona:

 

Kærleikur og ást

Söngvar um gleðileg jól

Berast um bæi og borg

Hósíanna

Og Hallelúja

Hljóma um stræti og torg.

 

Jólin koma til mín

Er lægst er á himni sól

Jólaljósin

Jólasnjórinn

Í hjartanu þrái ég jól

 

Þó að jólin komi innpökkuð

Í glanspappír og glimmerskraut

Við skulum ekki gleyma því

Að allt sem þetta snýst um

Er kærleikur og ást

 

Jólapakkaflóð

Bíður eftir mér

Jólasveinar

Jólapakkar

Og kannski koss frá þér

 

Þegar jólin ganga í garð

Þá fyllist allt hátíðarblæ

jólasteikin

Jólalögin

Sem hljóma sí og æ

 

Þó að jólin komi innpökkuð

Í glanspappír og glimmerskraut

Við skulum ekki gleyma því

Að allt sem þetta snýst um

Er kærleikur og ást

Tónaflóð

Þá er að koma jólafrí frá tónaflóði haustsins.  Þetta haust er búið að vera óvenjulegt að því leiti að frá því um miðjan sepember hafa nánast öll kvöld vikunnar verið tekin undir tónlistariðkun af einhverju tagi.  Það er helst að það hafi verið frí á sunnudögum.  Hljómsveitin Zone hefur tekið 1 – 2 kvöld í viku, Karlakórinn Trausti 1 – 2 kvöld í viku og tónleikafélagið 1 – 2 kvöld í viku og svo hefur verið eitthvað um að ég hafi verið að spila einsamall.  Það er því mikið búið að syngja og hálsinn er búinn að vera undir miklu álagi og að undanskildu svefnleysi eru þeir ófáir morgnarnir sem eymsli í hálsi og hæsi er það fyrsta sem maður tekur eftir í skammdegismyrkrinu.  Þrátt fyrir að þetta taki mikinn tíma er þetta búið að vera afskaplega skemmtilegt tímabil og auðvitað er maður glaður með að eiga kost á því að sinna áhugamálunum með þessum hætti.  Þakklæti er kannski rétta orðið.  Það eina sem maður hefur saknað er frítíminn og fjölskyldan en það er mikils virði að vita af því að það er staðið 100% við hryggsúluna á manni til að hægt sé að stunda þetta en stundirnar sem maður er heima við verða enn dýrmætari þegar þær eru eins fáar og raunin hefur verið.  Lögmálið um framboð og eftirspurn gildir þar eins og víða annarsstaðar.  Karlakórinn fór í jólafrí 10. des, Tónleikafélagið verður með tónleika í kvöld og síðasta Zone æfingin verður á mánudagskvöld.  Hljómsveitarstússið byrjar svo væntanlega fljótlega eftir áramót, sem og karlakórsæfingar, og væntanlega líður ekki á löngu þar til Tónleikafélagið fer að huga að Hammondhátíð.  Ég mun því svífa inn í vorið á vængjum tónlistarinnar.

Reimleikar II

Svona í framhaldi af færslunni hér að neðan er rétt að bæta eftirfarandi við:

Ýmsar kenningar eru uppi um hvaða fólk tók sér far með manninum sem var að koma frá Runná en eitt af því sem hefur verið nefnt er að eitt sinn stóð bær töluvert ofan við núverandi bæjarstæði.  Álög höfðu verið lögð á manninn og svo fór að hjónin létust bæði þegar skriða féll á bæinn árið 1792.  Nánar má lesa um þetta í bókinni Tröllaspor, Íslenskar tröllasögur II eftir Öldu Snæbjörnsdóttur, en bókin kom út nú fyrir jólin.

Varðandi það þegar fólkið í rútunni sá manneskjurnar tvær er vert að taka fram að í fólksflutningabifreiðinni er inniljós sem lengi hefur verið bilað.  Þegar rútan var stöðvuð til þess að bakka í átt að fólkinu kviknaði allt í einu á ljósinu en þegar ekkert sást til fólksins fór ljósið í fyrra horf og hefur ekki kviknað síðan.


Reimleikar á Berufjarðarströnd

Eins og margir vita hefur hinn alræmdi draugur Skála-Brandur, kenndur við bæinn Skála, haft aðsetur á Berufjarðarströnd en auk þess eru til margar þjóðsögur frá þessum slóðum.  Í haust hafa yfirnáttúrulegir atburðir átt sér stað á strönd Berufjarðar.

Í byrjun október síðastliðnum var maður sem búsettur er á Djúpavogi að sækja bílinn sinn sem hafði verið í viðgerð hjá snillingunum á bænum Runná á miðri Berufjarðarströndinni.  Maðurinn hafði nýlagt af stað frá Runná og var ekki kominn að Gautavík þegar hann varð var við að tvær manneskjur voru komnar í bílinn hjá honum.  Í framsætinu sat kona í dökkri kápu með klút um höfuðið og í aftursætinu sat maður en þar sem farið var að skyggja var fatnaður hans ekki greinilegur og ekki sáust andlit fólksins.  Fólkið lét vita af því að það vildi fara úr bílnum þar sem stutt væri niður að sjó.  Áfram var keyrt en þegar komið var fram hjá bænum Lindarbrekku þar sem vegurinn liggur í fjörunni, örfáa metra frá sjónum, sprakk dekk á bílnum og maðurinn stöðvaði bílinn og fór út til að skoða dekkið.  Þegar hann kom aftur inn í bílinn var fólkið farið.

Svo var það núna í nóvember að eldri borgarar frá Djúpavogi voru að koma heim frá skemmtun austur á fjörðum.  Haukur Elísson hafði verið fenginn til að keyra hópnum á fólksflutningabifreið af Benz Sprinter gerð en þegar komið var út af malbikinu fyrir utan Hvannabrekku sá fólkið í rútunni tvær manneskjur standa við vegarbrúnina, önnur grænklædd og hin rauðklædd.  Bifreiðin var stöðvuð samstundis og bakkað til að athuga hvað fólkið væri að gera þarna en þegar til baka var komið var ekkert fólk sjáanlegt lengur.
Berufjarðarströnd


Dauður tími

Þegar ekkert er að gera þarf maður að finna sér eitthvað að gera til að drepa tímann.  Það getur stundum verið snúið.  Svo kemur það fyrir að annríkið er of mikið og frítíma skortið eða eins og sagt er það vantar dauðan tíma.  Þarna er komin upp mótsögn.  Ef maður drepur tímann hlýtur maður að enda uppi með dauðan tíma.  Samt ekki.  Þetta er snúið, hvernig virkar þetta eiginlega?   Ef maður drepur tímann hefur það áhrif á eilífðina?  Annars er lítið um dauðan tíma hjá mér núna, ég þarf sennilega að fremja fjöldamorð á tímanum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 6
  • Frá upphafi: 66420

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 6
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband