Færsluflokkur: Bloggar

Andfætlingatónlist, White 'n' Fun

Nú hafa mér áskotnast þrír mjög svo skemmtilegir geisladiskar, ja eiginlega fjórir.

Jack White.  Þennan pantaði ég mér af hinni mjög svo hagstæðu vefverslun, play.com. Þetta er frábær diskur með þessum frábæra tónlistarmanni, sem áður gerði garðinn frægan með White stripes, Dead weather og Raconteurs.  Jack kallinn minnir mig stundum á Ray Davies en mér finnst stundum bregða fyrir einhverjum fjarlægum Kinks hljóm í lögunum hans.  Áreiðanlega ein af plötum ársins 2012.

Dave Dobbyn.  Karen færði mér tvo diska frá Nýja - Sjálandi og annar þeirra er með fremsta tónlistarmanni þeirra, Dave Dobbyn sem er búinn að vera vinsæll þar í landi frá því í kringum nítjánhundruðogáttatíu.  Hann er í Nýja - Sjálandi sambærilegur við Kim litla Larsen í Danmörku eða Bruce litla Springsteen í Bandaríkjunum, já og kannski Bubba litla Morthens hér á Íslandi. Diskurinn sem ég fékk heitir Available light og er frá árinu 2005 og af honum varð lagið Welcome home vinsælast.  Þetta er þægileg og vönduð popptónlist  Ég man eftir Áströlskum safndiski sem ég eignaðist 1988 og á honum átti Dave litli Dobbyn eitt lag Slice of heaven sem er sagt vera eitt vinsælasta lag Nýja - Sjálands fyrr og síðar.

Six60.  Hinn Nýsjálenski diskurinn er með vinsælustu hljómsveit Nýja - Sjálands um þessar mundir.  Nei annast lang vinsælustu hljómsveit Nýja - Sjálands um þessar mundir.  Þeir gáfu út diskinn sinn í október 2011 og hann velti sjálfri Adele af toppnum þar í landi og þeir eru búnir að selja meira af honum en t.d. Foo Fighters hafa selt þar í landi.

Svo má í lokin nefna að diskurinn með hljómsveitinni Fun er alveg fínn, ef maður er að leita að tónlist sem minnir á Queen eða Mika.


Bieber boxari

Ég get ekki gert að því en óneitanlega vakna nokkrar spurningar þegar maður les svona.

 

Skyldi Justin hafa gengið upp að ljósmyndaranum án nokkurs fyrirvara og buffað hann?

Skyldi ljósmyndarinn hafa beðið skaða af?

Myndi maður segja frá því ef drengur sem er nýkominn úr mútum myndi lemja mann?

Skyldi ljósmyndarinn kannski vera svona mikið minni vexti en Justin?

Skyldi þessi ljósmyndari vera að reyna að ná sér í smá aukapening?

Skyldi þessi ljósmyndari vera saklaus af því að hafa elt Justin á röndum?

Ætli ríka og fræga fólkið sé alveg óvarið fyrir ágengum ljósmyndurum?

Ætli Justin sé búinn að massa sig upp?

Ætli hann verði kannski á sjómannaballinu á Höfn í Hornafirði um helgina, þar gæti hann nú kannski náð sér í smá slagsmál.

Spyr sá sem ekki veit.


mbl.is Kærður fyrir líkamsárás
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bless Didier

Heill og sæll Didier.

Ég vildi bara þakka þér fyrir þessi átta ár sem þú ert búinn að vera hjá Chelsea og takk fyrir mörkin 157 sem þú skoraðir.  Þú varst gjörsamlega óstöðvandi þegar þú spilaðir sem best og enginn varnarmaður réði við þig.  Ég man fyrst eftir að hafa séð þig í Evrópuleik með Marseille gegn Newcastle og tók þá strax eftir að þarna var kraftmikill framherji á ferð.  

 

Það var svo ánægjulegt að sjá þig leggja upp eina mark leiksins fyrir Eið Smára í þínum fyrsta leik með Chelsea gegn Manchester United í ágúst 2004 (þetta var líka fyrsti leikur Mourinho, þú manst). 

 

Eftirminnilegasta markið sem þú skoraðir með þeim bláklæddu er mark sem þú skoraðir gegn Liverpool á Stamford Bridge, þar sem þú fékkst sendingu þar sem varst fyrir utan teig og snerir baki í markið og Jamie Carragher var í bakinu á þér.  Þú tókst boltann á kassann, bjóst þér til pláss, snerir þér við og þrumaðir honum í markhornið. 

Já þær eru margar ánægjustundirnar og margir snilldartaktarnir sem þú hefur sýnt, en nú er komið að leiðarlokum, ég skil vel að þú viljir róa á önnur mið enda orðinn 34 ára og búinn að vinna allt sem hægt er að vinna með Chelsea.  Takk fyrir allt og gangi  þér vel.

Kveðja,

Kristján I.
mbl.is Drogba: Mjög erfið ákvörðun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Enska deildin

Þvílíkur endir á ensku deildinni.  Ég var farinn að óska United mönnum til hamingju með titilinn enda komið fram í uppbótartíma hjá City og þeir marki undir.  En undur og stórmerki gerðust, þeir náðu að sigra.  Önnur eins dramatík hefur ekki verið í enska boltanum frá því að Michael Thomas tryggði Arsenal titilinn með því að skora bæði mörk liðsins í 2-0 sigri gegn Liverpool árið 1989 og það var akkúrat það sem þurfti til þess að Arsenal vann titilinn en ekki Liverpool.  Önnur eins spenna og dramatík og núna á líklega seint eftir að sjást aftur og kannski væri bara ráð að hætta með enska boltann af því að þetta verður ekki toppað.


Hvað kom skemmtilegast á óvart í vetur? Swansea.  Búnir að spila frábærlega í vetur og einstaklega gaman að sjá Gylfasig spila með þeim.  Fyrir mitt lið var skemmtilegast að sjá þá vakna til lífsins með tilkoma Robba Di Matteo.

Mestu vonbrigðin:  Fyrir mig, gengi minna manna í Chelsea og vangeta Villas-Boas til þess að gera betur.  Almennt séð er þó erfitt að velja milli Stewart Downing og Liverpool.  Miklar væntingar voru hjá púllurum fyrir tímabilið en þrátt fyrir að hafa unnið Mikka mús bikarinn þá skitu þeir á sig eins og svo oft áður en það virðist vera rétt það sem maðurinn sagði, Liverpool er frábær klúbbur, bara í þátíð, nú eru þeir ekki einu sinni besta liðið í Liverpoolborg.  Stewart Downing var keyptur fyrir 20 milljónir og það hljóta að vera mikil vonbrigði að kantmaður sem kostar þetta mikið og er búinn að spila hátt í fjörutíu leiki skuli hvorki vera búinn að leggja upp eitt einasta mark, hvað þá að skora.  Spurning hvort Queen Kenny nær að gera hann að þeim leikmanni sem réttlætir þessi kaup.

Og nú er bara að bíða eftir næstu leiktíð, vonandi verður fjör í leikmannakaupum í sumar.

Hvaða leikmann væri gaman að  sjá aftur í ensku deildinni?  Pascal Cygan í vörninni hjá Arsenal.  Hvaða nýja leikmenn væri gaman að fá í deildina?  Falcao og Adriano Lopez hjá Atletico Madrid væru kærkomin viðbót.  Annars held ég að mínir menn þurfi helst góða menn á hægri vænginn.

Skemmtilegasti leikur: Chelsea - Arsenal.

Leiðinlegasti leikur:  Arsenal - Chelsea.

Fallegasta mark: Peter Crouch eða Papis Cisse, þetta eru keimlík mörk og erfitt að gera upp á milli.


Bauhaus

Hundruðir manna mæta eldsnemma út í búð sem er að fara að opna.  Þetta er alveg dásamlegt.  Ætli þessi kreppa sé þá búin? Við getum öll andað léttar.

Svo er til bresk hljómsveit sem heitir Bauhaus, hún er væntanlega eins og verslunin, skírð í höfuðið á þessum Þýska listaskóla.  Fyrsta lagið sem ég man eftir að hafa heyrt með sveitinni var kover af einu besta rokklagi allra tíma, Ziggy Stardust. Þeir áttu nokkur þokkaleg lög þarna í kringum nítjánhudruðogáttatíu og eru að því er ég best veit ennþá starfandi.

 


mbl.is Allt fullt hjá Bauhaus
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Staðarskáldin V

Hrönn Jónsdóttir er staðarskáld okkar Djúpavogsbúa um þessar mundir.  Hún hefur ort fjöldann allan af tækifærisvísum og textum sem sungnir hafa verið á hinum ýmsu samkomum og þegar vantar heimatilbúinn texta um staðrænt (lókal) yrkisefni er oftar en ekki leitað til Hrannar.  Hrönn hefði svo sannarlega þurft að gefa út ljóðabók en ljóð eftir hana hafa ma.a birst í bókinni Raddir að austan ljóð Austfirðinga, sem félag ljóðaunnenda á Austurlandi gaf út árið 1999.  Þá gaf Hrönn út hefti með ljóðum sínum sem nefndist Rakkaberg árið 2002 í tilefni af tuttugu ára búsetu á Djúpavogi og reiknið þið nú hvað hún er búin að búa lengi á staðnum.   Hrönn hefur notað hin ýmsu stílbrögð við ljóðagerð sína eins og sjá má af eftirfarandi sýnishornum en auk þess er yrkisefnið afar fjölbreytt.

 

Langabúð

Líttu inn í Löngubúð

Ljúft er hér að mætast

Undir hinni öldnu súð

Ilmar kaffið sætast.

 

Öfugsnúður

Hin tvíkynja Tóta á Bakka

Var til með að láta það flakka

Í eróbik tíma

Var hún alltaf að glíma

Við að eiga með sjálfri sér krakka

 

Slys

Á vorljósri nótt er æskan sér undi við dans

Á örskammri stundu var gleðinni snúið í hryggð

Sem eldur í sinu barst fréttin frá manni til manns

Það var myrkur og þögn þessa nótt í lítilli byggð.

 

Því einn af þeim bestu sem átti að vera hér kyrr

Til annarra starfa var hrifinn í skyndi á brott

Örlaganornin er óvægin rétt eins og fyrr

Aldrei fæst svar þótt um tilgang lífsins sé spurt.

 

Svo hljóð var svú nótt að hjartsláttur dundi sem gnýr

Og hlakkandi mávur í fjörunni þagði sem steinn

Dagur í austri sem ætlaði að hljóma hér nýr

Í auðmýkt stóð kyrr þó hann kynni að verða of seinn.

 

Og döggin í grasinu glitraði rétt eins og tár

Er grátandi moldin felldi á örlagastund

Fjörðurinn hér sem var vanur að vera svo blár

Var vafinn í gráma sem fyllti hvert ögur og sund.

 

Og ennþá er munað hvert andartak þessa nótt

Þótt aftur sé fjörðurinn hér orðinn skínandi blár

Stundum er samt eins og allt verði óvenju hljótt

Og ennþá er moldin að fella saknaðartár.

 

 

Svo er hér eitt fallegt ort með óbundnum hætti

Sumarnótt við Svalbarðstanga

Sandgrátt

Himingrátt

Sjógrátt

 

Ekkert

Sem stingur í augun.

 

Sléttur sjór

Sléttur himinn

Sléttur hugur

 

Ekkert

Sem lætur mig hrökkva við.

 

Nema

Mávurinn sem flaug upp

Strákurinn á rúntinum

Og stofuklukkan

 

Sem var orðin allt of margt

 

Þegar ég hélt

Að tíminn

Stæði kyrr með mér.


Staðarskáldin IV

Trausti Finnsson (f: 1952 - d: 2008) orti margar hnyttnar stökur en ég held að hann hafi ekki skrifað neitt af því niður enda leit hann alls ekki á sig sem ljóðskáld.  Ég veit ekki um hvaða bragarhátt er að ræða en það er eitthvað sambland með skemmtilegum hrynjanda. Margar þeirra hafa lifað meðal samferðamanna hans og vonandi hafa einhverjir skrifað niður og safnað þessum gersemum en mér skilst að uppi hafi verið hugmyndir um að safna vísunum saman og gefa þær út, vonandi verður það að veruleika enda um þarft verkefni að ræða.  Ég veit ekki um hvaða bragarhátt er að ræða en það er eitthvað sambland með skemmtilegum hrynjanda.

Hér er dæmi um vísu, þar sem hann er að greina frá lífshlaupi sínu:

Fæddur í Fögruhlíð,

ólst upp í Birkihlíð.

Bý nú í Bogahlíð,

gengið inn frá Stakkahlíð.

 

Og annað, þar sem séra Sigurður Ægisson var með pensil í hönd að mála, hátt uppi í stiga:

Siggi í stiganum stendur,

stjarfur af hræðslunni.

Ég held honum hefði verið nær

að fá sér vinnu í Bræðslunni.

 

Önnur sem varð til þegar Trausti og Siggi prestur voru að helluleggja stéttina við Grunnskólann.

Hjalti gamli hirðir sorpið

Og hleður því í sekki.

Prestastéttin prýðir þorpið

En presturinn ekki.

 

Trausti var á bát á Hornafirði þegar Ásgrímur Halldórsson var kaupfélagsstjóri og fiskiríið var eitthvað dapurt:

Kvótinn ekki kláraðist

Grímsa féllust hendur.

Er það einhver vitleysingur

sem í brúnni stendur.

 

Önnur líka frá Hornafirði þegar lensidæla í bát bilaði og tveir menn stóðu í viðgerð en hjá öðrum þeirra var viðkvæðið alloft "Ég veit ekki meir".

Lensan ekki lensaði

Þeir unnu í henni tveir.

Andrés spurði Reyni

Ég veit ekki meir.

 

Að lokum ein sem varð til niðrí Blá Þegar Trausti og Eðvald voru staddir þar:

Valdi frændi datt í dý

Trausti var þar í grenndinni

Hann hefði sjálfsagt dregið hann upp

Ef hann hefði ekki verið svona vondur í hendinni.


Staðarskáldin III

Næstur í röðinni af staðarskáldunum er Jón Sigurðsson (F: 1915, D: 1989), eða Jón í Rjóðri eins og hann var kallaður.  Jón var fæddur á Starmýri í Álftafirði og ólst upp þar skammt frá eða á Melrakkanesi.  Árið 1996 var gefið út ljóðasafnið Gullkambur með ljóðum Jóns og innihélt bókin 50 ljóð.  Í formála segir:

"Jón var vel hagmæltur og íslenska stakan var honum hugstæð. Einnig gerði hann mörg lengri kvæði. Ekki orti hann í þeim tilgangi að afla sér fjár og frægðar, heldur til að gleðja sjálfan sig og aðra og stundum til að sefa sorg og söknuð samferðafólksins."

Í ljóðasafninu Gullkambi eru bæði stuttar vísur og lengri kvæði og yrkisefnið er eins og hjá svo mörgum daglegt líf en af kveðskapnum að dæma virðist náttúran líka hafa verið Jóni hugleikin.

Hér eru nokkur dæmi um stökur eftir Jón:

 

Um þig breiðist ekkert húm,

öllu verstu fári.

Gefi þér eitthvað gott í rúm

guð á þessu ári.

 

Sannleikanum sýnist tregt

að sigra í öfugstreymi.

Enda er orðið leiðinlegt

að lifa í þessum heimi.

 

Lifnar flestra ljóðaþrá,

leyst úr vetrarböndum,

þegar svanir suðri frá

svífa á vængjum þöndum

 

Og svo  ein lítil veiðisaga:

Veiðimaðurinn

Hress í anda hélt að á

Hratt í veiðimokið

Kynjahæng einn karlinn þá

Krækti í augnalokið

 

Er er leit hann ódráttinn

Ógn varð karlinn hræddur

Heim að bæ með hænginn sinn

Hélt nú ærið mæddur

 

Bóndi hraður brást þá við

Beitti töng með snilli

Af svo klippti agnhaldið

Augnháranna milli

 

Ævintýrið úti var

Endir góðan hreppti

Heldur fegin hetjan þar

Hængnum síðan sleppti.

 

Jón átti um skeið Lödu bifreið sem hann var afskaplega ánægður með.

Lödu vísur

Ók ég glaður ekkert víl

Einn í dagsins hita

Þeir sem lasta Lödu bíl

Lítið um hann vita

 

Oft ég þarf að flýta för

Og fara tæpa götu

Alltaf hress og öruggur

Er ég keyri Lödu.

 

Til barna Dóru


Ömmu þinni og afa frá

Óskir bestar hljóttu

Og hverju degi ævi á

Yndi og gleði njóttu

 

Bíl á vegi bát á sjó

Bráðum muntu stýra

Dráttarvél sem dregur plóg

Með dísilvél og gíra

 

Nýjar buxur nafna fékk

Núna í dag frá ömmu

Verður því að vera þekk

Við hann pabba og mömmu.

 

Ljúft er að fagna litlum gest

Ljóði með frá sænum

Vertu afa yndið mest

Og ömmu ljós í bænum

 

Elskulegi Ásgeir minn

Á þig sólin skíni

Æviferil allan þinn

Ætíð ljómi krýni

 

Hallur gekk um hól og barð

Hann ber engin lýti

Frægastur í flokknum varð

Fór á kaf í Víti

 

Hjörtur sem að hræðist kýr

Hann er skrýtinn drengur

Ef hann verður bóndi og býr

Blessast það ei lengur.


Staðarskáldin II

Annar í röðinni af staðarskáldunum er Hjálmar Guðmundsson frá Fagrahvammi ( F: 1897 - D: 1961).  Hjálmar orti fjöldan allan af lausavísum, mest af því ferskeytlur þar sem umfjöllunarefnið var menn og málefni líðandi stundar.  Sennilega hefur hann ekki skrifað mikið hjá sér heldur frekar lagt þær á minnið en gaman væri nú samt að athuga hversu miklu væri hægt að safna saman af því sem menn ennþá kunna og því sem skráð hefur verið niður, en eitthvað er til á Héraðsskjalasafni Austurlands.  Hjálmar á fjöldan allan af afkomendum á Djúpavogi og víðar og ef til vill eiga afkomendur hans eitthvað meira af kveðskap í fórum sínum.  Full ástæða væri til að taka þetta allt saman í hefti þó ekki væri nema fyrir skyldmenni hans að eiga.   Hjálmar byrjaði ungur að yrkja og fyrsta vísan sem til er eftir hann er sennilega frá því að hann var aðeins fjögurra ára gamall en hún varð til eftir vonsku veður og er svona:

 

Hurðirnar fjúka af hjörunum

Hvellur strengur í fjöllunum.

Það er skítt fyrir skollunum

Því skínandi sól er á vorin.

 

Ein birtist á prenti en hana orti Hjálmar fyrir systur sína þegar hann var níu ára.

 

Illa liggur á henni

að henni sækir húmið.

Fer hún mamma frá henni

og fleygir henni í rúmið.

 

Veðurfarið virðist hafa verið honum nokkuð hugleikið en þó nokkrar vísur eftir hann tengjast veðráttunni:

 

Þriðjudagur: 27. mars 1962
Norðaustan kaldi, frost.

Svelluð jörð og sólin mött
seinkar vini þráðum
-hér fer allt í hund og kött
ef hlýnar ekki bráðum.

Mánudagur: 9. apríl 1962 (fimmtíu ára þegar þetta er skrifað og birt)
Austan snjókoma, frostlaust, hrafnagusa.

Hrafnagusan hrellir lýð
hún er löngum brellinn,
annað hvort með austan hríð
eða norðan hvellinn.

 

Það litla sem ég hef séð eftir Hjálmar eru allt saman ferskeytlur, kveðnar við dagleg störf og hin ýmsu tækifæri og hér er ein í viðbót með innrími og alles, kveðin á leið heim úr fiskiróðri:

 

Handa stillir vindur voð

Varla grillir strendur

Landa milli gengu gnoð

Gulli fyllast hendur


Staðarskáldin I

Þessi pistill er sá fyrsti af fimm undir titlinum staðarskáldin þar sem efnið er ljóð fólks frá Djúpavogi.  Sá fyrsti í röðinni heitir Jakob Gunnarsson (f. 1886, d. 1942)  og bjó í Fögruhlíð.  Ég man aðeins eftir Fögruhlíð, en bærinn stóð rétt neðan við Steinsstaði.   Jakob var mikill snillingur, hann virtist eiga auðvelt með að yrkja en hann orti mikið af vísum og textum við sönglög.

Á árunum 1920-40 starfrækti Jakob skóverksmiðju sem nefndist Fabrikkan. Þar voru framleiddar svokallaðar "kobbasíur" sem í daglegu tali eru kallaðar gúmmískór. Voru þessir skór vinsælir víða um land og þóttu bæði ódýrir og ísmeygjanlegir. Lítill lækur rennur framhjá gamla Fögruhlíðarbænum og var Jakob svo hugvitssamur að virkja lækinn til þess að framleiða rafmagn fyrir skóvinnustofu sína.

Hér eru svo nokkur ljóðdæmi en yrkisefnið var jafnan daglegt líf og nánasta umhverfi.

Vísur um sólina:

Sólin til vesturs nú sígur

Senn lítur dagurinn kær

Í austri hún aftur upp stígur

Svo yndisleg fögur og skær.

 

Hún gleður hvert göfugt mannsins hjarta

Hún gleður hvern örþjáðan mann

Með gullfagra geislanum bjarta

Þeim geislanum margur heitt ann.

 

Þá virðast jólin hafa vakið upp skáldagyðjuna sem í Jakobi bjó en þó nokkur kvæði um jólin liggja eftir Jakob og eflaust mætti syngja þau við þekkt lög eða þá að semja nýtt lag við þau.  Þá orti Jakob nokkur kvæði til Margrétar dóttur sinnar og þessi kveðja er bæði falleg og skemmtileg:

Til Margrétar Jakobsdóttur, frá pabba.

Ég vísu þér lofaði vinan mín kæra

Hún verður þér indælar fréttir að færa

Frá pabba og afa og ölum hér heima

Enginn er hér búinn Möggu að gleyma.

 

Okkur líður hér vel, nema vænt er hér kvefið

Víst er það bót að fæst tóbak í nefið

En þá vantar reyktóbak það er nú verra

Þarna ég enda æ nú fékk ég hnerra

 

Heilsaðu frænda og frænku með blíðu

Frá mér og afa sem liggur á síðu

Í rúminu sínu því snemma er á degi

Ég stoppa nú hér ekki meira ég segi.

 

Heilsaðu Böggu ef hittir þú hana

Henni þá segðu að ég sé að vana

Að líma hér skótau og lappa í aðra

Ég læt sem ég vilji ekki meir um það blaðra.

 

Að lokum, Jakob var, eins og komið hefur fram, skósmiður en var kannski ekki alltaf aðgangsharður við að rukka,  allavega voru reikningarnir sem hann sendi mun skemmtilegri en þeir sem gefnir eru út nú á dögum.  Það væri ekki amalegt að fá reikning í bundnu máli eins og þennan sem Jakob sendi Ragnari á Rannveigarstöðum eitt sinn vegna viðgerðar á skóm:

 

Fyrst ég gerði garma að skóm

Sem gjarnan er bara hugmynd tóm.

Stikaðu dalinn út og inn

Allra besti Ragnar minn.

 

Fjórar krónur kostar það

Að koma svona botnum að.

Reimar sitja rúnt í kring

Ég raula ei meira eða syng.

 

Ef þú hefur aura gnótt

Svo að þitt ei geri sinni rótt.

Sendu Kobba halta helst

Hér í aðeins beiðni felst.

 

Mín allra besta ósk er góð

Að allir krakkar menn og fljóð.

Lifi í gleði allir eins

Og enginn kenni nokkurs meins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband