Færsluflokkur: Bloggar
20.9.2015 | 21:04
Hörpudiskur, Heimsókn og HM
Hingað á eyjarnar komu góðir gestir fyrir helgi en Jón og Steinunn í Bergholti voru á ferðalagi um Skotland og Orkneyjar. Að sjálfsögðu létu þau vita af sér þannig að okkur gafst tækifæri á að hittast og mikið er nú indælt að hitta Djúpvogska bæjarbúa hér á Orkneyjum.
Helgin var vinnuhelgi, þær eru búnar að vera nokkrar í röð núna, en í gær bar svo við að það renndi bátur upp að kvíunum okkar og voru þar á ferð hörpuskeljakafarar og spurðu þeir hvort við vildum skipta á nokkrum tómum fóðurpokum og hörpudiski. Auðvitað féllumst við á það og það varð til þess að sunnudagsmáltíðin mín var þríréttuð. Í forrétt var pönnusteiktur hörpuskelfiskur með hvítlaukssmjöri og salati í forrétt, í aðalrétt var brauðsneið með bökuðum baunum og osti og í eftirrétt var súkkulaði og piparmintuís. Ekki amaleg máltíð það. Annars er nú ætlunin að fara fljótlega í köfunarferð on ná í skelfisk og humar.
Eftir vinnu drífa strákarnir sig heim þessa dagana til þess að fylgjast með heimsmeistarakeppninni í Rugby sem fram fer á Englandi þessa dagana. Hér í Skotalandi er Rugby sennilega vinsælla en knattspyrna og það sama má segja um Írland og Wales. Gríðarlegur áhugi er fyrir heimsmeistarakeppninni og sjálfsagt kemst maður ekki hjá því að fá vitneskju um hvað er að gerast á þessu heimsmeistaramóti. Þrátt fyrir mikil átök, pústra og hamagang virðast rugbyleikmenn alla jafna rólegheitamenn og sjást mjög sjaldan asa sig, reiðast eða reyna að slást við andstæðingana enda segja þeir hérna að Rugby sé ruddaíþrótt spiluð af heiðursmönnum en fótbolti sé heiðursmannaíþrótt spiluð af ruddum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.9.2015 | 21:13
Annir og appelsínur
Síðustu dagar hafa verið annasamir í vinnunni og verða það næstu tvær vikurnar eða svo á meðan allt er að fara í gang þannig að það hefur varla verið tími til þess að kveikja á tölvu nema rétt til þess að skoða tölvupóst í vinnunni. Ofan á allt annríkið í vinnunni þurfti ég svo að vera á siglinganámskeiði en á morgun klárast siglingafræðihlutinn og verklegi þátturinn verður svo væntanlega í nóvember. Telma kom til okkar á þriðjudag og hún ætlar að vera hjá okkur í nokkra mánuði, spurning hvort hún heldur það út.
Nú eru göngur væntanlega að hefjast á Íslandi og persónulega finnst mér það skemmtilegur tími. Hér á Orkneyjum er ekki smalað þrátt fyrir töluverða sauðfjárrækt. Bændurnir hér hafa hins vegar miklar áhyggjur af fóðurskorti en sumarið var nokkuð blautt, það blautt að ekki var hægt að fara með vinnuvélar á túnin vegna þess að þær hefðu markað djúp för í túnin og stórskemmt þau. Talið er að bændur hér um slóðir þurfi að kaupa allt að sjöþúsund tonn af heyi og þrjúþúsund tonn af byggi og flytja það með tilheyrandi kostnaði frá meginlandinu.
Í dag er nákvæmlega eitt ár síðan kom ég fyrst hingað til Kirkjuvogs en ég var boðaður í viðtal sem fram fór fimmtudaginn 18. september fyrir ári. Ekki grunaði mig þá að ári síðar yrði ég enn á Orkneyjum, ynni í fiskeldi á daginn og bloggaði á kvöldin. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er segja menn og jú sjálfsagt hafa menn eitthvað til síns máls.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.9.2015 | 19:22
Loksins loksins loksins
Í dag var langþráður dagur í vinnunni þegar fyrstu seiðin voru sett í kvíar. Þessari stund er búið að bíða eftir síðan þrettánda janúar og ef til vill má líkja þessari stund við það þegar barn fæðist. Meðgangan einkenndist af undirbúningi, bið og spenningi og nú þegar barnið hefur litið dagsins ljós tekur umönnunin við. Á ýmsu hefur gengið við undirbúninginn en ekki er hægt að segja annað en að vandað hafi verið til verka á öllum sviðum. Allt í allt verða sett um ein komma ein milljón laxaseiða í kvíarnar en á útmánuðum verður helmingurinn fluttur á aðra stöð en restinni verður splittað upp í tómar kvíar. Seiðin, sem eru um 80 grömm að þyngd, líta vel út og væntanlega verður hægt að fara að slátra fimm kílóa löxum eftir um 13 mánuði.
Og það er óþarfi að kvarta yfir því að hér sé lítið að gera en þessa dagana er ég á svokölluðu Coastal skipper námskeiði en það er framhald Day skipper námskeiðsins sem ég kláraði um daginn. Þegar ég er búinn að öðlast Coastal skipper réttindi uppfærast réttindi mín upp í að mega sigla bát allt að 24 metra að lengd á hvaða tíma sólarhrings innan 20 mílna frá öruggri höfn en Day skipper réttindin gilda aðeins í dagsbirtu. Þetta þýðir að fræðilega gæti ég siglt bát í kringum Bretlandseyjar ef sú staða kæmi upp.
Önnur verkefni þessa vikuna hafa meðal annars falist í aðstoð við færeyska rafvirkja sem komu hingað til þess að koma út ljósabúnaði í kvíarnar en ljósin voru keypt af þeim og vinna við uppsetningu var innifalin. Nú eru þeir Jógvan og Pætur farnir af landi brott en eins og Færeyinga var von og vísa voru þetta öðlingspiltar.
Á sunnudag var feðra og barna dagur í skólanum þar sem var ætlast til þess að feður kæmu með börnum sínum til þess að gera eitthvað skemmtilegt saman og að sjálfsögðu fór ég með Brynju. Við spiluðum pool, borðtennis og þythokkí, boðið var upp á hressingu, kaffi og meððí og að lokum var farið í fjársjóðsleit. Ég reyndi að telja Brynju trú um að þetta hafi verið skemmtilegt og kannski trúði hún því. Ívar Orri byrjaði fyrir alvöru í leikskólanum á mánudag, fyrstu tvo dagana var hann ekkert sérstaklega ánægður með dvölina þar og reyndi að telja mömmu sinni trú um að leikskóladagurinn væri búinn þegar þau voru á leiðinni í leikskólann. Hún lét þó ekki glepjast og það stóð heima þegar á leikskólann var komið að hann var ekki búinn að fara þann daginn enda var klukkan aðeins níu að morgni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2015 | 10:06
Sjálfsafgreiðsla og áhyggjulausir kjúklingar
Það fylgir víst starfi mínu að þurfa öðru hvoru að kaupa inn útgerðarvörur og hér eru tveir staðir sem selja slíkan varning en ég veit ekki hvort á að kalla þá útgerðarvöruverslanir eða eitthvað annað vegna þess að í augum íslendings virðast þeir ekki vera hefðbundnar verslanir. Annar staðurinn er á bílastæði, í kjallara og skúraþyrpingu í íbúðarhúsagötu hér í Kirkwall. Þar er yfirleitt enginn starfsmaður en maður tekur bara það sem mann vantar, setur í skottið á bílnum og skilur eftir miða þar sem maður skrifar sjálfur niður það sem maður tók. Verslunin, eða hvað sem á að kalla þetta, hefur verið starfrækt um árabil þannig að þetta virðist alveg virka og er staðfesting á því að hér býr heiðarlegt fólk. Hinn staðurinn er í gamalli hlöðu uppi í hlíðum Wideford Hill. Þar er alltaf einhver til staðar til þess að afgreiða en ásamt því að selja útgerðarvörur stunda eigendurnir hænsna og kalkúnarækt en þeir eru með svokallaða "free range" hænsnfugla. Það eru sumsé fuglar sem fá að valsa um frjálsir áhyggjulausir og hamingjusamir ólíkt verksmiðjuframleiddum kjúklingum sem hafa orðið fyrir frelsissviptingu, eru áhyggjufullir og óhamingjusamir, fiðurlausir með íturvaxnar bringur og læri. Um leið og maður nær sér í rúllu af 20 mm tógi getur maður valið sér kjúkling og viðkomandi er þá umsvifalaust afhöfðaður, reyttur og settur í poka, tilbúinn til eldunar. Eigandinn vill ekki kalla þetta lífræna ræktun þar sem hann telur að nú orðið sé alls konar drasl selt sem lífrænt þó að að sé alls ekki lífrænt.
Auðvitað horfði ég á leik Hollands og Íslands á fimmtudaginn og þeir koma manni sífellt á óvart þessir strákar. Nú bíður maður spenntur eftir leiknum við frændur okkar Kazaka, margir búast við sigri okkar manna og vonandi koma þeir manni ekki á óvart með einhverju öðru.
Þessu skemmtiferðaskipi mættum við á heimleiðinni á fimmtudaginn. Þetta er Royal Princess sem tekur 3600 farþega, er 300 m langt og er með risastóran bíóskjá efst uppi. Magnað að svona hátt skip hreinlega haldi ballans.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2015 | 21:18
Ítalska kapellan
Ekki er fjölskyldan nú búin að fara víða þessar tæpu þrjár vikur okkar saman hér í Kirkjuvogi. Þó fórum við um daginn að skoða Ítölsku kapelluna sem stendur á Lambhólma. Ítalska kapellan var byggð í heimsstyrjöldinni síðari af ítölskum stríðsföngum sem Bretar tóku til fanga í Norður-Afríku og fluttu norður á Orkneyjar. Á þeim tíma háttaði þannig til að á milli eyjanna á suðausturhluta Orkneyja voru þröng sund sem þýskir kafbátar nýttu sér gjarnan til þess að laumast inn á Skálpaflóa og skjóta niður herskip Breta. Winston Churchill ákvað að loka þessum leiðum fyrir kafbátana með því að fylla upp í sundin með steinsteypukubbum og bæta í leiðinni samgöngur með því að tengja saman eyjarnar Lambhólma, Glúmshólma, Borgarey og Suður Rögnvaldsey. Vinnuaflið sem var notað í þessar framkvæmdir vour einmitt fyrrnefndir fangar en þar sem Genfarsáttmálinn kveður á um að ekki megi láta stríðsfnaga vinna vinnu sem tengist stríðsrekstri var ekki hægt að láta þá gera þetta á þeim forsendum að verið væri að loka fyrir umferð kafbáta, heldur var því haldið fram að eingögngu væri um samgöngubætur að ræða. Hvað sem því líður, þá kviknaði þörf fyrir kapellu og því ákváðu fangarnir að ráðast í byggingu kapellunnar sem er í raun braggi með skreyttri framhlið. Kapellan var byggð af miklum vanefnumen er engu að síður afskaplega falleg og satt að segja hreinasta listaverk. Bragginn var klæddur með bárujárni og gifshúðaður að innan, altarið steypt úr steypuafgöngum úr fyrrnefndum samgönguframkvæmdum, einn fanganna málaði helgimyndir, kertastjakar voru búnir til úr niðursuðudósum og skírnarfonturinn var m.a. búinn til úr púströri gamallar bifreiðar.
Bloggar | Breytt 29.8.2015 kl. 07:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.8.2015 | 21:02
Meira af Orkneysku fjölskyldunni
Vegna töluverðra anna í vinnunni hefur ekki verið mikill tími til bloggs eða tölvuhangs en nú er verið að leggja lokahönd á að gera eldisstöðina okkar, sem staðsett er rétt sunnan við eyjuna Vigur, tilbúna. Fóðurpramminn kom á þriðjudag og síðustu daga höfum við verið að gera kvíarnar klára, setja út net og fleira. Þrátt fyrir annir í vinnu höfum við líka þurft að sækja námskeið og ég fór m.a. á skotbómulyftaranámskeið s.l. sunnudag en hér dugir ekki lyftarapróf á slíkt tæki enda um töluvert annarskonar tæki að ræða þó að bæði séu ætluð til þess að lyfta þungum hlutum og munurinn felst fyrst og fremst í því að óstöðugt tæki er gert enn óstöðugra með því að færa þyngdarpunktinn framar með því að skjóta bómunni fram um nokkra metra. Sea shepard heimsóttu okkur í dag, ekki kom til orðaskipta og því síður til handalögmála enda ekki vænlegt fyrir soyalattelepjandi eða jurtatesötrandi stórborgarbörn að abbast upp á sameiginlegt lið Skota og Íslendinga. Samtökin eru hér í þeim tilgangi að njósna um selveiðar og eflaust á fundum okkar eftir að bera saman aftur.
Nú er Brynja búin að vera í viku í skólanum og henni líkar það fremur illa. Hún hvorki skilur né talar ensku þannig að þetta er nokkuð erfitt en vonandi rætist smátt og smátt úr þessu. Til þess að létta henni lundina fórum við í steingervingasafn á Borgarey um síðustu helgi en eftir að ég hafði lesið Vísindabók Villa 2 fyrir hana fékk hún áhuga á steingervingum. Safnið er vel þess virði að heimsækja og það er magnað að geta skoðað 300 milljón ára gamlar lífverur sem nú eru orðnar að steini.
Ívar Orri er byrjaður í aðlögun í leikskólanum og ég hef engar áhyggjur af því, hann mun spjara sig, ég hef hins vegar meiri áhyggjur af blessuðum fóstrunum sem taka hann að sér og ég veit ekki hversu lengi þær endast í starfi. Í morgun þegar ég kom fram var ískalt í húsinu en ástæðan var sú að Ívar Orri hafði náð að teygja sig í rofa sem slekkur á kyndingunni. Ekki veit ég hvenær þetta hefur gerst en hér eru hitalagnir í gólfi sem hita upp húsið og það getur því tekið nokkra daga að kólna og jafnframt tekur nokkra daga að ná upp hita aftur. Forvitni, lítið vit og stækkandi vöðvar eru ekki góð blanda en ef maður horfir á björtu hliðarnar höfum við e.t.v. sparað nokkra hundraðkalla í kyndingarkostnað.
Ég sá nokkuð sniðuga fuglahræðu hjá einum bónda hér í nágrenninu en hann var búinn að festa flugdreka með ránfuglsmynd á trefjaplaststöng þannig að ránfuglinn sveimaði látlaust yfir túninu í sunnnanþeynum. Ekki sást ein einasta kráka eða gæs á túninu þannig að væntanlega var þessi aðferð hans að virka (þú getur smellt með músinni á myndina til þess að stækka hana).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.8.2015 | 20:34
Norðurljósaveiði
Nú styttist í að við fáum afhent seiði á stöðina okkar en eins og staðan er núna lítur helst út fyrir að rúm hálf milljón stk verði send til okkar á þriðjudag en þá er komið að þeim langþráða tímapunkti að stöðin fari í gang. Það verður kapphlaup við tímann hjá okkur að gera allt klárt fyrir þann tíma en allt hefst þetta að lokum og biðin sem staðið hefur yfir frá því í janúar verður á enda.
Eitt af því sem gæti þurft að kljást við þegar við loksins fáum fisk eru afræningjar eins og selur og skarfur en þeir hafa verið ágengir hér um slóðir og þá sérstaklega selurinn en ekki er leyfilegt að skjóta afræningja hér nema með því að fá til þess menntaða menn með réttindi til þess og því fylgir líka töluverð skriffinnska. Á stöðvarstjórafundi um daginn var ég spurður hvort við værum að kljást við seli í fiskeldi á Íslandi. "Selir eru ekki stórt vandamál í Íslensku fiskeldi en ef við sjáum þá í grennd við kvíarnar skjótum við þá og svo borðum við þá". "Já bara ef þetta væri svona auðvelt hér" sögðu hinir stöðvarstjórarnir".
"Hvað með skarf"? var næst spurt. Skarfar valda töluverðum vandræðum í fiskeldi á Íslandi en ef við sjáum þá í grennd við kvíarnar skjótum við þá og svo borðum við þá" var svarið eins og fyrr.
Svo barst talið að öðrum hlutum og einhver fór að spyrja hvort við sæjum ekki oft norðurljós á Íslandi. Þá gall við í einum stöðvarstjóranum "Jú en ef þeir sjá þau skjóta þeir þau og borða þau síðan".
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.8.2015 | 21:40
Fyrsta vika fjöllunnar
Eftir þessa fyrstu viku okkar saman hér á eyjunum í suðausturátt frá Íslandi er lífið að byrja að komast í fastar skorður. Brynja byrjaði í skólanum í dag og það gekk stóráfallalítið en hún vill samt ekki fara aftur. Hún talar enga ensku og skilur enga ensku og veit því lítið hvað um er að vera og hvað hún á að gera og hvar hún á að vera en vonandi kemur það smátt og smátt. Okkur foreldrunum er ekki leyft að vera með henni í skólanum en þess í stað er ein stúlkan í bekknum látin vera með henni öllum stundum. Hér er hún í bekk með u.þ.b. tuttugu krökkum og skólinn heitir Grunnskóli Papadals, eða Papdale Primary school. Eins og tíðkast í breskum skólum er börnunum gert að vera í skólabúning en hér er hettupeysa skólabúningurinn. Næsta mál er svo að koma Ívari Orra í leikskóla en það mun gerast á næstu dögum. Ég hef ekki áhyggjur af að hann spjari sig ekki enda er hann síkátur og nóg að gera en það kæmi samt ekki á óvart að fóstrurnar myndu efna til samskota til þess að kaupa flugmiða handa honum aftur heim til Íslands.
Hjá mér var Day skipper námskeiðið loksins að klárast og nú hef ég réttindi til að stjórna bát allt að 24 m löngum í dagsbirtu innan 20 sjómílna frá heimahöfn. Upphaflega átti þetta að klárast í mars en vegna veikinda leiðbeinandans var það maður innan SSF sem kláraði verklega þáttinn. Sá maður er yfirmaður þjálfunar öryggis og heilsumála fyrirtækisins og hans verk er að passa upp á að stjórnendur innan fyrirtækisins lendi ekki í fangelsi og að enginn starfsmaður lendi á sjúkrahúsi.
Frá því að ég kom til Orkneyja í janúar hef ég ekki hitt einn einasta Íslending hér en í gær brá svo við að ég rakst á hjón frá bænum Iðu Biskupstungum á rölti niðrí bæ. Ég var eitthvað að snúast með Brynju og Ívar Orra og hann var farinn að suða um ís á íslensku. Fólkið heyrði það og gaf sig á tal við okkur og í ljós kom að 10 Íslendingar eru á ferðalagi á eyjunum í ferð sem er skipulögð af Þemaferðum. Þetta var skemmtilegt og vonandi hittir maður fleiri seinna.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
12.8.2015 | 20:42
Landnemarnir lentir
Nú er komið að næsta kafla í Orkneyingasögu hinni síðri en öll fjölskyldan lenti í gær tilbúin til að takast á við næstu mánuði á Orkneyjum. Innrásin er sem sagt hafin. Sumarfríið á Íslandi var dásamlegt, veðrið lék við okkur þó að hitastigið hafi ekki farið hátt en það var langþráð tilbreyting að komast heim í lognið. Elstu menn segja að oft komi kalt sumar að loknu eldgosi. Ekki veit ég hvort veðurfræðingar geta staðfest þetta en allavega er þetta skemmtileg vangavelta.
Eftir sex mánaða dvöl í Skotlandi er það eftirtektarvert við komuna til Íslands hvað matarverð þar er hátt. Ýmislegt fleira er eftirtektarvert. Landið er að drukkna í túristum og þrátt fyrir að þetta sé orðin fyrirferðarmesta atvinnugrein þjóðarinnar er ríkissjóður (og þjóðin) ekki að fá þá peninga í kassann sem hægt væri að fá t.d. með skattlagningu. Skattlagning myndi líka eflaust draga úr fjölguninni en mér virðist það einmitt vera það sem þarf. Og svo er það Leifsstöð. Þeir ákveða að fara í framkvæmdir í flugstöðinni í júlí og þrengja þar með verulega að komufarþegum. Í júlí. Er það í alvöru besti mánuðurinn til þess að gera þetta? Við brottför var svo aðeins ein stúlka að taka á móti farþegum í innritun enda náði röðin langleiðina til Hafnarfjarðar. Er erfitt að fá fólk á Suðurnesjum í vinnu? Hvort er það vegna þess að svo fáir eru atvinnulausir eða vegna þess hve margir eru á sakaskrá? Það er líka eftirtektarvert hvað Íslendingar geta verið undarlegir á margan hátt. t.d. virðist Nígerískur hælisleitandi vera álitlegur mannkostur hjá Íslenskum konum þrátt fyrir að vera eyðnismitaður. Svo standa Íslendingar í biðröð í marga klukkutíma til þess að fá ókeypis sætabrauð eða til þess að vera fyrstir til þess að versla í nýju útibúi Amerísks bakarís í Reykjavík.
Annars var tíminn á Íslandi vel nýttur til þess að heilsa upp á vini og vandamenn og njóta austfirskrar náttúru ásamt því að pakka heimilinu í pappakassa og senda, selja, henda og geyma. Nú eru komnir góðir leigjendur í Ekru og við höfum kvatt Ísland í bili. Svo á eftir að koma í ljós hvurnin restin af fjölskyldunni spjarar sig á erlendri grund. Brynja er mótfallin því að fara burt frá Djúpavogi enda er líf hennar fullkomið þar og það er því erfitt að þurfa að rífa hana burt þaðan. Hún byrjar í skóla í næstu viku en hann er steinsnar frá húsinu okkar. Ívar Orri hefur ekki hugmynd um hvað er að gerast en tekur því sem að höndum ber með brosi á vör. Ignorance is a bliss. Hann er mikill áhugamaður um flugvélar og mér sýndist hann vera glaðasti krakki í heimi þegar hann steig um borð í Boeing þotu Flugleiða á Keflavíkurflugvelli í Sandgerði. Hann kallar líka vindmyllurnar hérna flugvélar, enda eru spaðarnir ekki ólíkir flugvélahreyflum. Já og svo kallar hann kýrnar hesta sem segja mu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2015 | 21:10
Til Íslands í frí
Þá eru aðeins tveir dagar í heimför og mikið hlakka ég til þess að sjá jöklana, eldfjöllin, hraunið, fossana, sandana, árnar, dalina, þokuna, þjóðvegasjoppurnar og allt það sem íslenskt er. Þessu sex mánaða tímabili fjarri Íslandsströndum er þar með lokið og við tekur sumarfrí og að því loknu annað tímabil fjarri ættjörðinni en þá fæ ég að hafa fjölskylduna hjá mér og það verður mikill munur til hins betra. Og þó að hér fáist ekki Pipp, Malt eða íslenskt lambakjöt er ýmislegt sem Orkneyjar hafa upp á að bjóða eins og þið ykkar sem hafa öðru hvoru álpast inn á þetta blogg hafið ef til vill tekið eftir. Hér er t.d. afar vinsamlegt fólk þó að margir séu stórskrýtnir eins og víða, matvöruverð er yfirleitt lægra en á Íslandi, hér úir og grúir af fornminjum og þá sérstaklega frá Nýsteinöld, Víkingaöld og Heimsstyrjöld fyrir þá sem hafa áhuga á því. Hér er líka ýmislegt sem er ekki eins gott og á mínu ástkæra Íslandi, hér er vindur flesta daga, hér er ekki 3G eða 4G þannig að netsamband er ekki eins gott og á hinu tæknivædda Íslandi, fiskur kostar drjúgan skilding, það er dýrt að komast í burtu héðan með flugi eða ferju og kaupa þarf drykkjarvatn.
En ástæðan fyrir öllu þessu brasi er að hér er fiskeldi stundað af fólki og fyrirtækjum sem hafa reynslu og þekkingu sem ekki er til staðar á Íslandi og vonandi líður ekki á of löngu þangað til ég get komið heim með þessa reynslu og þekkingu í farteskinu.
Ég reikna ekki með að blogga aftur fyrr en í ágúst þegar ég sný aftur til eyjanna sem kenndar eru við Orkn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar