Færsluflokkur: Bloggar

Pókerface

Þessi síðasta helgi fyrir sumarfrí var með rólegra móti en það bar helst til tíðinda að ég spilaði póker í fyrsta skipti og Wimbledon kláraðist þar sem úrslitin voru nokkuð eftir bókinni.   Póker kvöldið var skemmtilegt þar sem fjórir ungir menn buðu mér með sér en þeir eru allir starfsmenn SSF.  Þrír þeirra eru sjávarlíffræðingar og útskrifuðust sem slíkir frá háskólanum í Bristol í fyrra.  Það var líka viðeigandi að spilin sem voru notuð voru með teikningum af sjávarlífverum auk heitis þeirra á ensku og latínu.  Einn þeirra er frá Wales og átti í basli með að bera fram orðið Eyjafjallajökull en gat hinsvegar auðveldlega borið fram staðarheitið Llanfairpwllgwyngyllgogerychwyrndrobwilliantysiliogogogoch sem er bær í Wales og er nafn hans lengsta bæjarnafn í Evrópu og það næst lengsta í heimi og fyrir þá sem ekki eru vel að sér í Velsku útleggst þetta í lauslegri þýðingu eitthvað á þessa leið: "Kirkja heilagrar Maríu í dal hins hvíta hesliviðar í grennd við Llantysilio svelginn við rauða hellinn".  Ef þig langar mikið til að læra að segja þetta langa bæjarnafn þá eru leiðbeiningar hér:

Væntanlega verða þessi pókerkvöld haldin reglulega eða einu sinni í mánuði þannig að maður er heldur betur búinn að setja mark sitt á félagslífið hér.  Einn spilafélaganna er hér sem sumarstarfsmaður en hann er frá London og á íslenska kærustu, kann fáein orð í íslensku og er mjög hrifinn af Íslandi.  Hann kom færandi hendi á pókerkvöldið en í fórum sínum hafði hann harðfisk sem við vorum ekki í neinum vandræðum með að rífa í okkur.


Áskoranir

Marco Baldissera 27 ára Ítali sem fór hringinn í kringum Ísland á hjólabrettir lét hafa eftirfarandi eftir sér: "Þegar maður skorar á sjálfan sig, eru hlutirnir aldrei auðveldir og þessi ferð var engin undantekning.  Það voru óteljandi skipti þar sem þetta var rosalega erfitt og maður spurði sig hvað maður væri eiginlega að gera.  En í hvert skipti sem hlutirnir verða erfiðir þarf maður að finna ástæðu til þess að halda áfram og sækja í jákvæða orku innan með sér.  En ég held að það sé eina leiðin til þess að sjá hvort maður vill virkilega gera eitthvað eða ekki."

Nákvæmlega þetta er ég búinn að upplifa síðustu mánuði fjarri öllu sem mér er kært en vitandi það að mótlæti og erfiðleikar herða mann þarf oft að leggja töluvert á sig til þess að ná árangri og til þess að framfarir verði og vonandi kemur maður betri maður til baka.

Annars er þetta sérstaklega viðeigandi á þessum föstudegi:


mbl.is Ísland sýnir enga miskunn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Aumingja Betty Corrigall

Þegar ég fór til Háeyjar um daginn gerði ég stuttan stans við gröf Betty Corrigall en hún er staðsett á einskis manns landi uppi á hæð á miðri eyjunni.  Og það er ástæða fyrir því.  Betty bjó á Háey á seinni hluta 18. aldar og svo óheppilega vildi til að hún varð vanfær af völdum sjómanns á eyjunni sem stakk af og fór á sjóinn.  Það þótti mikil skömm að eiga lausaleiksbarn og Betty var fordæmd af eyjarskeggjum.  Þetta varð Betty óbærilegt og hún reyndi að ganga í sjóinn en var bjargað en það dugði skammt því að nokkrum dögum síðar hengdi hún sig.  Ekki var leyfilegt að grafa þá sem frömdu sjálfsmorð í vígðum grafreit og því var Betty holað niður í ómerkta gröf á miðri eyjunni.  Þar lá hún allt til ársins 1933 þegar tveir mótekjumenn grófu niður á trékassa.  Þeir töldu sig hafa fundið fjársjóð og fóru með kassann til póstmeistara eyjarinnar þar sem hann var opnaður.  Kom þá í ljós lík ungrar konu sem hafði varðveist vel í mónum. Eftir rannsókn lögreglu var ákveðið að grafa hana aftur niður á sama stað.  Árið 1941 voru tveir hermenn við mótekju á sama stað og rákust aftur á trékassann.  Þeir skoðuðu innihaldið en grófu hann svo aftur.  Félagar þeirra í hernum voru forvitnir og hún var grafin upp og niður nokkrum sinnum á meðan heimsstyrjöldin síðari stóð yfir.  Offiserunum var tilkynnt þetta og svo fór að þeir létu steypa yfir gröfina til þess að koma í veg fyrir sífelldan upp og niðurgröft.  Árið 1949 kom Amerískur prestur í heimsókn á eyjuna og hann hélt stutta athöfn yfir gröfinni auk þess að reisa litla girðingu í kringum hana.  Árið 1976 var svo settur legsteinn á gröfina og athöfn haldin og þar með fékk Betty að hvíla í friði, tæpum 200 árum eftir andlátið. 

DSC_0193 (Large)


Vimbeldon og Vigur

Og Wimbledon tenniskeppniin er í algleymingi. Fólk fylgist með keppninni á börum jafnt sem í heimahúsum og allir halda með Andy Murray og sem sannur Skoti verður maður að gera slíkt hið sama.  Næst mætir hann hinum tæknilega fullkomna Svisslendingi Roger Federer í undanúrslitum en í hinum undanúrslitaleiknum spilar efsti maður heimslistans og kannski besti tennisspilari heims um þessar mundir, Novak Djokovic gegn Frakkanum Gasquet

Til stóð að ég færi í næstu viku í heimsókn í tvær seiðastöðvar, aðra í skosku hálöndunum og hina á eyjunni Mull við vesturströnd Skotlands en ákveðið hefur verið að fresta því og væntanlega verður það mitt fyrsta verk þegar ég kem til baka úr fríi.  Þegar ég kem til baka verður líka stöðin nánast tilbúin og það verður gleðidagur þegar við fáum seiðin og getum byrjað hið eiginlega eldi.  Strákarnir sem munu vinna hjá mér verða þá allir búnir að fá þá þjálfun sem á þarf að halda.  Þeir eru allir á aldrinum 24 - 30 ára og við verðum sex á stöðinni.  Í síðustu viku var heilsíðugrein og opnuviðtal við mig í fréttabréfi SSF vegna opnunar nýju stöðvarinnar okkar við eyjuna Vigur.  "They´re gonna make you a star" segja skotarnir hér en þar sem um nýja stöð er að ræða með nýmóðins búnaði mun stöðin væntanlega vekja eftirtekt hér um slóðir og verulega gaman og lærdómsríkt er að taka þátt í að byggja upp.

Snapchat-4085570402983422794


Takk Grikkland, takk Evra, takk Írland.

Á þriðjudag fáum við afhentan vinnubátinn sem við munum nota til þess að þjónusta eldisstöðina okkar við Vigur (Wyre).  Hann hefur fengið nafnið Gairsay Sound (Geirseyjarsund) og er 16 m langur, 6,5 m breiður, með tvær 320 Hp Doosan vélar, smíðaður af Arklow Marine í Arklow á Írlandi.  Báturinn er útbúinn öllu því helsta sem góður vinnubátur fyrir fiskeldi þarf á að halda og siglingatækin eru frá Raymarine.  Þar sem ég er að fara í sumarfrí á sama tíma næ ég hvorki að vera viðstaddur afhendinguna né að sigla bátnum upp til Orkneyja en það verður án efa skemmtilegt ævintýri sem mun taka 3 - 4 daga.  Það er svo sem í góðu lagi, það hefði bara þýtt að ég hefði þurft að fara til Írlands, drekka Guinness, sigla upp Írska hafið, gista á ókunnum stöðum á Norður Írlandi, og vesturströnd Skotlands. 

Þegar skrifað var undir kaupsamning á bátnum síðastliðið haust átti hann að kosta sem svarar 90 milljónir króna.  Kaupverðið var í evrum sem er sá gjaldmiðill sem Írar hafa kosið að nota en vegna gengisfalls evrunnar gagnvart pundinu hefur kaupverðið lækkað um um það bil 10% og er nú komið niður í rúmar 80 milljónir og má að stærstum hluta til rekja þennan tíu milljóna króna gróða til atburða í Grikklandi.  Írsku skipasmiðirnir hafa samt staðið sig vel, þar eru fagmenn á ferð og báturinn lítur vel út.  Ég er ekki enn kominn með almennilegar myndir af honum sem má birta, það verður að bíða betri tíma.


Líður að heimferð, vonandi verður hvítkálið búið.

Nú fer að styttast í heimferð hjá mér en stefnan er sett á að koma til Íslands eftir 11 daga, þann 17. júlí og þar með verður einverunni lokið.  Flogið verður ígegnum Glasgow og stoppað á Íslandi í þrjár vikur. Margt er ég búinn að læra og sjá þessa sex mánuði en þegar ég kem aftur út verður það um það leiti sem við fáum fisk í kvíarnar þannig að við tekur eitt ár af uppeldi laxa sem væntanlega verður slátrað eftir rúmt ár. Sem sagt meira verður sett í reynslubankann næsta árið. 

Og talandi um reynslu, í síðustu viku eldaði ég Orkneyska kjötsúpu, sem er alveg eins og sú íslenska nema að í henni er orkneyskt lambakjöt í stað íslenska fjallalambsins.  Það er með ólí-kindum hvað þær eru líkar en auðvitað jafnast ekkert á við íslenskt lambakjöt.  Í kjötsúpu notar maður hvítkál og til þess að nýta allan kálhausinn eftir kjötsúpuna er ég búinn að elda Oriental nautakjöt með hvítkáli, Spaghetti með hvítkáli og söltuðum gúrkum og hvítkálssúpu.  Núna er ég sirka hálfnaður með kálhausinn.  Ætli ég verði ekki að gúggla fleiri hvítkálsuppskriftir nema að einhver geti bent mér á góða uppskrift með hvítkáli í.

rolla (Large)


Gamli maðurinn og Dvergasteinn

Um síðustu helgi gerði ég tilraun til að spígspora um Háey en varð frá að hverfa vegna rigningar og þoku.  Í dag viðraði ágætlega og því lét ég slag standa og tók ferjuna yfir og arkaði af stað.  Tilgangurinn var ekki aðeins að ná sér í smá hreyfingu heldur var markmiðið að berja Gamla manninn á Háey (Old man of Hoy) augum.  Gamli maðurinn er ekki af holdi og blóði heldur er um að ræða stapa úr rauðum sandsteini sem stendur við norðvestanverða Háey.  Stapinn er 137 m hár og ef hinn sívinsæli samanburður við Hallgrímskirkjuturn er notaður vantar aðeins 12 metra upp á að hann sé jafn hár og tveir Hallgrímskirkjuturnar.  Gamli maðurinn er eitt helsta kennileiti Orkneyinga og þangað kemur fjöldi ferðamanna árlega og hver man ekki eftir myndbandi Eurythmics við lagið Here comes the rain again en þar fékk gamli maðurinn að njóta sín.  Ofurhugar hafa gert sér það að leik að klífa upp þann gamla en það var fyrst gert árið 1966.  Nú reikna menn með því að Gamli maðurinn geti hrunið innan fárra ára vegna veðrunar hafs og vinda.

Gamlimaðurinn (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir heimsóknina til gamla mannsins staldraði ég við í Rekavík (Rackwick) og tók nokkrar myndir en þetta svæði er vinsælt til útivistar meðal Orkneyinga.

Rekavík (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Eftir að hafa spígsporað um stund í Rekavík stikaði ég í áttina að Dvergasteini (Dwarfie Stane) en það er grafhýsi sem höggvið er inn í bjarg sem fallið hefur úr hlíðinni fyrir ofan.  Grafhýsið í Dvergasteini er talið vera 4500 - 5500 ára gamalt og það hefur verið mikið þolinmæðisverk að hola steininn að innan ef við gefum okkur að þeir sem það gerðu hafi ekki haft neitt sérstaklega fullkomin verkfæri til þess.  Þjóðsagan segir reyndar að steinninn hafi verið útbúinn svona af jötnum sem bjuggu í Háey.

DSC_0293 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á Háey er tekinn mór eins og gert var í eina tíð á Íslandi.  Ekki hef ég kynnt mér hvað þessi mór er notaður en annaðhvort er það til húshitunar eða við Viskýframleiðslu.

mótekja (Large)

 


Hin virðulega Wimbledon keppni

Hér snýst allt um Wimbledon tenniskeppnina þessa dagana og Skotar ætlast til þess að þjóðhetja þeirra, Andy Murray, vinni sigur.  Wimbledon keppnin er líka engin venjuleg keppni en mótið er elsta og virtasta tenniskeppni í heimi og sú eina af risamótunum fjórum sem spiluð er á grasi.  Þá er það sérstakt við keppnina að ætlast er til þess af keppendum að þeir klæðist hvítum fötum í keppninni.  Annað sport sem er vinsælt hér og gengur stanslaust í sjónvarpinu er golf, krikket (íþrótt sem fáir virðast skilja) og rugby, sem er álíka vinælt og fótbolti hér um slóðir.  Svo er kappakstur nokkuð mikið sýndur en þrátt fyrir að Silverstone kappaksturinn fari fram um helgina fellur hann alveg í skuggann af Wimbledon.

Nú er ég búinn að skrifa undir leigusamning til eins árs fyrir Reid Crescent 35 í Kirkwall þannig að nú er maður bundinn hér í eitt ár í viðbót.  Það verður gott að fá fjölskylduna hingað og þetta er líka gott að því leiti að á þessum tíma getur maður drukkið í sig þekkingu og nýja siði sem án nokkurs vafa mun nýtast þegar heim verður snúið.  Hins vegar mun söknuður eftir austfjörðum alltaf verða til staðar, þar er heima.


Happy good weekend

Nú er óhætt að segja að sumarið sé komið hér á eyjunum í suðri.  Síðustu dagar hafa verið sólríkir og hlýir, hiti um og yfir 20°C.  Ég sá að hérna réttsunnan við mig, í Inverness var verið að spá 28 - 29°C hita en hér aðeins norðar þar sem hafið er allt um kring er ekki von á svo háum tölum.

Ýmislegt hefur verið við að vera í vinnunni við undirbúning eldisstöðvarinnar, m.a. er ég búinn að fara á þrjú námskeið, öryggisnámskeið, skyndihjálp og líkamsbeiting.  Skyndihjálparnámskeiðið var einkar gott og er það ekki síst að þakka góðum leiðbeinanda sem hefur gengið í gegnum ýmislegt við að aðstoða slasaða og veika en hún vann sem bráðalæknir uns henni sinnaðist við heilbrigðiskerfið eins og svo algengt er.

Fimmtudagar eru skokkdagar.  Þá hittist hópur fólks við félagsmiðstöðina og skokkar í svona klukkutíma.  Alla jafna eru 3 - 4 karlar og 4 - 5 konur.  Í gær brá svo við að sex konur mættu og ég var eini karlmaðurinn í hópnum.  Mér fannst hálf kjánalegt að vera eini karlinn í hópnum en það hefði líka verið kjánalegt að draga sig út úr þessu vegna þess.  Ég lét mig því hafa það þrátt fyrir að þær hlaupi frekar hægt og séu síblaðrandi á meðan ég hleyp steinþegjandi.  Reyndar reyndu þær að blanda geði við mig og því var þetta kannski ekki alveg eins kjánalegt. En svo var stoppað fyrir utan hús einnar þeirra af því að hún ætlaði ekki lengra og þar sem Orkneyskar húsmæður eru afar gestrisnar bauð hún okkur öllum inn í te.  Guð minn góður, ég að fara í teboð með sex Orkneyskum konum.  Nú fyrst verður þetta kjánalegt.  Sem betur fer var boðið afþakkað  og áfram var skokkað.  Oft hefur maður verið þreyttur og of hefur vindur, frost, snjókoma og rigning gert manni erfitt fyrir á skokkinu en aldrei hef ég verið eins feginn að klára skokk eins og í gær.

Nú er föstudagur og eins og Taddeus, hjartahlýr pólskur verkamaður sem fékk nóg af sjómennsku og vinnur nú í landi hjá SSF og ræktar grænmeti og blóm í frístundum segir á föstudögum:  "Happy good weekend".


Ferð til Háeyjar

Á föstudaginn bókaði ég ferð með ferjunni til Háeyjar þar sem veðurútlit var gott og á norðanverðri eyjunni er fallegt um að litast og skemmtilegar gönguleiðir.  Háey er stærsta eyjan í aðliggjandi eyjum Orkneyja og sú hálendasta en þar er hæsti punktur Orkneyja, 479m og þar búa rúmlega 400 manns.  Dagurinn heilsaði með rigningu og þoku en samkvæmt spánni átti að stytta upp eftir hádegi þannig að ég lét slag standa. Ekki voru margir farþegar um borð í ferjunni, tvær konur með nokkra krakka og einn aldraður maður, fremur lágvaxinn og gekk með staf.  Ég fékk mér kaffi úr drykkjarsjálfsalanum og gamli maðurinn fór í kjölfarið að skoða sjálfsalann, eftir smástund kom hann til mín og spurði:

"Er allt uppselt í sjálfsalanum"?

"Nei, nei það kviknar rautt ljós hjá viðkomandi drykk ef hann er uppseldur".

"Já svoleiðis, hvað kostar drykkurinn"?

"Hann kostar 60 pens".

Hann fór að leita í vösunum.

"Æ nú fór í verra, ég er bara með 40p".

"Hérna, ég er með 20 í viðbót fyrir þig".

"Þakka þér fyrir, hvað geri ég svo"?

"Sjáðu þú setur peninginn hér, svona já, og svo velurður þér drykk".

"Ég ætla að fá kakó".

"Já þá ýtirðu hér, sjáðu þarna kemur drykkjarmálið með kakódufti, og svo ýtirðu hér á Hot water til þess að fá heitt vatn samanvið".

"Já þakka þér fyrir, ert þú að fara til Flateyjar"?

"Nei ég er að fara til Háeyjar, ferjan fer þangað fyrst og svo til Flateyjar".

"Já já ég er að fara til Flateyjar, ég er á nítugasta aldursári og er að koma hingað í fyrsta skipti eftir 70 ár en ég var á skipi hérna í heimsstyrjöldinni síðari.  Þetta er því stór stund fyrir mig og vekur upp margar minningar".

Ég fylltist áhuga og spurði hann nánar út í þetta.

"Skipið hét HMS Norfolk, við vorum 820 í áhöfn, flestir á aldrinum 18 - 24 ára eins og flestir hermenn voru á þessum tíma, ég var 18 ára og byrjaði þarna um borð árið 1944.  Við vorum mikið hér á Skálpaflóanum frá því að ég byrjaði og allt til ársins 1946.  Ég man að 8. maí, þegar stríðinu lauk, fengum við það hlutverk að flytja Ólaf krónprins af Noregi til Bergen til þess að hann gæti staðfest brotthvarf Þjóðverja frá Noregi og um tveimur vikum síðar fórum við með Hákon konung, föður Ólafs og fjölskyldu hans til Oslóar.  Ég var bókari og hafði það hlutverk að dulkóða skilaboð sem við sendum og afkóða skilaboð sem við fengum en öll skilaboð voru dulkóðuð, hvert orð hafði ákveðið númer og af því að ég var læs og skrifandi og nokkuð glöggur á tölur var ég fenginn í þetta.  Ég var líka látinn hlaða fallbyssurnar.  Ég man líka eftir því að áður en við fluttum Hákon konung var ég sendur í land til þess að kaupa nokkur klósett af því að það þurfti að útbúa sérstök kvennaklósett um borð.  Það sem var hlegið að því maður.  Á meðan við vorum hér í flóanum fengum við stundum að fara í land á Flatey, fjóra tíma í senn, en þar var búið að útbúa kvikmyndahús og aðra aðstöður til afþreyingar fyrir hermenn.  Þetta voru hættulegir og taugatrekkjandi tímar.  Veistu hvort gamla trébryggjan er þar ennþá"?

"Nei nú er steinsteypt bryggja þar en ég held að það sé hægt að sjá rústir gamla kvikmyndahússins frá bryggjunni".

"Já það er nefnilega það, óskaplega væri nú gaman að sjá það".

"Ætlar þú að stoppa eitthvað lengur hér á Orkneyjum"?

"Nei, ég er farþegi á skemmtiferðaskipinu sem er í Kirkjuvogi og ég fer beinustu leið þangað aftur, ég ætla bara rétt að stíga fæti á bryggjuna á Flatey á meðan ferjan stoppar þar og svo þarf ég að drífa mig til baka".

"Já jæja við erum komnir til Háeyjar, ég þarf víst að fara frá borði, það var gaman að spjalla við þig, ´vertu sæll og njóttu ferðarinnar".

"Já takk sömuleiðis og vertu sæll".

Þegar í land á Háey var komiðvar ennþá rigning þannig að ég keyrði um eyjuna og skoðaði það sem hægt var að skoða, fór m.a. á stríðsminjasafnið þar og kaffihús.  Það var ekkert lát á rigningunni  og ég ákvað að bíða fresta gönguferðum þangað til seinna, þegar skyggni yrði betra og aðstæður þurrari.  Þegar ég var kominn aftur í ferjuna seinni part dags og landfestar voru leystar, stytti upp og sólin braust fram.  Kannski geri ég aðra tilraun um næstu helgi.

stríðsminjasafn (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Frá stríðsminjasafninu.  Þessir munir voru geymdir inni í gömlum olíutank og bergmálið og hljóðin þarna inni voru mögnuð.

skrúfa (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skrúfan og öxullinn af HMS Hampshire sem fórst undan Marvíkurhöfða.  Samtals vegur þetta 35 tonn!

kýr og meginland (Large)

 

 

 

 

 

Horft frá Háey yfir til meginlandsins, lengst til vinstri eru klettarnir við Yesnaby og til hægri tún norðan við Straumnes.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband