31.10.2015 | 21:04
Halloween
Hér á lítilli eyju norðan við Skotland halda eyjarskeggjar upp á svokallað Halloween eða hrekkjavöku. verslunargluggar í miðbænum eru "skreyttir" með hlutum sem tengjast þessum degi og helst eru það draugar, leðurblökur, beinagrindur, köngulær og fleira í þeim dúr sem notað er til þess að prýða verslunargluggana.
Hjá Skotum er Hrekkjavaka rakin aftur til hinnar fornu Keltnesku hátíðar Samhain (Sumarlok). Keltneska tímatalið miðaðist við árstíðirnar og Sumarlok voru, eins og einhverjir hafa lesið út úr nafninu, lok sumars og upphaf vetrar en Skotum hefur þótt tilvalið að tengja Hrekkjavökuna við mörkin milli heims hinna lifandi og heims hinna dauðu enda snýst vakan að miklu leiti um hið yfirnáttúrlega, nornir, afturgöngur og fleira.
Fjölskyldan dundaði sér við það í gærkvöldi að skera út andlit í grasker eins og er til siðs hér um slóðir. Og þó að það sé amerískur siður að nota grasker, þá er þetta rammskoskur siður en áður fyrr notuðu Skotar rófur sem þeir holuðu að innan og skáru út andlit á sama hátt og gert er við graskerin og bjuggu til lugtir úr þeim, rófulugtir. Þessi ljós áttu að halda illum öndum í burtu. (Illar endur eru nefnilega stórhættulegar).
Spennan er búin að fara stigvaxandi hjá Brynju að taka þátt í þessu, en börn á Orkneyjum klæða sig í búninga og ganga hús úr húsi og bjóða upp á grikk eða gott (Trick or treat) og þá gefa flestir gotterí gegn því að börnin syngi, segi brandara eða eitthvað annað sniðugt. Ef við kærum okkur ekki um sönginn, sælgætið og skemmtilegheitin getum við átt það á hættu að okkur verði gerður grikkur. Vinnufélagi minn sagði mér að þegar þeir voru 11 - 12 ára settu þeir hundaskít inní dagblað, kveiktu svo í dagblaðinu við útidyr viðkomandi sem kom æðandi út og byrjaði að stappa á blaðinu til þess að slökkva eldinn, en hefur væntanlega óskað krakkaskröttunum hægum kvalafullum dauðdaga þegar uppgötvaðist hvað um var að ræða. Brynja klæddi sig upp sem norn eins og vinsælt er að gera og á meðan heimilisfaðirinn var að vinna fyrir kanilsykri í grautinn fór hinn hluti fjölskyldunnar niður í bæ þar sem var skrúðganga um miðbæinn og öll börn og margir fullorðnir voru í búningum og að sjálfsögðu var skrúðgangan leidd af sekkjapípuleikurum með trommuslætti. Eftir að ég kom heim úr vinnu fór Íris með Brynju að ganga í hús ásamt vinkonum Brynju, Amy og Georgiu. Við Ívar Orri biðum heima með hrekkjavökunammiskálina tilbúnir að hræða líftóruna úr þeim börnum sem mögulega kæmu. Enginn kom enda ekki mörg börn í hverfinu þannig að nú sitjum við uppi með tvö kílógrömm af sælgæti af því að krakkaófétin létu ekki sjá sig.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.