Heilagur Magnús

Við fjölskyldan fórum í bæinn í dag og eitt af því sem við gerðum var að skoða Magnúsarkirkju (St Magnus Cathedral).  Vegna mikils vindar í dag þurftum við að fara inn um hliðardyr en þar fyrir utan stóð ung kona og gat ekki opnað.  Ég opnaði fyrir henni og við fórum inn.  Einhverra hluta vegna varð Íris eftir úti þannig að ég stóð þarna inni við hliðina á ungri ókunnri konu með börnin mín tvö, tilbúinn að ganga inn kirkjugólfið og skoða kirkjuna.  Ég hafði nú ekki reiknað með breytingu á fjölskylduhögum og ekki ætlað mér að yngja upp en sjálfsagt var ekki aftur snúið úr þessu.  Vandræðalegt.  Íris birtist nú augnabliki síðar, hún hafði bara verið úti að taka myndir.  Ég var ekki farinn að hugsa um að vaða út í kalt vatn og biðja bænir.  Fjölskyldustaða er því óbreytt.

Kirkjan sjálf er mögnuð bygging sem ekki er auðvelt að lýsa með orðum, heldur verður að fara inn og upplifa.  Kirkjan er skýrð í höfuðið á einum af Orkneyjajörlum, Magnúsi Erlendssyni, sem var fæddur árið 1080. 

St Magnus

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Í Orkneyingasögu eru lýsingarorðin ekki spöruð þegar Magnúsi er lýst en samkvæmt henni er ólíklegt að annað eins göfugmenni hafi fæðst í heimssögunni síðan þá.  Honum er lýst sem hæglátum manni og friðsömum.  Hann er sagður hafa verið hávaxinn, glæsilegur, vel gefinn, góðum mannkostum gæddur, sigursæll í bardögum, vitur, málsnjall, örlátur, göfuglyndur, örlátur, ráðagóður, vinsæll, blíður og þægilegur í samskiptum við þá sem sýndu af sér góðmennsku og visku en óvæginn og ósveigjanlegur gagnvart þjófum og morðingjum sem hann tók til fanga og gerði ekki greinarmun á ríkum og fátækum. 

Væntanlega hefur ekki verið auðvelt að nálgast getnaðarvarnir á þessum tíma en Magnús og kona hans lifðu skírlífi og leyfðu sér ekki lostafullt líferni.  Ef hann hélt að girndin væri að ná á honum tökum óð hann út í kald vatn og þuldi bænir.

Magnús varð jarl á Orkneyjum og réði yfir helmingi eyjanna á móti Hákoni jarli sem réð yfir hinum helmingnum.  Magnús var vinsæll meðal eyjarskeggja, enda hvernig má annað vera miðað við lýsinguna á honum, en samt fór það svo að illar tungur komu af stað orðrómi sem varð til þess að ósætti kom upp milli Magnúsar og Hákonar.  Þeir vildu sættast og mæltu sér mót á sáttafundi þar sem hvor um sig átti að mæta með jafnmarga menn og tvö skip.  Hákon mætti hins vegar með átta fullmönnuð skip og eftir að menn Hákonar höfðu náð Magnúsi sögðust þeir myndu drepa annan hvorn jarlinn og að Orkneyjum yrði ekki lengur skipt á milli tveggja jarla.  "Drepið hann þá" sagði Hákon "ég vil frekar lifa og ríkja yfir fólkinu og eyjunum".  Hákon skipaði matreiðslumanni sínum, Lífólfi, að drepa hann.  Lífólfur fór þá eitthvað að væls en Magnús reyndi að hugga hann.  "Svona svona Lífólfur minn, þetta er nú ekkert að væla út af, verk eins og þetta munu færa þér frægð og samkvæmt gömlum reglum og hefðum máttu eiga fötin mín þegar þú ert búinn.  Ekki hræðast, þú framkvæmir þetta gegn þínum eigin vilja en sá sem ákveður og fyrirskipar þetta er sá seki".  Svo afklæddist Magnús kirtli sínum og gaf Lífólfi, síðan kraup hann niður og baðst fyrir.  Þegar hann var svo leiddur tilaftökunnar sagði hann við Lífólf: "Stattu svo fyrir framan mig og höggðu fast á höfuðið, það er ekki við hæfi að Orkneyjajarl sé tekinn af lífi eins og þjófur.  Hertu þig nú upp og gerðu þetta almennilega, ég er buinn að biðja fyrir þér.  Síðan lagðist hann niður og mætti örlögum sínum.  Þetta fór fram þann 16. apríl 1117.

Frændi Magnúsar, Rögnvaldur Kali Kolsson, lét hefja byggingu kirkjunnar árið 1137 aðallega til þess að auka vinsældir sínar meðal eyjarskeggja og lét hann koma beinum Magnúsar fyrir í kirkjunni og skírði hana í höfuðið á Magnúsi en byggingin er sögð hafa staðið yfir í 300 ár.  Árið 1919, þegar verið var að gera við hluta kirkjunnar, fundust mannabein í trékassa á leyndum stað í kirkjunni og bar höfuðkúpan þess merki að hún hefði fengið högg með sverði og því er talið að beinin séu bein Magnúsar.

Það er líka gaman að skoða tengsl Magnúsar og Magnúsarkirkju við sunnanverða Austfirði  Íslands.  Í ramma á vegg í kirkjunni er ættartré heilags Magnúsar og þar sést að einn af forfeðrum hans var enginn annar en Síðu-Hallur sem bjó á Þvottá en hann var einn af afkomendum Hrollaugs sem nam land þar sem nú kallast Sveitarfélagið Hornafjörður.  Já tengslin milli Íslands og Orkneyja eru víða. (Smellið á myndina til þess að stækka hana).

20150228_150654 (Large)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Valur Jensson

Skemmtileg frásögn og fróðleg, Kristján, og skaðast ekki við fyndna stígandi í upphafslýsingunni ... Svo tengist hún við frásögnina af skírlífi Magnúsar! :)

Ekki er kyn, að hann hafi þótt helgur maður, að taka dauða sínum með þessum hætti. Annars hef ég ekki lesið Orkneyinga sögu, maður þarf að gera það. Ættartréð er líka fróðlegt og mætti bæta betur á íslenzku hliðina. Öll erum við afkomendur Hrollaugs.

Jón Valur Jensson, 14.11.2015 kl. 23:33

2 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Takk fyrir það Jón Valur.

S Kristján Ingimarsson, 14.11.2015 kl. 23:54

3 Smámynd: Magnús Sigurðsson

Sæll Kristján, alltaf áhugavert að líta hér inn. Þeir hafa verið athygliverðir þræðirnir sem legið hafa á milli Orkneyja og Íslands í gegnum tíðina og ná sennilega langt aftur fyrir svokallað landnám Íslands. Í Orkneyingasögu má finna skýringuna á því hvers vegna við höldum þorrablót og hversvegna tveir af gömlu íslensku mánuðunum heita Þorri og Góa.

Magnús Sigurðsson, 15.11.2015 kl. 08:51

4 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

já Magnús sennilega eru tengslin meiri enn margir gera sér grein fyrir, ég veit ekki hversu mikið þetta hefur verið rannsakað en ef til vill er þetta efni fyrir fræðimenn til að rannsaka.

S Kristján Ingimarsson, 15.11.2015 kl. 09:17

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Hermann Pálsson heitinn prófessor, sá líflegi penni, átti mjög góða bók um þessi svæði, Orkneyjar og Suðureyjar. Finn hana ekki hjá mér nú, kannski var það Söngvar úr Suðureyjum (ritskrá hans á gegnir.is er með 327 númer*).

Hér er það síðasta: 

https://gegnir.is/F/THGBP1S1G6DGC822RHJ48FR4QDHL6INHRE41IAG55QUDS9L13M-02816?func=short-jump&action_short_jump=Jump+to&jump=321

Jón Valur Jensson, 15.11.2015 kl. 15:34

6 Smámynd: S Kristján Ingimarsson

Athyglisvert.  Þessi bók, "Í kjölfar jarla og konunga" eftir Þorgrím Gestsson gæti líka verið þess virði að skoða. http://www.forlagid.is/?p=645223

S Kristján Ingimarsson, 15.11.2015 kl. 16:03

7 Smámynd: Jón Valur Jensson

Alveg örugglega. Þorgrímur kann vel að segja frá og hefur t.d. gefið út Noregsbók um forna tíma.

Jón Valur Jensson, 16.11.2015 kl. 03:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband