19.4.2016 | 20:42
Muse og drónarnir
Í gær fór ég í örstutt en eftirminnilegt ferðalag á tónleika með Muse í Glasgow. Lagt var af stað frá litla sæta flugvellinum í Kirkwall (sem er með nákvæmustu og hægustu öryggisleit sem ég hef kynnst) í hávaðaroki, en spáð hafði verið vindi yfir 20 25 m/s, og þegar út í flugvél var komið hristist hún öll og skalf í veðurofsanum þannig að manni fannst ólíklegt að hún færi nokkurn tímann í loftið. Og þar sem ég sat í vélinni og horfðist í augu við dauðann renndi hún sér átakalítið af stað og tók mjúklega á loft og ég verð að segja eins og er að þetta var eitt það þægilegasta flug sem ég hef farið í, engin ókyrrð eða hristingur.
Fljótlega eftir komuna til Glasgow var haldið á tónleikastað en tónleikarnir fóru fram í SSE Hydro Arena í Glasgow sem er þriggja ára gamalt sýningarhús sem tekur um 13.000 manns en ef eitthvað er þá er svona staður of lítill fyrir Muse sem er að sjálfsögðu hreinræktuð leikvangahljómsveit eða stadium band band eins og þeir segja. Tónleikahöllin er afar vinsæl og aðeins í O2 Arena í London og Manchester Arena eru seldir fleiri miðar á tónleika á ári hverju. Þegar fyrsti tónn var sleginn hríslaðist gæsahúð um skrokkinn en uppistaðan í prógramminu voru lög af nýjustu plötu sveitarinnar Drones, en hann var í spilun hjá mér allt síðasta sumar og því þekkti ég lögin inn og út en auðvitað tók sveitin gamla slagara með í bland. Ég mæli eindregið með því að þeir sem ekki hafa hlustað á Drones en hyggjast jafnvel fara á tónleika með Muse, kynni sér diskinn vel enda er hann einn af þeim betri frá hljómsveitinni. Tónleikarnir voru í einu orði sagt frábærir, hljómsveitin frábær, stórkostleg ljósasýning og risavaxnir drónar fljúgandi um salinn
Morguninn eftir var svo haldið heim og ef slæmt veður var eitthvað til að hafa áhyggjur af á leiðinni til Glasgow tók ekki betra við þegar kom að því að snúa aftur til Kirkwall en öll áhöfn flugvélarinnar var skipuð konum. Nú fyrst var farþegum vandi á höndum, hvað vita þær svo sem um fjarskipti, leiðsögutækni og loftfræði? En það var of seint að snúa við, flugfreyjan lokaði hurðinni og ég er ekki frá því að brjálæðisglampa hafi brugðið fyrir í augum hennar um leið og hún glotti og skellti í lás. Einhvern veginn tókst dömunum samt að ná vélinni á loft og sem vetur fer var bjart yfir öllu Skotlandi, sennilega eini dagur ársins sem það gerist, þannig að hver sem er hefði getað ratað norður til Orkneyja. Ég hélt reyndar um stund að þær ætluðu ekki að lenda á Orkneyjum af því að flugvélin stefndi áfram norður en sennilega hefur einhver látið þær vita af því að skyndilega sneri vélin við og fyrir eitthvað kraftaverk tókst þeim að lenda heilu og höldnu á flugvellinum í Kirkwall. Kannski er Loganair með sjálfstýringu í flugvélum sínum. Hvað sem því líður þá var þessi ferð ógleymanleg og í alla staði frábær.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.