17.10.2016 | 21:06
Kominn heim
Ferðin heim gekk svo vandræðalítið fyrir sig. Ég passaði mig vel á því að mæta á réttum tíma en ég veit ekki hvort það er af því að ég var búinn að búa einn í nokkra mánuði eða eitthvað annað en mér fannst flugfreyjurnar sýna mér sérstaklega mikla athygli á leiðinni heim. Flugfreyjan hjá Loganair sem flaug frá Orkneyjum til Aberdeen, Frances að nafni, gaf sig á tal við mig þegar flugvélin var komin í loftið og við ræddum saman um ferðalög og hvernig er að búa á Íslandi og Orkneyjum. Tíminn var fljótur að líða og áður en ég vissi af var ég kominn upp í næstu flugvél og lagður af stað til Íslands. Miðja vega yfir Atlantshafinu kom flugfreyjan til mín og bauð mér upp á kaffi. Viltu samloku eða eitthvað? spurði hún. Ég er ekki mikið fyrir að kaupa mér flugvélamat þannig að ég afþakkaði. Ég skal gefa þér samloku, þú ert nefnilega eini Íslendingurinn um borð, hér eru líka frönsk horn og fleira. Augnabliki síðar sat ég með fangið fullt af samlokum af ýmsu tagi, súkkulaði og sætindum. Viltu ekki bjór líka ég skal gefa þér bjór, Ha? Nei takk ég er að fara að keyra á eftir já, stabíll, það líkar mér svaraði hún. Ég var því feginn og saddur og sennilega örlítið feitari þegar ég gekk frá borði, alkominn til Íslands. Skömmu áður hafði Hvannadalshnjúkur birst út við sjóndeildarhring og svo Skeiðarárjökull og Skaftafellsjökull þegar flugvélin nálgaðist fyrirheitna landið. Á flugvellinum átti að bíða mín bílaleigubíll en bílaleigan Budget hafði klúðrað öllu skipulagi og upphófst mikil bið. Ég hefði betur farið á hestaleigu í stað bílaleigu hugsaði ég, það hefði sparað mér mikinn tíma. Eftir tveggja tíma bið og mikið af óánægðum viðskiptavinum fékkst þó bíllinn loksins og svo var keyrt af stað. Það var dásamlegt að leggjast upp í alvöru rúm, með sína eigin sæng og sinn eigin kodda. Ég renndi í hlað skömmu eftir miðnætti, Brynja hafði vakað eftir mér og um nóttina vaknaði ég við að Ívar Orri skreið upp í og vafði höndunum um hálsinn á mér. Ég var kominn heim.
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.