8.1.2016 | 20:50
Kaffi
Eitt af því sem Íslendingar gera betur en Skotar er að hella upp á kaffi (það er reyndar ýmislegt fleira, eins og að spila fótbolta og verka harðfisk). Hér er varla boðið upp á annað en instant kaffi, og ef þeir ætla að vera virkilega flottir á því er boðið upp á Nescafé gold. Og ekki nóg með það, þeir drekka það allir með mikilli mjólk og allflestir með sykri líka en þeir verða yfirleitt hissa þegar maður segist drekka svart og sykurlaust kaffi. Ekki jafnast þetta á við íslenska uppáhellinginn, svartan og sykurlausan, hvað þá kaffi úr nýmóðins expressovélum en slík tæki sjást ekki hér. Tveir félagar mínir hér, annar frá Wales og hinn frá suður Englandi eru sammála mér í þessu þannig að þessi instantkaffidrykkjumenning virðist einskorðast við Skota. Þó skal tekið fram að hægt er að fara inn á kaffihús hér og fá alvöru kaffi, en kaffihúsin hér í Kirkjuvogi eru alveg fín. Þegar maður fer inn á eitt slíkt sest maður við lítið borð með klístruðum plastdúk og móðu innan á gluggunum. Hér eru kaffihúsin öll í eigu innfæddra en kaffihúsakeðjur á borð við Starbucks og Costa eru ekki með starfsemi á Orkneyjum frekar en aðrar veitingastaðakeðjur.
Eins og þeir vita sem hafa keypt þjónustu af Bandarísku kaffihúsakeðjunni Starbucks, þá er oft mikill hávaði inni á kaffihúsunum þeirra enda mikill fólksfjöldi allt í kring. Starfsfólkið tekur niður pantanir við annan enda afgreiðsluborðsins þar sem maður gefur upp nafn og það sem maður ætlar að fá sér. Við hinn enda borðsins er nafn viðkomandi kallað upp þar sem maður fær drykkinn afgreiddan. Conchita, one Americano. Ég nefnilega nota aldrei mitt rétta nafn, enda er afar ólíklegt að starfsmennirnir viti hvað ég heiti auk þess sem þeir kunna ekki að stafsetja það rétt, skrifa yfirleitt Christian eða Christina á kaffimálið. Ég nota því oft hefðbundin kvenmannsnöfn eins og Sara, Tiffany, eða jafnvel Queen of hearts til þess eins að sjá undrunarsvipinn. Ég er samt að hugsa um að færa mig yfir í góð og gegn íslensk karlmannsnöfn sem gætu verið erfið í framburði fyrir erlenda kaffihúsastarfsmenn. Hallvarður, Þórgnýr, Hreggviður og fleiri, og ég mun hlæja innra með mér þegar blessaðir kaffibarþjónarnir reyna sig við þessi orð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.1.2016 | 21:22
Árstíðirnar
Nú er að verða komið ár síðan ég lagði land undir fót og gerðist Orkneyingur og því hef ég gengið í gegnum allar árstíðir hér en ef til vill má segja að miðað við Ísland er veðrið eilítið betra þó að eilífur vindnæðingur geri okkur lífið leitt en á móti kemur að hitastigið hér er örlítið hærra en yfirleitt munar svona 4-5 gráðum. Það sem maður helst saknar frá Íslandi er þó lognið, ekkert jafnast á við spegilsléttan fjörð á sumarkvöldi, þegar sólin er að hverfa á bak við tindinn eina og sanna. Í sumar var hitastigið hér oft í kringum 18-20 gráður og nokkra daga yfir tuttugu en maður má teljast heppinn á Íslandi ef maður nær parti úr degi með yfir tuttugu gráðu hita. Eyjarskeggjar eru reyndar sammála um að hér áður fyrr hafi veðrið alltaf verið betra á sumrin.
Ekki hefur komið snjór þennan tíma sem ég hef verið hér og að sumu leiti saknar Íslendingurinn þess, en skilyrði fyrir snjó eru ekki góð hér þar sem eyjarnar eru láglendar og umkringdar sjó sem ekki fer niður fyrir 7°C. Eyjarskeggjar eru reyndar sammála um að hér áður fyrr hafi alltaf verið meiri snjór.
Veðurspárnar hér finnst mér vera mjög ónákvæmar, eitthvað annað en maður á að venjast frá Veðurstofu Íslands sem mér finnst gefa út mjög góðar og nákvæmar spár. Hér þýðir lítið að taka mark á spám fyrr en að morgni þess dags sem spáin er fyrir en eitt er þó víst, veðrið verður fjölbreytt. Ef maður vill vita hvernig veðrið verður eftir tvo daga þýðir ekkert að taka mark á spánni, en næsta víst er að veðrið verður ekki eins og spáin segir.
Dæmigerð veðurspá fyrir Orkneyjar er eitthvað á þessa leið: Þurrt en rigning og hlýtt en kalt í veðri. Vindur. Þrátt fyrir vindinn get ég ekki annað en lýst yfir ánægju minni með veðurfarið hér á Orkneyjum. Á hverjum degi fær maður ýmsar útgáfur af veðri yfirleitt er þurrt mestan hluta dagsins en svo koma úrhellisdembur inn á milli. Á veturna er það reyndar oftar haglél sem ég held að sé stórhættulegt en það hefur orðið mér til lífs að ég hef alltaf getað flúið í skjól en nokkrum sinnum hefur það verið það harkalegt að þjófavarnakerfið í bílnum hefur farið í gang. Þó verður að taka það fram að um Toyota bifreið er að ræða. Það myndi samt eflaust margt breytast til hins betra hér ef eyjarnar yrðu dregnar svona 1000 kílómetra til suðurs.
Birtutíminn hér í svartasta skammdeginu er sennilega örlítið lengri en á landi íss og elds en hér er orðið albjart um hálf níu en myrkrið er skollið svona um það bil fimmtán mínútum eftir fjögur. Í júní er myrkrið ekki lengra en svona tveir til þrír tímar. Og nú er dagurinn farinn að lengjast og fyrr en varir verður kominn júní.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2016 | 01:04
Gamlárskvöld - Brúargarðsbaugurinn
Gamlárskvöld, eða Hogmany, eða Haugmannadagur var í rólegri kantinum hjá okkur miðað við hefðbundið gamlárskvöld. Við keyptum þó stjörnuljós og horfðum á skaupið og átum eins og hefur tíðkast hjá okkur fram til þessa. Hér á eyjunum var flugeldaskothríðin ekki skothríð, heldur sáum við smávægilegum flugeldum bregða fyrir við tvö hús en gamlárskvöld virðist ekki vera jafn merkilegt hjá Orkneyingum eins og það er í hugum okkar. Við notuðum hins vegar blíðviðrið á gamlársdag til þess að heimsækja Brúargarðsbauginn, (Ring of Brodgar) sem eyjarskeggjar telja merkilegri en Stonehenge, ekki síst vegna þess að hann er örlítið eldri.
Talið er að Ring of Brodgar hafi verið reistur fyrir allt að 4500 árum. Í hvaða tilgangi veit enginn með vissu og einmitt það gerir hann ennþá áhugaverðari af því að allir geta myndað sér sína eigin skoðun á tilgangi hans. Af hverju 60 steinar? Af hverju var grafinn 7 metra djúpur skurður í kring um hann? Var einhverskonar þinghald þarna? Tengist þetta tímamælingum? Voru fórnarathafnir þarna? Var þetta trúarlegs eðlis? Var þetta stærðfræðiverkefni? Eða var þetta bara djók til þess að fá fólk til þess að brjóta heilann um tilganginn 4500 árum seinna?
Þegar komið er að Ring of Brodgar er bílastæði um 400 metra frá hringnum sjálfum og svo er nýlegur göngustígur fyrstu 100 metrana en eftir það er aðeins gras og bleyta. Við steinhringinn sjálfan eru engar upplýsingar eða skilti enda er hann í hópi merkilegustu fornleifa á Bretlandseyjum og Evrópu, ef út í það er farið, og mest sótti ferðamannastaður Orkneyja og þó víðar væri leitað og því sjálfsagt alveg óþarfi að spandera einhverjum aurum í að gera hann aðgengilegri og áhugaverðari. Reyndar kostar ekkert að skoða hringinn þannig að það er kannski ekki viðeigandi að kvarta yfir því að maður fái ekkert fyrir peninginn.
Sá sem fékk hugmyndina að því að reisa Ring of Brodgar hefur allavega ekki skort sannfæringarkraftinn, ímyndið ykkur bara, Jæja, nú komum við með 60 stóra steina og búum til hring úr þeim. Og eftir þann fyrsta, jæja bara 59 eftir, eigum við ekki að sækja nokkra frá eyjunum hérna í kring líka? Allir með? Sumum finnst þetta kannski ekki tiltökumál, ekki eru nú Orkneyjar stórara og allt er nálægt hér en reynið bara sjálf að drösla tíu tonna þúngum seinum tíu til fimmtán kílómetra leið án allra nútíma tækja og segið mér svo að þetta sé ekkert mál. Ég held allavega að orðið nálægt fái aðra merkingu hjá sumum.
Hvað sem því líður, fær maður það á tilfinninguna þegar maður er kominn á staðinn að þetta hljóti að vera eitt af því merkilegasta sem mannkynið hefur gert. Og allar þær spurningar sem vakna, Af hverju grófu þeir sjö og hálfs metra djúpan skurð allt í kring? Hver var tilgangurinn með hirngnum, af hverju þarna, hvað hefðu þeir gert ef þeir hefðu haft nútíma tæki? Hvernig kviknaði hugmyndin að þessu? Hvernig fólk var hér fyrir 4500 árum, og svo framvegis. Annars var ég búinn að skoða þetta fyrirbæri fyrr á árinu og bloggaði um það hér.
Annars er þetta ár búið að vera óvenjulegt, viðburðaríkt, lærdómsríkt, krefjandi, skemmtilegt, leiðinlegt, einmannalegt og margt fleira. Það er svo undir okkur sjálfum komið að gera næsta ár gott. Gleðilegt ár og takk fyrir það liðna.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.12.2015 | 20:24
Jól og eldsvoði.
Jólin hjá litlu fjölskyldunni á Orkneyjum hafa verið alveg ágæt. Hún móðir mín sendi okkur svínahamborgarhrygg og hangikjöt þannig að við gátum haft nokkuð hefðbundin jól í stað þess að fara að dæmi innfæddra og matreiða skíthaugahoppara sem búið er að troða út með brauðmulningi. Einn af hápunktunum var að fá allar jólakveðjurnar en þökk sé þeirri manneskju sem stóð fyrir því að stofna facebook hóp til þess að vinir og vandamenn gætu safnað jólakveðjum til okkar á einn stað. Það yljaði okkur svo sannarlega um hjartaræturnar að sjá allar kveðjurnar, myndirnar og myndböndin frá öllum sem eru óvenju langt í burtu á þessum árstíma. Jóladagur var eins og venjulega rólegheitadagur en svo tók vinnan við hjá mér.
Aðfaranótt annars í jólum varð eldsvoði á geymslusvæði Scottish Sea Farms en þar brunnu m.a. fiskiker, lyftari, vinnuskúr, net, tóg og ýmislegt fleira og tjónið verður því metið í milljónum. Það eina sem slapp var díseltankur úr plasti fullur af díselolíu. Mín stöð átti ekkert á svæðinu enda erum við ekki enn byrjaðir að safna að okkur drasli. Eldsupptök eru enn ókunn en getgátur eru um að eldingu hafi lostið niður í geymslusvæðið. Þetta geymslusvæði ber nafnið Twatt en eins og margir vita er twat notað sem niðrandi orð yfir ákveðinn líkamshluta kvenna. Þetta skapaði mér ákveðin vandræði s.l. vetur stuttu eftir að ég kom til starfa hjá Scottish Sea Farms þegar ég þurfti að hringja í flutningabílstjóra og biðja hann að sækja hluti sem þurfti að nota við byggingu stöðvarinnar. Vandamálið fólst í því að vörubílstjórinn hafði ekki hugmynd um að staður með þessu nafni væri til og ég rataði ekki á þennan stað. Hvernig vísar maður veginn á stað sem maður ratar ekki á, sem ber dónalegt nafn og viðmælandinn hefur efasemdir um að staðurinn sé í rauninni til? Þetta fór einhvern veginn svona fram (til hægðarauka hef ég þýtt nafnið en vona samt að blogginu verði ekki lokað fyrir vikið):
Góðan dag, Kristján heiti ég og hringi frá Scottish Sea Farms.
Komdu sæll
Ég er að leita mér að bílstjóra til að fara upp í kunta til þess að sækja ýmislegt sem við eigum þar.
Hvað segirðu?
Ég er að leita mér að bílstjóra til að fara upp í kunta til þess að sækja ýmislegt sem við eigum þar.
Fara hvert?
kunta úff þetta var að verða vandræðalegt.
ha?
kunta
hvað ertu að tala um?
kunta það er staður þar sem við geymum ýmislegt Allt í einu var mér orðið svo heitt og ég fann svitann spretta fram.
´Ég veit ekkert hvar það er
nei ekki ég heldur, hefur þú aldrei komið þangað?
nei.
Og í þessum töluðu orðum kom yfirmaður minn inn á skrifstofuna og ég var ekki seinn að rétta honum tólið í von um að hann gæti útskýrt þetta og að blessaður bílstjórinn myndi kannski mögulega vilja vinna fyrir okkur. Og jú það tókst og þetta fór allt vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.12.2015 | 17:10
Ba 2015
Hér í Kirkjuvogi keppa efribæingar (Uppies) og neðribæingar (Doonies) í göturúgbíi tvisvar á ári, á jóladag og á nýársdag en í hvoru liði geta verið um 150 manns. Ég skundaði niður í bæ til að fylgjast með. Leikurinn fer þannig fram að hann hefst fyrir framan Magnúsarkirkju þegar kirkjuklukkurnar slá 13:00 en þá er sérsaumuðum bolta kastað inn í leikmannaþvöguna sem bíður tilbúin. Boltinn saumaður út leðri af nauti frá Orkneyjum sem hefur étið Orkneyskt gras og andað að sér Orkneysku sjávarlofti. Verslunareigendur og aðrir sem eiga hagsmuna að gæta í miðbænum hafa fest planka fyrir glugga til þess að minnka hættuna á að þeir brotni í hamaganginum.
Síðan hefjast átökin og en hver leikur getur staðið yfir í allt að sjö klukkutíma. Efribæingar eiga að reyna að koma boltanum niður að höfn og út í sjó, um hálfs kílómeters leið, en neðribæingar reyna að fara með boltann í hina áttina, líka um hálfskílómeters leið, að vegg þar sem borgarhliðið stóð áður fyrr. Fjöldi áhorfenda kemur til að fylgjast með en ekki síður til þess að hitta annað fólk og ekki er óalgengt að brjóstbirta sé með í för. Þann tíma sem ég fylgdist með var leikmannahópurinn að mestu kyrr á sama stað á meðan hvort liðið um sig ýtti og hamaðist við að mjaka boltanum í aðra hvora áttina. Það eina sem breyttist var að gufa fór að stíga upp af hópnum þegar menn byrjuðu að svitna.
Þarna er hópurinn að hamast, gufa stígur upp af leikmönnum og fólkhangir úti í gluggum og uppi á veggjum til þess að fylgjast með.
Ekkert gekk en þó kom það tvisvar sinnum fyrir að leikmannahópurinn tók á rás og þá áttu áhorfendur fótum sínum fjör að launa. Fólki er ráðlagt að koma ekki með ung börn til að fylgjast fötluðum er jafnframt ráðlagt að halda sig fjarri leiknum vegna þess að leikurinn getur fyrirvaralaust borist inn í áhorfendaskarann og því getur þeim áhorfendum sem eiga erfitt með að forða sér stafað hætta af. Enginn dómari er í Ba´ en leikmönnum ber skylda til að sýna andstæðingunum virðingu og hjálpa leikmönnum sem verða fyrir meiðslum og jafnframt eru leikmenn beðnir um að forðast að valda tjóni á húsum, bílum og öðrum eignum.
Fyrir nokkrum árum sat heimilisfaðir einn í mestu makindum heima hjá sér á jóladag þegar bankað var upp á, þegar hann opnaði ruddust allir Ba leikmennirnir í gegnum húsið hans og út bakdyramegin. Konur kepptu um skeið í Ba´ en vegna ofbeldis þurfti að hætta með kvennakeppnina þar sem konurnar mættu með skæri og prjóna og stungu hverja aðra.
The Ba´ er svo sannarlega einn af stærstu viðburðum ársins hér á eyjunum kenndum við Orkn.
Þetta myndbrot er frá því í dag:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.12.2015 | 17:59
Nú mega jólin koma, þökk sé William Shearer
Í síðustu viku sendum við jólagjafirnar til Íslands en í gær var þeim skilað aftur til okkar af því að í þeim voru snyrtivörur sem ekki mátti senda í pósti Því var ekki um annað að ræða en að skipta þeim út fyrir annað og koma þeim aftur í póst og því fór ég á stúfana í dag, en Þorláksmessa heilsaði með roki og úrhellisrigningu. Þegar ég kom inn á pósthúsið með blauta pakka og sjálfur gegnblautur setti ég pakkana á borðið og hristi mig eins og hundur til þess að losna við mestu bleytuna. Ég var að vonast eftir að fá fyrri sendinguna endurgreidda en yfirkonan á pósthúsinu sagði að það væru hverfandi líkur á að það gengi upp. Ég hallaði mér því yfir afgreiðsluborðið í áttina til hennar og potaði vísifingri og löngutöng fast í augun á henni og gekk svo út nokkuð ánægður með sjálfan mig. Nei ég gerði þetta ekki, ég hugsaði þetta bara. Ég er því búinn að greiða tvöfalt hraðsendingargjald fyrir pakkana sem komast ekki á leiðarenda fyrr en eftir áramót en þetta er nú ekki til þess að koma manni í jólafíling.
Þessu næst þurfti ég að fara í Tesco til þess að útvega eitt og annað fyrir jólin. Þorláksmessuörtröðin var mikil og erfitt að fá stæði en að lokum tókst mér að finna eitt laust í um hálfs kílómetra fjarlægð, sem er nokkuð langt þegar úti er rok og rigning. Ég þurfti að taka út pening í hraðbankanum og það var því ekki til þess að auka gleðina að sjá að hraðbankinn í Tesco var lokaður og ég þurfti að ganga aftur í bílinn í rigningunni og finna annan hraðbanka með tilheyrandi leit að bílastæði og göngu í rigningunni. Aftur komst ég þó í Tesco og fann stæði en þegar inn var komið var mannmergðin slík að varla var hægt að komast að hillunum til þess að ná í vörur og sums staðar stóð fólk við hillurnar með körfurnar og beið og það virtist yfirleitt gera sér far um að standa á þeim stöðum þar sem vörurnar sem mig vantaði voru. Sem dæmi stóðu þrjár konur, sem litu út fyrir að vera nýkomnar úr líkkistumátun, með lítinn kjúklingabakka (sem þær voru örugglega ekki að fara að nota um jólin) og ræddu fram og aftur um innihaldið, beint fyrir framan hilluna með Toblerone súkkulaðinu sem átti að nota í jólaísinn á mínu heimili. Hvað geta þrjár konur talað lengi um kjúklingabakka? Ég komst aldrei að því af því að þegar ég gafst upp á að bíða beit ég saman tönnunum og kreisti fram brosgrettu og sagði "skjús mí" til þess að smeygja mér framhjá þeim og teygja mig í Toblerónið. rauðkál virðist líka ekki eiga upp á pallborðið hjá Skotum en ein tegund var til í Tesco með hvítu rauðkáli í vatni sem leit afskaplega ógirnilega út. En sem betur fer er einn rekki í Tesco með pólskum vörum og þar fann ég rauðkál eins og við Íslendingar þekkjum. Guði sé lof fyrir Pólverja. Þessi búðarferð sem undir venjulegum kringumstæðum hefði tekið tíu mínútur tók tæpan klukkutíma og það var ekki til þess að bæta skapið. Og nú átti eftir að finna jólaseríu á jólatréð. Það er lítið um jólaskreytingar hjá okkur þessi jólin af því að jólaskrautið var allt skilið eftir á Íslandi. Við vildum þó hafa jólatré með tilheyrandi skrauti, ekki síst fyrir börnin en kannski líka fyrir börnin í okkur sjálfum. Við vorum búin að horfa eftir seríum víða en hvergi fundið. Ég fór því í Húsasmiðjuna (Highland Industrial Supplies) en þar var ekki ein einasta jólasería. Af hverju er maður ekki bara á Íslandi, þá væri allt eins og venjulega og jólin í faðmi fjölskyldu og vina. Hér er ekki einu sinni jólasnjór, bara rok og rigning. Allir ljótir, allt ömurlegt, þetta verða götuð jól, hér er ekki hægt að hengja upp jólaseríu fyrir börnin, ég hata Orkneyjar. Íris hafði sagt mér frá einni verslun sem leyndi á sér og ég hafði aldrei komið inn í William Shearer heitir hún. Ég fór því þangað. Síðasta hálmstráið. Verslun þessi kom svo sannarlega á óvart, þarna er matvara, byggingarvara, veiðivörur og eiginlega allt milli himins og jarðar. Inní miðri búðinni var gamall tréstigi. Ég gekk upp og þetta var eins og að fara upp á loft í Löngubúð eða annarri gamalli krambúð og maður andaði að sér gamla tímanum. Þar voru trébjálkar í lofti og allskonar eldgamalt dót ásamt ýmiskonar jólavarningi.
Og viti menn uppi á gamalli tunni var trékassi og ofan á honum var einn pakki með jólaseríu, síðasti pakkinn, og það var einhver undarlegur glampi yfir honum. Það glaðnaði yfir mér og ég tók pakkann og greiddi fyrir. Nú hafði stytt upp og sólin var farin að skína. Ég hélt heim til þess að sjóða hangikjötið og gæða mér á nýheimabökuðu rúgbrauði og saltfiski. Stundum þarf ekki nema eina litla jólaseríu til þess að koma jólaskapinu í lag. Nú mega jólin koma fyrir mér. Gleðileg jól.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.12.2015 | 00:10
Jólapóstur og jólaleikrit.
Í gærmorgun fór ég loksins með jólapakkana í póst en ég hef ekki komist á pósthúsið síðustu tvær vikur vegna þess að þar er ekki opnað fyrr en níu og lokað klukkan fimm en ég er yfirleitt á sjónum á þessum tíma. Ég hélt reyndar að það væri opnað klukkan hálf níu og var því mættur tíu mínútur fyrir níu en þá var harðlæst og roskinn maður stóð einn í biðröð í rigningarsuddanum. Stuttu síðar bættist sá þriðji við og eins og gengur var farið að tala um veðrið og hvað væri nú milt veður þessa dagana, en hitastigið hefur verið 10 - 12 gráður. Smám saman bættist í hópinn og þegar pósthúsið var loksins opnað voru tólf manns komnir í biðröð. Pósturinn (Hin konunglega póstþjónusta) er sem sagt farinn að minna á kleinuhringjabakarí. Opnunartíminn er reyndar frekar ruglingslegur og þess vegna ekki endilega til þess fallinn að létta viðskiptavinum lífið. Stundum er opnað klukkan hálf níu, stundum níu og stundum hálf tíu. Yfirleitt er lokað klukkan fimm nema stundum klukkan hálf fimm og á laugardögum klukkan hálf eitt. Það leggur enginn það á sig að reyna að muna hvenær hvaða daga er opnað eða lokað. Menn bara mæta upp á von og óvon. Þrátt fyrir rigningu. En hvað um það, ég sendi þrjá kassa með gjöfum og þar sem ég var orðinn svo seinn með þetta þurfti ég að bíta í það súra epli að borga fjórfalt gjald undir þetta til þess að vera viss um að þetta verði komið fyrir jól. Ég hefði kannski frekar átt að fara sjálfur með þá til Íslands en maður verður bara að sætta sig við þetta. Lífið veldur manni stundum vonbrigðum.
Í gærkvöld skundaði svo fjölskyldan í matsal grunnskólans í Papadal en þar var sýndur söngleikurinn "Ljósmóðir í vanda" sem er jólaleikrit skólans hennar Brynju. Brynja lék engil en söngleikurinn fjallar um ljósmóður sem þarf að fara til Betlehem til þess að taka á móti barni og ýmis vandræði sem því fylgja. Fyrir sýninguna voru hin ýmsu tónlistaratriði og aldrei í lífi mínu hef ég heyrt í eins fölsku píanói eins og í gær. Þetta var sem sagt allt hin besta skemmtun en þó þurfti ég að hverfa af vettvangi áður en yfir lauk þar sem Ívar Orri var farinn að valda truflunum með framíköllum og látum.
Nú eru farnar að berast sendingar frá Íslandi í tilefni jólanna og þær hafa vakið gríðarlega lukku og ekki annað hægt að segja að þær séu mjög svo óvænt ánægja. Bestu þakkir til þeirra sem hafa hugsað til okkar, við hugsum líka til ykkar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
14.12.2015 | 21:49
Yachtmaster
I dag lauk svokölluðu Yachtmaster Coastal námskeiði hjá mér og því ver að líða að því að ég fái þau bátaréttindi sem stöðvarstjóri hjá Scottish Sea Farms þarf að hafa. Til þess að fá þessi réttindi þarf að ganga í gegnum smá ferli sem er eitthvað á þessa leið:
ML5: Áður en nokkuð er gert þarf að fara í læknisskoðun og fá læknisvottorð sem staðfestir að maður sé líkamlega og andlega hæfur.
PPR: Professional practices and responsibilities. Lög og reglugerðir, skyldur og ábyrgð þeirra sem stjórna bátum, tvímælalaust leiðinlegasti hlutinn af þessu en engu að síður nauðsynlegur af því að það er aldrei hægt að bera því við að maður hafi ekki vitað betur. PPR veitir engin réttindi önnur en þau að maður fær ekki útgefið skírteini fyrr en búið er að fara í gegnum þetta. PPR tekur tvo daga og lýkur með prófi.
VHF talstöðvarnámskeið: Enginn fær réttindi til þess að stjórna bát nema að viðkomandi hafi talstöðvarskírteini. 1 dagur.
Powerboat: Gefur réttindi til að stjórna bát allt að 3 mílum frá þeirri höfn sem var lagt upp frá. 2 dagar.
Sea survival: Slysavarnaskóli sjómanna, svipað og á Íslandi. 1 dagur.
Day skipper: gefur réttindi til að stjórna bát allt að 24 m að lengd, í dagsbirtu, innan 20 sjómílna frá þeirri höfn sem siglt var úr. 3 dagar bóklegt og 4 dagar verklegt.
Yachtmaster coastal: Gefur réttindi til að stjórna bát allt að 24 m að lengd, innan 20 sjómílna frá öruggri höfn að degi sem nóttu, sem þýðir að maður getur í raun farið með bát í kringum Bretland eða niður til Miðjarðarhafsins svo dæmi sé tekið. 3 dagar bóklegt, 5 dagar verklegt og 2 dagar í verklegu prófi.
Allt í allt eru þetta því 23 dagar og skírteinið er gefið út af RYA en mér skilst að þau séu viðurkennd nánast hvar sem er í heiminum og þó víðar væri leitað.
Síðasta vika hefur því verið undirlögð í þessu og hefur að flestu leiti verið skemmtilegt þó að á ýmsu hafi gengið, minnstu munaði að kviknaði í bátnum á miðvikudag og á fimmtudag þurftum við að veltast um í 20 - 25 m/s vindstrekkingi og reyna að varpa akkeri. Föstudagurinn var hinsvegar góður, þá sigldum við m.a. til Vestureyjar en þangað hafði ég ekki komið áður. Að sögn margra Orkneyinga er Vesturey fallegasta eyjan hér í eyjaklasanum og eyjarskeggjar eru líka sagðir vera sérstaklega vingjarnlegir og gestrisnir. Ég hafði ekki tíma til að skoða mig um og skera úr um þetta. Á eyjunni eru þrjár kirkjur og sagt er að ættarnöfnin séu jafnmörg og kirkjurnar. Það gæti mögulega útskýrt vingjarnlegheitin. Milli Vetureyjar og Papeyjar hinnar stærri er líka stysta áætlunarflug í heimi en flugtíminn er um þrjár mínútur. Sennilega er erfitt að komast í "mile high" klúbbinn í því flugi enda flýgur flugvélin í minna en einnar mílu hæð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2015 | 21:43
Útburðir
Í gærkvöldi fór ég á skemmtilegan og fræðandi fyrirlestur um útburði hjá sagnameistaranum Tom Muir. Hann sagði sögur um útburði frá Svíþjóð, Noregi, Færeyjum, Íslandi, Mön, Skotlandi, Orkneyjum og Hjaltlandseyjum. Útburðir eru eins og margir vita afturgöngur ungbarna sem voru borin út ýmist vegna þess að þau fæddust andvana, eða að mæðurnar treystu sér ekki til að ala þau upp vegna fátæktar eða vegna þeirrar skammar sem fylgdi því að eiga lausaleiksbörn. Flest allar útburðarsögur eiga það sameiginlegt að til þess að kveða niður útburð þurfti að gefa þeim nafn eða kveikja í þeim. Tom sagði tvær sögur frá Íslandi, Móðir mín í kví kví og önnur sem ég get ekki munað hvað heitir en þar kemur vikivaki dans við sögu þar sem móðir útburðarins tók þátt en útburðurinn lét í sér heyra og vildi taka þátt í dansinum. Kannski veit einhver um hvaða sögu er að ræða. Tom Muir er helsti sagnamaður Orkneyja og hefur skrifað bækur og safnað þjóðsögum en Orkneyskar þjóðsögur sem Tom safnaði saman komu út í íslenskri þýðingu fyrir ári síðan. Ég læt hér tvær fallegar útburðarsögur frá Svíþjóð fylgja, vonandi skila þær sér óbjagaðar en þetta er þýtt og endursagt eftir skeikulu minni.
Stúlka ein varð ófrísk og þar sem það þótti mikil skömm að eignast lausaleiksbarn leyndi hún því að hún væri vanfær og þegar barnið fæddist aflífaði hún það og kom því fyrir í lítilli tunnu sem hún faldi undir gólfinu. Svo kom að því að hún kynntist manni og boðað var til brúðkaups. Á meðan á brúðkaupsveislunni stóð heyrðu veislugestir rödd sem kom undan gólfinu og sagði "Beinin eru löng og tunnan er þröng, hleypið mér héðan fljótt til að dansa í alla nótt". Fólki brá við og þegar kíkt var undir gólfið fannst tunnan með líkamsleifum barnsins og heldur dofnaði nú yfir stemmingunni í brúðkaupinu. Útburðurinn fékk nafnið Jóhanna en brúðkaupið fór út um þúfur.
Á bæ einum sem kýr voru haldnar bar svo við að í hvert sinn sem kálfur fæddist þá fannst hann dauður nokkrum dögum seinna og kunnu menn engin ráð við þessu. Dag einn bar þar að skósmið sem hafði ferðast um til þess að leita sér að vinnu. honum var vel tekið en eina plássið sem var í boði fyrir hann var í fjósinu. Þegar hann hafði dvalist á bænum um skeið fæddist þar kálfur. Nokkrum dögum síðar vaknaði skósmiðurinn við að lítil vera spratt fram og fór að dansa við kálfinn af miklum krafti, svo miklum að hann dansaði kálfinn til dauða. Síðan hvarf veran jafn skjótt og hún birtist. Nokkru síðar fæddist annar kálfur og aftur gerðist það sama, lítil vera spratt fram og byrjaði að dansa við kálfinn af krafti en nú tók hún eftir skósmiðnum og gerði hlé á dansinum og kom hlaupandi til hans og sagði: "þetta gengur vel, ég dansa og þú saumar skó" síðan tók hún aftur til við dansinn og hætti ekki fyrr en kálfurinn var dauður. Skósmiðurinn sá að ekki var hægt að láta þetta viðgangast og sagði frá því sem gerst hafði. Kom þá í ljós að vinnukona á bænum hafði eignast barn en komið því fyrir í loklausri tunnu í fjósinu og þegar farið var að gá fannst tunnan með barninu í. Skósmiðurinn bað fólk um að kveikja eld næst þegar kálfur myndi fæðast og þegar að því kom lokaði skósmiðurinn tunnunni og henti henni á eldinn og svo var bætt á eldinn. Þá heyrðist kallaðu úr tunnunni "opnið tunnuna og hleypið mér út". Það var ekki gert en bætt meiru á eldinn þar til ekkert var eftir nema askan. Eftir þetta lifðu allir þeir kálfar sem fæddust á bænum.
Allt er gott sem endar vel.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.12.2015 | 23:27
Svörtu skrímslin og fleira úr daglega lífinu.
Fyrir nokkrum dögum uppgötvaði ég að hér í Kirkwall er fiskbúð sem tveir rosknir bræður reka, ég veit ekki hvað þeir heita en ég ætla að kalla þá Magnús og Eyjólf. Þeir selja ferskan fisk sem þeir kaupa af fiskimönnum hér á Orkneyjum og hinu megin við sundið á meginlandinu og fá hann sendan með ferjunni. Hjá þeim er líka hægt að kaupa lifandi humar og hörpudisk og ég stóðst ekki mátið í dag og keypti tvo væna kolsvarta humra, um hálft kíló hvor um sig. Brynju og Ívari Orra leist ekki vel á þá og æptu í skelfingu sinni "skrímsli, skrímsli" þegar ég lagði þá á stéttina og leyfði þeim að spóka sig um í blíðunni í dag.
Það hefur verið fremur vindasamt hér síðustu 2-3 vikurnar og það hefur háð okkur á eldisstöðinni en þrátt fyrir stöðugan vind á bilinu 15 - 20 m/s höfum við náð að fóðra flesta daga. við náðum líka að baða fisk í þremur kvíum í vikunni en það var ákveðið að fara í þá aðgerð þar sem sníkjudýr í tálknum voru farin að gera vart við sig. Þetta var ekki farið að valda afföllum en við vildum ekki taka neina áhættu, enda um hára fjárhæðir að ræða, og því ákváðum við að baða fiskinn til þess að forðast afföll en þessi óværa er algeng hér um slóðir. við böðunina var notaður sérsaumaður dúkur sem var breiddur undir kvína þannig að ekki yrðu nein vatnsskipti og svo var súrefni og vetnisperoxíði dælt í kvína og nú ætti fiskurinn að vera laus við meinsemdina, búinn að fá jólabaðið.
Ný atvinnugrein virðist vera að ryðja sér til rúms hér á Orkneyjum en um er að ræða viðgerðir og viðhald á olíuborpöllum. lækkun olíuverðs og samdráttur í olíuiðnaðinum hefur gert það að verkum að olíuborpöllum í Norðursjónum hefur fækkað og Scapa flóinn er einn af þeim stöðum sem verða notaðir til þess að sinna viðhaldi og endurbótum á meðan ekki er verið að nota þá. Nú nýlega kom olíuborpallur að nafni Regalia inn á flóann og von er á fleirum. Þetta skapar atvinnutækifæri fyrir um fjörutíu manns sem vinna við endurbætur en auk þess fá ýmis þjónustufyrirtæki verkefni tengd þessu og þar að auki fær hafnarsjóður Orkneyja vel greitt á meðan pallurinn er geymdur á flóanum. akkeri og lappir eru notuð til þess að halda pallinum kyrrum en auk þess er notað staðsetningartæki sem er tengt búnaði í pallinum sem sér til þess að hann hreyfist ekki meira en 30 cm frá þeim stað sem hann á að vera á. Magnað.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar