Hinar ýmsu íþróttir

SSF veitir á hverju ári samfélagsstyrki til góðra málefna og í gær var ég sendur sem fulltrúi fyrirtækisins á æfingu hjá kvennaliði Orkneyja í hokkí en liðið fékk styrk að upphæð 5.000 pund. Sú staðreynd að Orkneyjar eru tiltölulega afskekktar gera það að verkum að dýrt er fyrir liðið að taka þátt í þeim keppnum sem eru í boði og ekki bætir úr skák að einhverjar fáránlegar reglur segja að ef meira en 250 mílur eru á milli keppnisliða þá skal spila á hlutausum velli en það þýðir að liðið getur nánast aldrei spilað heimaleik.  Sennilega fer jafn mikill tími í fjáraflanir og í að æfa og keppa og það má með sanni segja að stúkurnar sem eru í hokkíliðinu eru í þessu af einskærum áhuga. Hokkí er lítið sem ekkert stundað á Íslandi þó að frændsystkin íþróttarinnar bandí og íshokkí (sem mér til mikillar ánægu hefur verið í miklum vexti enda um stórskemmtilega íþrótt að ræða) séu vel þekkt.

Annars er rugby sennilega vinsælasta íþróttagreinin í Skotlandi, vinsælli eða a.m.k. jafn vinsæl og fótbolti, allavega er það þannig hér á Orkneyjum er lítið rætt um fótbolta en rugby ber oft á góma. Það vildi líka svo skemmtilega til að í dag var Orkney RFC að etja kappi við Livingston í rugbyleik og ég skellti mér á völlinn, á rugby leik í fyrsta sinn.  Fyrir þann sem er ekki með reglurnar á hreinu, eins og mig, lítur þetta út fyrir að vera slagsmál milli þrjátíu kraftalegra karlmanna.  En það eru reglur og menn virðast sýna andstæðingnum virðingu þrátt fyrir að hart sé tekist á og lítið er um að menn láti skapið hlaupa með sig í gönur.  Það var ung stúlka sem var dómari í þessum leik og hún virtist hafa góða stjórn á þessum þrjátíu grjóthörðu rugbyleikmönnum.  Ég skemmti mér ágætlega og á örugglega eftir að fara á völlinn aftur og til gamans má geta þess að leikurinn endaði 46-5 fyrir Orkney rfc.

10391795_10153410142452592_8402146290948641765_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Af öðrum vinsælum íþróttagreinum hér má nefna pílukast en heimsmeistaramótið er nýafstaðið og var sýnt frá mest allri keppninni beinni útsendingu þar sem mikil stemming var meðal fjölda áhorfenda sem studdi vel við bakið á sínum mönnum.

Netbolti (Netball) er oft sýndur í sjónvarpi og mér virðist eingöngu kvenfólk stunda þá íþrótt sem er eins og körfubolti nema að ekkert spjald er við körfuna.

Hundakapphlaup er oft sýnt í beinni útsendingu en ég hef ekki haft nógu lítið að gera til þess að nenna að horfa á hunda hlaupa í hringi. Ef ég man rétt er vinsælt að veðja á líklega sigurvegara og þar er væntanlega ástæðan fyrir vinsældunum.

Svo er það auðvitað krikket. Ég hef aldrei skilið krikket og ég er ekki viss um að neinn skilji krikket en samt er krikket sýnt á hverjum degi í sjónvarpi hér.


Myndasaga: Kökur, egg og gróðurhús

Á meðan Íris fór á bókasafnið í dag til þess að undirbúa sig fyrir próf fórum við krakkarnir í leiðangur. Fyrsta stopp var við hús í útjaðri Kirkjuvogs en við afleggjarann upp að húsinu var snyrtilegur trékassi með skilti sem á stóð “heimabakaðar kökur til sölu” og þegar kassinn var opnaður blöstu við plastpokar með ýmis konar bakkelsi sem stóð og stæðileg Orkneysk húsmóðir hefur væntanlega bakað og gengið snyrtilega frá. 

20160220_104801 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Lítill plastkassi leyndist á meðal kökupokanna og þar setti ég þrjú pund en hver poki kostaði eitt pund eða 184 krónur.  Mér finnst alveg frábært að geta keypt heimabakaðar kökur, en væntanlega myndi Heilbrigðiseftirlit Íslands stöðva svona enda allt of mikil áhætta sem fylgir því að borða heimabakaðar kökur.

20160220_134925 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Næst lá leiðin út í sveit og við einn bónda bæinn gerðum við stuttan stans af því að þar var annar kassi en í þetta skiptið var um egg að ræða.

20160220_140328 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og þetta voru engin venjuleg egg, heldur egg úr hamingjusömum hænum sem spígspora frjálsar um Orkneyskar grundir.  Það má nú reyndar alveg setja spurningamerki við það hvort á að kalla það frelsi.  Bakki með sex eggjum kostar 221 kr. 

20160220_140346 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Ég kaupi mín egg yfirleitt í Tesco af því að þau eru mun ódýrari en bakki með 15 eggjum úr þunglyndum hænum kostar 230 krónur.  Hvað sem því líður er það eins og með kökurnar alveg frábært að eiga kost á því að geta keypt eggin sín beint frá býli.

Á heimleiðinni keyrðum við fram á óvenjulegt gróðurhús sem stóð við enn einn bóndabæinn en það sem var svona óvenjulegt við það var að það var að mestu leyti byggt úr plastflöskum undan gosdrykkjum. Þetta finnst mér stórsniðug leið til þess að endurvinna plast og jafnvel má nota timburafganga í þetta líka og að sjálfsögðu rækta sitt eigið grænmeti, blóm eða hvað það nú er sem hver og einn hefur áhuga á.  Byggingarleiðbeiningar má finna hér.

20160220_143636 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að þessu loknu var haldið heim en þó mundi ég eftir konudeginum og kom við í Tesco til þess að kaupa blómvönd og kotasælu. “Ja hérna” sagði afgreiðslustúlkan (eða ég held að það hafi verið kvenmaður), “einhver verður ánægð í kvöld” og svo brosti hún þannig að skein í gulbrúanr tennur.  Enginn hafði sagt mér að kotasæla gerði konur ánægðar en maður er alltaf að læra.

Afrakstur ferðarinnar:

20160220_150628 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

20160220_150918 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


Ófærð

Nú er nýbyrjað að sýna Ófærð hér í Breska sjónvarpsfélaginu (BBC4). Það yljar manni svo sannarlega um nýrnahetturnar að heyra íslenska ylhýra tungumálið hljóma í ríkissjónvarpi breska konungsveldisins.  Annars horfi ég átakanlega lítið á sjónvarp, hér á þessum fjarlægu eyjum er fátt sem heillar, hér eru fréttir ekki fluttar af Boga Ágústssyni og því ekki sérlega eftirsóknarvert að horfa á þær og hér er ekki Landinn en hins vegar er boðið upp á ógrynni af alls konar sápuóperur.  Ég hef aldrei nennt að horfa á sápuóperur en samt veit ég að breskar sápuóperur eins og Hollyoaks, Eastenders og Coronation street virðast vera nokkuð vinsælar hér um slóðir.  Það er líka umhugsunar vert að amerískar sápuóperur fjalla um ógeðslega ríkt fólk sem er ekki að gera neitt sérstakt og það er yfirleitt leikið af fólki sem hefur frekar fengið hlutverkið út á hárgreiðsluna en leiklistarhæfileikana á meðan breskar sápuóperur fjalla um venjulegt almúgafólk sem er ekki að gera neitt sérstakt en hefur þó fengið hlutverkið út á eitthvað annað en hárgreiðsluna.  Annars nýti mér helst Sky sports til þess að horfa á enska boltann og þar eru líka skemmtilegir þættir sem heita Fantasy football club þar sem einni liðurinn er að gömul fótboltahetja er tekin í viðtal, ræðir um ferilinn og velur lið með 11 bestu leikmönnum sem hann hefur leikið með.   Íris horfir stundum á þætti um afkomendur íranskra innflytjenda í bandaríkjunum þar sem fyrrverandi Ólympíuverðlaunahafi í tugþraut, karlmennskan uppmáluð, ákvað þegar hann var að komast á ellilífeyrisaldurinn að skipta um kyn.  Af þessu má sjá að Ófærð er kærkomin viðbót og nú er bara að sjá hver sá seki er.  Getur verið að Ingvar E Sigurðsson sé bara í aukahlutverki, er hans þáttur stærri?  Eru það hótelstjórinn og Jóhann Sigurðarson sem búa yfir einhverju leyndarmáli?  Eða einhver annar?  Kemur í ljós.


mbl.is Leika allir Íslendingar í Ófærð?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar við Rich Hall fórum í pub quiz

Í gær fór ég ásamt tveimur félögum mínum á Pub Quiz, eða barsvar, á öldurhúsi hér í bæ sem ber nafnið Helgis og er af mörgum talið vera eitt hið besta af slíkum húsum hér í bæ. Að þessu sinni var tónlistarþema og töldum við það henta okkur ágætlega enda vel að okkur um allskonar tónlist. Spurningarnar sem bornar voru upp hentuðu okkur reyndar ekki alveg nógu vel þar sem við gátum ekki svarað nokkrum staðbundnum spurningum um Orkneysnka tónlist og aðrar voru nokkuð strembnar, eins og t.d. þessi: nefnið tíu plötur með Áströlsku hljómsveitinni AC/DC sem væri e.t.v. mögulegt að svara ef maður hefði nægan tíma en ein mínúta á barsvari er örugglega ekki nóg.

Þar sem allt að sex manns máttu vera í hverju liði höfðu tveir menn á næsta borði boðist til þess að ganga í lið með okkur sem við auðvitað samþykktum.  Ekki þekkti ég þessa menn sem sátu hjá okkur en þegar fólk fór að stoppa við borðið okkar og biðja um eiginhandaráritanir og myndir með öðrum þeirra þótti mér nokkuð ljóst að hér færi maður sem margir þekktu til og ætti aðdáendur. Ég komst þó að því að hann heitir Rich og er skemmtikraftur en þeir félagar voru á ferðalagi um Bretland til þess að halda uppistandsskemmtanir og síðar liggur leið þeirra til Ástralíu. Manni líður hálf kjánalega þegar setið er til borðs með einhverjum sem allir þekkja nema maður sjálfur, maður kann ekki við að spyrja of beinskeytt um hagi viðkomandi af ótta við að móðga viðkomandi sem væntalega reiknar með að allir þekki hann. Alla vega komst ég að því eftir að hann var farinn að hann heitir Rich Hall og er sennilega frægasti maður sem ég hef hitt. Allavega sá fræagsti sem ég hef setið og sötrað bjór með og verið með í pub quiz liði. Hann er sumsé heimsfrægur uppistandsgrínisti og hefur komið víða fram bæði á sviði og í sjónvarpi en hann var t.d. fastur gestur David Letterman, kemur oft fram í QI, hefur komið fram á live at the Apollo, hefur gert 4 gamanþáttaraðir á BBC, hefur komið fram í Top Gear og margt fleira.

Þess má líka geta að Matt Groening, skapari Simpson þáttanna segir að Rich þessi Hall sé fyrirmynd sín að einni persónu þáttanna, barþjóninum Moe.

moe

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og talandi um Simpsons, fyrst ég er staddur á Orkneyjum þá má geta þess að hinn stórskemmtilegi karakter Willie the groundskeeper á, samkvæmt fyrrnefndum Matt, að vera frá Kirkwall á Orkneyjum.

Groundskeeper-Willie-from-The-Simpsons-1024x681

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Já ýmsar eru tengingarnar. Nú veit ég ekki hvort margir Íslendingar þekkja þennan Rich en hann sagði að hann langaði til að halda uppistandsskemmtun á Íslandi það þyrfti bara eitt símtal og hann myndi strax fara. Nú eru eflaust sumir að velta fyrir sér hvort hann var fyndinn eða ekki og eigum við ekki bara að segja að hann hafi fallið inn í hópinn. Þó að ég hafi ekki séð þennan Rich áður, hef ég þó nokkuð gaman af þeim sem kallast því fallega orði “uppistandarar” og eru Michael MacIntyre, Lee Nelson og skotinn Kevin Bridges í mestu uppáhaldi.   Við enduðum í 6. sæti af 7. Það er skammarlegt.


Kaffihús Júlíu í Straumnesi

Fjölskyldan brá sér í fyrsta skipti á kaffihús á sunnudaginn og var kaffihús Júlíu í Straumnesi fyrir valinu. Kaffihúsið er staðsett við höfnina með heillandi útsýni yfir malbikað bílastæðið við ferjuhöfnina.

10940478_10152612405692592_4292545550088958843_n

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fáir viðskiptavinir voru í kaffi hjá Júlíu og því afskaplega rólegt. “Nei sko, það er til möffins hérna” kallaði Brynja þegar við komum að glerskápnum með kökunum hjá afgreiðsluborðinu en þegar við ætluðum að panta vorum við vinsamlegast beðin að setjast, pantanir eru ekki teknar við afgreiðsluborðið. Hér eru sko prinsippin í hávegum höfð. Við settumst því við plastdúkalagt borð og um það bil tíu mínútum síðar kom miðaldra kona með blýant og skrifblokk, tilbúin að taka niður pöntun, væntanlega búin að nota þessar tíu mínútur til þess að undirbúa sig. Eða leita að blýantinum. “Já, við ætlum að fá tvö bláberjamöffins” Hik kom á konuna og svo gretti hún sig, “Er það fyrir börnin”? “já”. “Ah þetta er nú meira hugsað fyrir fullorðna en eiginlega ekki fyrir börn”. “Nú? Möffins ekki fyrir börn” varð mér að orði. “Já það eru nefnilega möndlur í þessu”. Ég verð nú að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt um það að börn ættu ekki að borða möndlur og ætlaði að fara að malda í móinn en Iris tók völdin og fór með börnin og pantaði Rice crispies kökur fyrir þau. “Já, ég ætla svo að fá eplaböku (applepie) með ís” sagði Íris Afgreiðslukonan horfði undarlega á hana en sagði svo “þú ert heppin við eigum eitt svoleiðis”. “Æ ég ætlaði líka að fá eplaböku með ís” bað ég um en þar sem hún hafði lýst því yfir að aðeins ein væri til bjóst ég við því að þurfa að panta mér eitthvað annað. En viti menn “Já eplaböku, ekkert mál”. Þetta varð alltaf undarlegra. “Sem sagt tvær Rice crispies kökur, ein eplabaka (apple-pie) og eitt eplabindi (Apple-tie)”.

AppleTie

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Auðvitað leiðréttum við þennan leiða misskilning og við fengum að sjálfsögðu bæði eplaböku og börnin fengu grjótharðar RiceCrispies kökur en þær voru bornar fram á litlum diski og hnífur fylgdi með. Hvað á þriggja ára krakki að gera við hníf með Rice Crispies köku? Hvað á fullorðinn að gera við hníf með Rice Crispies köku? Kannski hefur eitthvað enn öflugra vopn fylgt með bláberja möffinsunum og þess vegna var það ekki ætlað börnum.


Geirþrúður

Síðan í lok nóvember hefur hver stormurinn á eftir öðrum gengið yfir Orkneyjar. Nú síðast í gær og í dag þegar stormur að nafni Gertrude gekk yfir og olli ýmsum skemmdum og röskun á samgöngum. Þetta myndi svo sem ekki skipta mig máli nema af því að ég er háður veðrinu vinnu minnar vegna. Síðustu mánuði hafa a.m.k. 30 dagar dottið út í fóðrun vegna þess að ófært hefur verið út í fóðurprammann. Þetta er sérlega bagalegt af því að við þurfum að vera tilbúnir með lax til slátrunar í október n.k. af því að Marks og Spencer eru búnir að leggja inn pöntun. Við verðum því að reyna að ná þessu upp með öllum ráðum en auðveldlega á að vera hægt að ná laxi úr 80 gr upp í 5 kíló á 13 mánðum hér á 59. breiddargráðu. Þegar lægðirnar fá nafn eins og þessi sem fékk nafnið Gertrude, þýðir það að þær eru djúpar og breska veðurstofan gefur út viðvaranir. Þær lægðir sem hafa herjað á okkur frá því í nóvember eru Abigail, Barney, Clough, Desmond, Eva, Frank og Gertrude en næsta lægð hefur fengið nafnið Henry og hún mun ganga yfir á mánudag.

Hér má sjá brimið ganga yfir Bay of Skaill en klettarnir þar eru á annan tug metra háir:

Bay of Skailll (Large)

 

 

 

 

 

 

 

Svo má sjá hér hvar brimið sem Geirþrúður olli hefur sópað grjóti upp á götu:

DSC_0187 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Og að lokum má sjá myndband af flugvél koma inn til lendingar í gær með því að smella hér.


Nú árið er liðið

Héðan er allt ágætt að frétta en nú er liðið rúmt ár síðan ég settist að hér á eyjaklasanum norðan Skotlands.  Þegar horft er til baka skiptist þetta ár algerlega í tvennt, tímabilið þegar ég var einn og tímabilið þegar fjölskyldan var öll hér en ekki er hægt að segja að eitthvað eitt standi upp úr.  Það sem hefur þó verið öðruvísi og maður á eftir að sakna þegar til Íslands verður snúið eru lágir skattar og lágt matvöruverð.  Skattar á laun eru 20% hér og því bölvar maður ekki hinu opinbera í hvert sinn sem maður fær útborgað, heldur sér maður tilgang með brauðstritinu.  Hið lága matvöruverð hér orsakast líka að miklu leiti af lægri skattlagningu en enginn virðisaukaskattur er á matvælum hér í landi hennar hátignar Elísabetar annarar.  Barnaföt eru líka undanþegin virðisaukaskatti.  Almennt er virðisaukaskattprósentan 20% en þó eru örfáar undantekningar á því sbr. matvöru og barnaföt og þar við bætist að virðisaukaskattur á raforku er 5%.  Auðvitað er ekki allt rósum stráð og ég á ekki eftir að sakna matarins, nema jú beikonsins og indverska matarins.  Og ekki má gleyma að hér er boðið upp á hluti eins og Orkney fudge, shortbread og Marmite og fólki hérna finnst þetta meira að segja gott, hversu klikkað er það?


Veitingastaðirnir

....og talandi um veitingastaði.  Hér í Kirkjuvogi eru einhverra hluta vegna engar skyndibitakeðjur á borð við KFC, Dominos, Subway, Pizza Hut og MacDonalds og ekki eitt einasta kókakóla eða pepsi skilti sést hér en hér þó nokkrir veitingastaðir sem allir virðast vera í eigu heimamanna. Þetta finnst mér til fyrirmyndar og gefur bænum ákveðinn sjarma sem ekki væri til staðar ef þessi bandarísku vörumerki væru blikkandi út um allan bæ.  Og úrvalið er fínt.  Tveir indverskir veitingastaðir eru hér.  Annar er við göngugötuna í litlu húsnæði með mörgum borðum þannig að það er frekar þröngt þar inni, maður á það til að reka olnbogana í bringuna á manneskunni við næsta borð þegar  maður er í óða önn að skófla upp í sig og þegar sest er til borðs þarf maður helst að krækja hnjánum aftur fyrir eyrun til þess að komast fyrir.  Það er ágætt að fara þangað einn af því að vegna þrengslanna er það eins og að fara út að borða með fullt af ókunnugu fólki. Og maturinn þar er góður.  Hinn indverski staðurinn er líka fínn en hann er staðsettur í sama húsnæði og gæludýraverslun sem er eflaust mjög hentugt fyrir matreiðslumennina þar.  Tveir kínverskir staðir eru hér ég hef bara prófað annan þeirra sem er mjög fínn, hinn er í húsi á annarri hæð við göngugötuna en maður þarf að fara bakvið húsið og upp gamlan hrörlegan tréstiga til að komast inn.  Ég á eftir að prófa hann.   Einn látlaus ítalskur staður er hér og sá er einn vinsælasti staðurinn hér.  Nokkrir takeaway staðir eru hér.  Einn er í bílskúr stutt frá okkur og þar er hægt að fá kínverska rétti og Fish´n´chips, annar heitir Happy Haddock og þeirra aðalsmerki er Fish´n´chips.  Fyrir nokkrum mánuðum var einn í viðbót sem hét Chicken George en einhverra hluta vegna var þessi kjúklingastaður með bleikt svín merki staðarins.  Af hverju veit ég ekki, getur verið að þeir hafi ekki vitað muninn á kjúkling og svíni?  Allavega hættu þeir rekstrinum fyrir nokkru vegna þess að einn úr fjölskyldunni dó, kannski vegna þess að hann borðaði á þessum veitingastað.  Svo eru nokkrir pöbbar með hefðbundinn pöbbamat, hótel með fínni mat sem reyndar er ekki svo fínn matur, ef maður pantar sér eitthvað þar fær maður alltaf grænar baunir og brúna sósu með en getur valið um franskar eða kartöflumús.

Það er ekki alltaf auðvelt fyrir okkur að velja veitingastað til þess að fara á, Íris er alltaf til í að fara á látlausan ítalskan stað en ég er alltaf til í að fara á Indverskan stað þar sem þjónninn er af indverskum uppruna og talar með indverskum hreim og réttir manni matseðillinn sem er ekki plastaður, heldur í lítilli möppu með gylltum spottum hangandi niður úr kilinum, og maður getur auðveldlega áttað sig á hvað maður er að fara að panta eða þá að maður hefur val um að fá sér af hlaðborðinu og borðin eru með rauðum dúkum með kögri og á þeim er eitt kerti en annars kemur birtan frá lömpum á veggjunum og einhversstaðar í bakgrunni heyrist indversk tónlist og maður getur fengið sæti við gluggann og ef maður nennir ekki að horfa á fakírinn með flautuna spila snákinn upp úr körfunni getur útsýnið yfir miðbæinn allavega stytt manni stundir meðan maður bíður eftir matnum sem er samt ekki langur tími. Einhvernveginn finnst mér að ég fái aldrei að ráða, ég skil það ekki.


Bráðum verð ég eitthvað númer

Það bar helst til tíðinda í vikunni að Ívar Orri átti afmæli í gær og þar sem hann á enga vini hér í þessu landi reyndum við fjölskyldan að gera gott úr deginum. Hann fékk köku, afmælissöngurinn var sunginn, svo opnaði hann afmælispakkanam og horfði svo á einhverja mynd.  En ef hann væri í heimalandinu sínu með vinum sínum hefði dagurinn verið einmitt þannig.  Að því loknu fórum við svo á veitinastað að nafni Busters en það er veitingastaður hér í Kirkjuvogi með Amerísku ívafi og samkvæmt Tripadvisor er hann í 25. sæti á lista yfir 30 bestu veitingastaði í Kirkjuvogi.  Það segir nú eitthvað um gæðin.  Þetta gekk nú stórslysalaust fyrir sig en það sem mér fannst athyglisverðast var að inn á staðinn komu þrír gotharar og settust við borð stutt frá okkur.  Maður hefði búist við að þeir hefðu pantað sér eitthvað gotharalegt, eins og Bloody Mary eða eitthvað sem tengist myrkraöflunum.  Þeir komu hins vegar á óvart og pöntuðu sér heitt súkkulaði með sykurpúðum og rjóma.  Ég verð nú að segja eins og er að gotharabragurinn rýrnaði nú heldur við þessa pöntun. 

Í dag fór ég svo í viðtal til þess að fá NI númer en það er svona nokkurs konar kennitala sem maður þarf að hafa hér til þess að eiga rétt á lífeyrissjóðsgreiðslum og bótum, eitthvað sem ég hef engan áhuga á, en vinnuveitandi minn fór fram á að ég fengi NI númer.  Ég átti reyndar að mæta á þriðjudag en komst ekki vegna vinnu.  Á bréfinu sem ég fékk var símanúmer sem ég átti að hringja í ef ég vildi breyta og ég hringdi í það númer, þar var sjálfvirkur símsvari þar sem mér var bent á að hringja í annað númer.  Ég hringdi því í það og þar var sjálfvirkur símsvari þar sem mér var bent á að hringja í númerið sem ég hringdi fyrst í.  Ég hrindgi því nokkrum sinnum í þessi tvö númer en gafst upp að lokum.  Mér tókst að grafa upp númer hér í Kirkjuvogi til að hringja í en eftir tuttugu mínútna bið, hlustandi á Árstíðirnar eftir Vivaldi, gafst ég upp.  Þetta er næstum því jafn slæm símaþjónusta og hjá Símanum hf. En fólkið hjá því fyrirtæki hatar mig.  Af hverju veit ég ekki, ég hef ekkert gert þeim.  Allavega er símsörunarþjónusta þeirra afleit og til þess gerð að eyða dýrmætum tíma fólks en þegar ég hringi í fyrirtæki sem er skýrt í höfuðið á apparatinu sem er notað til þess að hringja úr og ekki síður SVARA, þá svarar það ekki fyrr en mörgum mínútum síðar.   Vélræn rödd segir manni númer hvað maður er í röðinni og svo bíður maður og bíður eftir að einhver svari.  En það eru greinilega fleiri en þau hjá Símanum sem hata mann.  Allavega, það varð úr að ég rölti niður á skrifstofuna, sem sér um NI númeraúthlutun og fleria, á mánudaginn og fékk tímanum breytt og fór því í dag og fyllti út einhver gögn og svaraði spurningum varðandi dvöl mína hér.  Konan sem tók á móti mér spurði mig fyrst um nafn og síða hvort ég hefði gengið undir einhverju öðru nafni.  Ég svaraði að bragði “Sjakalinn”. Nei ég gerði það ekki, hugsaði það bara. Svo gekk þetta allt hnökralaust fyrir sig þangað til hún komst að því að ég hefði verið giftur áður og skilið.  Þá fylltist hún áhuga of fór að spyrja allskonar spurninga sem ég gat ekki með nokkru móti svarað, eins og hvenær ég gifti mig, hvenæar ég skildi, tíu uppáhalds bíómyndirnar mínar, uppáhalds veitingastað og þar fram eftir götunum.  Allt gekk þetta nú að lokum og væntanlega kemur þetta blessaða NI númer til mín innan skamms.

 


Veðrið viðsjárverða

Veðrið hér á Orkneyjum er búið að vera hundleiðinlegt síðustu þrjár vikur, suðaustan rok nánast upp á hvern einasta dag en þó keyrði um þverbak um helgina þegar eignatjón varð, samgöngur fóru úr skorðum og loka varð vegum vegna roks og vatnselgs.

Ferjan sem gengur út í Háey og Flatey hefur nú verið kyrrsett vegna skemmda sem hún varð fyrir á sunnudag.

Vatnslaust hefur verið í Sandey síðan í gærmorgun vegna þess að rokið tætti upp drullu og gróður úr vatni sem sér Sandeyingum fyrir ferskvatni og síur og dælubúnaður hafa orðið fyrir skemmdum.

Á Hrólfsey og Strjónsey eru ennþá rafmagnstruflanir vegna veðursins

Bátar í höfninni í Straumnesi urðu fyrir skemmdum.

Bryggjan á Eiðey stórskemmdist og því hafa engar ferjusiglingar verið þangað en væntanlega fá fótgangandi farþegar að sigla með ferjunni eftir morgundaginn en ekki verður hægt að flytja bifreiðar fyrst um sinn.

Þá er flugvöllurinn á Eiðey er búinn að vera ónothæfur vegna þess að hann er á kafi í vatni og því hafa Eiðeyingar ekki notið annars ágætra almenningssamgangna, sem er óheppilegt af því að flestir sem ég þekki vilja komast burt frá Eiðey ef þeir á annað borð lenda þar. Það er líka gaman að nefna það að flugvöllurinn þar heitir London airport og þegar starf flugvallarstjóra á London airport var auglýst laust hrúguðust inn á annaðhundrað umsóknir, fleiri en íbúar eyjarinnar, en allar voru þær dregnar til baka þegar umsækjendur áttuðu sig á því að um var að ræða flugvöll (eða öllu heldur litla flugbraut) á afskekktri eyju norður í rassgati.  Þá er líka gaman að nefna það að áfengissöluleyfi einu verslunarinnar þar rann út í haust og það gleymdist að sækja um nýtt leyfi þannig að Eiðeyingar hafa ekki getað keypt sér áfengi í heimabyggð í nokkrar vikur sem er sennilega sérstaklega slæmt ef maður býr á Eiðey og þegar veðrið er eins og það er búið að vera.  Eiðey gegnir eiginlega því hlutverki hér á Orkneyjum að láta aðrar eyjar á Orkneyjum líta vel út.  SSF er með eina eldisstöð við Eiðey og nú er verið að stækka hana og bæta við starfsfólki.  Stöðvarstjóranum hefur ekki gengið vel að fá fólk til starfa þar en þó er hann búinn að safna að sér hóp af undarlegu fólki, m.a. fallhlífarstökkshermann sem fékk þjálfun í Ísrael, það verður forvitnilegt að fylgjast með þessu liði.  En nóg um Eiðey.

Á stöðinni okkar urðu einhverjar skemmdir í veðrinu sem gekk yfir um helgina, tvær kvíar brotnuðu og því verðum við að færa til fisk í vikunni til þess að hægt verði að taka kvíarnar burt og gera við þær, svo var aðkoman í fóðurprammanum okkar svona í morgun þegar við mættum til vinnu:

20160111_095603 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Við gerðum tilraun á laugardag til þess að gera eitthvað en það var lítið hægt að gera stundum er þetta svona:

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband