Færsluflokkur: Bloggar
24.8.2011 | 11:42
Hlaupið
Ég ákvað um daginn að taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni og skráði mig í hálft maraþon. Ég vissi að ég myndi komast þessa vegalengd, 21,1 km, og setti mér það markmið að vera undir tveimur tímum að hlaupa það. Ég hef hlaupið öðru hvoru án þess að hafa eitthvað sérstakt prógramm en hleyp mér aðallega til skemmtunar og heilsubótar en svona hlaup virka á mig eins og líkamlegt og ekki síður andlegt Detox. Þegar ég var lagstur upp í rúm kvöldið fyrir hlaup hafði ég smá áhyggjur af því að ég myndi sofa lítið um nóttina og vera þarafleiðandi illa upp lagður í hlaupinu þar sem ég deildi tveggja manna rúmi með tveimur sonum mínum, og það í Kópavogi. Út frá þessum hugsunum sofnaði ég og svaf eins og ungabarn og vaknaði við vekjaraklukkuna kl 6:30 en þá var réttur tími fyrir mig til að snæða morgunmat. Hafragrautur með rúsínum og kanilsykri og banana áttu að veita mér næga orku til þess að komast í gegnum megnið af hlaupinu. Upp úr átta var svo tímabært að skunda af stað niðrí bæ. Veðrið var eins og best verður á kosið til hlaups, logn, bjart og temmilega heitt. Ég lagði bílnum í hæfilegri fjarlægð og notaði tækifærið og hitaði aðeins upp með því að skokka og hlaupa til skiptis niður í Lækjargötu. Eftir því sem nær dró varð stemmingin meira og meira áþreifanleg, blanda af tilhlökkun og spennu.
Svo kom að því að hlaupið var ræst, öll strollan leið af stað meðfram tjörninni og allstaðar var fólk að hveta hlauparana til dáða við upphaf hlaupsins, þetta fyllti mann kappi og gleði enda sást gleðin í andlitum allra keppenda sem flestir voru brosandi. Svo var hlaupið áfram og þegar beygt var inn á Lynghaga voru allir íbúar götunnar held ég komnir út á gangstétt með potta pönnur flautur, básúnur og sekkjapípur til að hvetja, sumir í náttsloppunum, og enn fylltist maður orku við hvatninguna. Ókei það voru kannski ekki básúnur og sekkjapípur en hitt var allt og kannski meira til. Á Ægissíðunni var blásarahljómsveit að spila og þegar ég hljóp framhjá hljómaði Gonna fly now úr Rocky. Verulega hvetjandi. Var ég búinn að segja að veðrið var frábært? Ég hafði ákveðið að sleppa fyrstu drykkjarstöðinni sem var eftir þrjá eða fjóra kílómetra en tók þá næstu sem var eftir sjö km. Á Seltjarnarnesinu var önnur hljómsveit að spila en sú hljómsveit spilaði blús sem mér fannst ákaflega viðeigandi þar sem sumir voru að byrja að þreytast á þessum kafla. Áfram var hlaupið og þegar út á Sæbraut var komið var búið að leggja 10 km að baki en ég var þar á 54 mínútum, þannig að plottið um að vera undir tveimur tímum stóðst ennþá fyllilega. Skömmu síðar mætti ég fyrsta hlauparanum sem var að koma til baka og var að klára, hann hljóp þetta stóstígur og hraðskreiður eins og gæðingur í slaktaumatölti og síðar frétti ég að hann hefði sett íslandsmeti í hálfu maraþoni, þannig að þetta hlaup er komið á spjöld sögunnar. Já og veðrið var gott. Áfram var haldið og smátt og smátt fór þreytan að segja meira til sín en eftir rúma tuttugu kílómetra beygði ég inn í Lækjargötu og hljómsveitin spilaði og söng Go Johnny go go og það var það dásamleg tilfinning að sjá mannfjöldann æpa og öskra þegar síðustu metrarnir voru lagðir að baki og hlaupið yfir marklínuna. Tíminn 1:58 þannig að ég náði markmiðinu. Þetta var ógleymanlegur atburður og svo sannarlega verður stefnt á að fara í Reykjavíkurmaraþon að ári.
Restinni af deginum var svo að mestu varið í að fylgjast með menningarviðburðum í miðbænum og að sjálfsögðu var farið á útitónleika um kvöldið þar sem Mugison gerði góða hluti og líka Of monsters and man en þau eru að fara að gefa út disk í september sem ég held ég verði bara að kaupa mér. Já og veðrið, það var fínt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.8.2011 | 20:33
Er netið bara bóla?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.8.2011 | 23:44
Sumarfrí
Fyrri sjö dagana vorum við í Bongó Blíðu í Bústað í BláskógaByggð í Biskupstungum. Þar áttum við góðar stundir með vinum og vandamönnum auk þess sem við skoðuðum Mekka garðyrkju á Íslandi, Flúðir, Reykholt og Laugaás.
Seinni vikuna vorum við á Blönduósi og náðum að skoða okkur um auk þess að dveljast hjá frændfólki á Kolþernumýri, sem er ekki langt frá hinum glæsilega Hvítserk.
Á Blönduósi er besta sundlaug á Íslandi (hef reyndar ekki skoðað sundlaugina okkar á Álftanesi). Þar er líka hafíssetur en lítið merkilegt var þar að sjá nema uppstoppaður ísbjörn í fullri stærð.
Einn daginn fórum við á Hvammstanga en þangað hafði ég aldrei komið. Hvammstangi er snyrtilegur bær en við gerðum ekki annað þar en að fara í Kaupfélagið og fá okkur hádegismat á veitingastaðnum Vertinum. Vertinn er veitingastaður og þar fæst ódýr og góður matur. Staðurinn ber þess merki að hann fari á hausinn eða allavega skipti um eigendur á svona tveggja vikna fresti en þegar við vorum þar var staðurinn merktur í bak og fyrir sem Síróp. Innan dyra voru innréttingar úr sitthverri áttinni úr ýmsum trjátegundum, ljósum og dökkum og að minnsta kosti tveimur málmtegundum líka auk þess sem matsalurinn var skreyttur með einni risastórri mynd af umferðargötu í amerískri stórborg. Allt úr sitt hverri áttinni, eins og reyndar gestirnir sem voru þar. Kokkurinn var líka greinilega með reynslu, það sá maður þegar hann fór út að reykja en hann var grannur, gráhærður, með bauga undir augunum, húðflúr á framhandleggjum í kokkaskyrtu, smáköflóttum buxum og crocs skóm. Kannski búinn að vera kokkur á einhverjum bát í þrjátíu ár eða svo. Enda var maturinn afbragðs góður, ég gæti vel hugsað mér að fara þangað aftur þó ekki væri nema til þess að fá tilbreytingu frá N1 sjoppunum.
Annan daginn kíktum við á Skagaströnd en þangað hafði ég heldur ekki komið. Við heimsóttum þar spákonuhofið og að sjálfsögðu er ekki hægt að yfirgefa Skagaströnd án þess að heimsækja Kántríbæ. Þar var að sjálfsögðu snæddur ljúffengur amerískur kántríhamborgari við undirleik kántrýtónlistar sem sjálfur Hallbjörn kynnti í útvarpi Kántrýbæ.
Í Kántrýbæ er líka saga kántrýstjörnunnar Hallbjörns rakin af nákvæmni og það er alveg þess virði að eyða smá tíma í það. Ég sá samt hvergi sýningu um hljómsveitina Jójó, kannski verður hún komin næst þegar ég kíki á Skagaströnd Frá heimkynnum Hallbjörns var brunað yfir í heimkynni annars íslensks tónlistarkóngs, Geirmundar á Sauðárkróki og farið í Kaupfélag Skagfirðinga, sem er ábyggilega besta búð á Íslandi af því að þar fæst allt. Á heimleiðinni var svo komið við í Glaumbæ sem er torfbær með allskonar dótaríi sem var notaður til sveita á Íslandi fyrir daga iðnbyltingarinnar.
Þar er líka skemmtilegt kaffihús þar sem þernurnar þjóna til borðs í alíslenskum búningi (ekki skrautbúningi samt) og þar fær maður kaffið framreitt í gamaldags sparistelli með blómamynstri og meðlætið sem boðið er upp á er alíslenskt, pönnukökur, kleinur, flatbrauð með hangikjöti, randalínur og fleira í þeim dúr. Jömmers.
Svo er spurning hvort maður muni upplifa "Social jet lag" þegar maður mætir aftur til vinnu eftir frí, grútsyfjaður fyrstu dagana og ekki tilbúinn til að detta aftur inní vinnurútínuna svona eins og gerist stundum eftir jólin. Framundan eru semsagt hefðbundnir vinnudagar en eflaust förum við í stöku daycation á næstu vikum þegar veður og aðstæður leyfa.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.7.2011 | 15:30
Sund
Eftir að litla útisundlaugin kom á Djúpavogi minnir mig að ég hafi farið tvisvar eða þrisvar á sundnámskeið en þau voru alltaf í eina eða tvær vikur á vorin þegar skólinn var búinn. Þá var líka hitinn á vatninu í lauginni, yfirleitt í kring um 17°C sem þætti nú kannski í kaldara lagi í dag.
Fyrir stuttu fór ég í sund á Egilsstöðum en þegar ég kom úr sturtu var búið að taka handklæðið mitt. Ég þurfti því að nota einhverja hárþurrku til að þurrka mér. Þegar ég kom fram sá ég einhvern gaur sem hafði verið í sundi ég sneri mér að honum og spurði hann hvort að hann væri með handklæðið mitt? Og jú, hann var með það, þá sagði ég "ja ég var nú búinn að nota það til að þurrka mér um punginn og rassgatið en ég held að það hafi ekki verið neinar brúnar rendur á því". Þá fór hann án þess að segja orð en skildi handklæðið eftir.
Ég hef samt yfirleitt ekki nennt að synda mikið, þykir ágætt, ja reyndar mjög ljúft, að skella mér öðru hvoru í heita pottinn, sérstaklega ef maður hefur verið að puða eitthvað en ég ætla samt að vera duglegur að æfa mig aðeins á skriðsundinu. Sund er víst líka hollt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.6.2011 | 08:34
Lánsemi
Svo eru það íþróttirnar. Ég er lánsamur að vera við góða heilsu þannig að ég hef getað stundað hlaup þó að maður vildi gefa því meiri tíma. Á laugardaginn fór ég í skógarhlaup á skógardeginum mikla í Hallormstað þar sem hlaupnir voru 14 km um skógarstíga. Nokkuð erfitt hlaup að því leyti að stígurinn liggur um hæðótt landslag þannig að í bröttustu brekkunum var maður við það að æla lungunum. Vonandi fær maður tækifæri til að taka þátt í fleiri almenningshlaupum í sumar. Svo hef ég náð að spila tvo leiki með HrafnkellskástrikNeisti í launaflsbikarnum en það er fátt sem jafnast á við að hlaupa um grænar grundir og elta bolta.
Ég er líka lánsamur að eiga góða fjölskyldu sem styður mig í þessum áhugamálum mínum. Það er samt frekar óheppilegt fyrir mig að sólarhringurinn skuli ekki vera aðeins lengri til þess að geta gefið þessu öllu örlítið meiri tíma, það er að segja tónlistinni, íþróttunum og fjölskyldunni, þannig að ég er ólánsamur hvað það varðar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
19.6.2011 | 18:47
Tölva og 17. júní
Sautjándi júní var víst óvenju líflegur hér í bæ og ánægjulegt að sjá að einhver nenni að endurvekja sautjánda júní stemminguna. Hverfin voru skreytt í mismunandi litum og svo var keppni á milli hverfa. Einhverra hluta vegna vann gula hverfið en það skil ég ekki þar sem mér fannst appelsínugula hverfið bera af. Það hljóta að hafa verið brögð í tafli og þetta er geymt en ekki gleymt. Ég mun ekki óska þeim til hamingju sem sigra með svindli og það er ekki hægt að samgleðjast þeim sem vinna með svoleiðis bellibrögðum. Ég reyndar missti af þessu öllu saman þar sem ég var staddur á Reyðarfirði að skemmta Fjarðbyggðingum með söng og gleði.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.6.2011 | 10:20
Sjómannadagur
Í tilefni helgarinnar er afar viðeigandi að setja inn eitt sjómannadagsblogg. Ég missi af hátíðahöldum hér í bæ þar sem ég þarf að bregða mér út á land eða alla leið til höfuðborgarinnar þar sem ég hef eytt sjómannadagshelginni síðustu þrjú ár. Hér verður þetta með hefðbundnu sniði, messa, sigling og kaffi. Á árum áður voru sjómannadagsböll stór þáttur í hátíðahöldunum en þau voru á laugardegi á sunnudögum var svo algengt að menn væru ekki búnir með ballið og gengu brosmildir og reikulir í spori um bæinn og tóku þátt í skemmtuninni.
Þegar ég var sextán, þá var sjómannadagsball í Neista einhver hljómsveit austan af fjörðum og í þessu agnarlitla samkomuhúsi voru um hundrað manns, mikill hiti bæði ástarhiti og blóðhiti sem náttúrulega endaði með slagsmálum og einhverjir ultu ofan í fjöru, bæði til að slást og elskast ég er samt ekki viss hvort fólk gerði hvort tveggja í einu. Svo var einhvern tímann sjómannadagsball í slökkvistöðinni þar sem við heimamenn voru að spila, sennilega Þörungarnir, en þá birtust þrjár fullar rútur frá Hornafirði og slökkvistöðin yfirfylltist af fólki. Þá var nú góð stemming sem auðvitað var toppuð með því að einhverjir Álftfirðingar fóru að rífa skyrtur utan af mönnum og æsa þá upp.
Á þessum árum var togari og einhverjir fleiri bátar hér og allir sjómenn bæjarins saman komnir í þorpinu á sama tíma. Nú eru engir stórir bátar, sjómenn með pláss á hinum og þessum bátum auk einyrkja á trillum og stemmingin hefur breyst, böllin eru hætt að ganga og skemmtidagskráin hefur dregist saman. Menn eru líka hættir að sjást röltandi um bæinn með flöskuna í hendinni. Nú mæta menn í messu.
Í dag standa sjómenn í þeim sporum að halda upp á sjómannadaginn 2011 í skugga mikillar óvissu og þeir hljóta að spyrja sjálfa sig, skyldi ég hafa vinnu næsta sjómannadag? Verður fyrirtækið sem ég vinn hjá ennþá starfandi? Vissulega verða áfram sjómenn á Íslandi en hverjir, hvar og hvernig? Óvissa er ekki góð. Ég held að stjórnendur Íslands sjái ekki heildarmyndina, heldur eltist við óánægjuraddir minnihlutans og geri svo breytingar sem verða engum til góðs. Allavega hafa þessi svokallaða stjórn ekki gert mikið til góðs og svo sem engin sérstök ástæða til að ætla að þeir fari að taka upp á því núna.
Til hamingju með daginn sjómenn.
Hér er svo lag í tilefni dagsins (tekur kannski smá tíma að opnast).
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.5.2011 | 09:20
The Kills
Já og svo er hér tóndæmi:
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.5.2011 | 00:15
Sunnudagsbíltúr
Það er ekki á hverjum sunnudegi sem hægt er að fara smá rúnt til þess að kíkja á eldgos en það var hægt í dag. Sunnudagssteikin var því ekki elduð, heldur var sest upp í bíl með myndavélar að vopni og smá kaffilögg í brúsa og stefnan tekin á Fagurhólsmýri. Á Almannaskarði var stanzað til þess að kíkja suður með Vatnajökli en þaðan mátti sjá upp af jöklinum gráfjólubláan himin sem var ekki gráfjólublár himinn, heldur gráfjólublátt öskuský. Þá varð það ljóst að við myndum ekki sjá tignarlegan hvítan skýstrók stíga upp af Grímsvötnum, heldur yrði mökkurinn eitthvað dreifðari. Áfram var haldið og í suðursveit fór að bera á að aska þyrlaðist upp af malbikinu og þegar komið var vestur fyrir Kálfafell, (sem er rétt hjá Hrollaugsstöðum, þar sem einu sinni voru oft haldin böll og þar er skóli og íþróttavöllur og eitthvað fleira dótarí) þá fóru að sjást fjöldinn allur af litlum skýstrókum, eða öskuskýstrókum, og þar sem það er ekki á hverjum sunnudegi sem hægt er að sjá skýstróka læv, þá var ákveðið að stansa og horfa á þá dansa um aurana í kringum Steinavötn.
Eftir þetta fór öskumistrið að verða þéttara. Á Jökulsárlóni voru jakarnir svartir og dökkt ský var yfir jöklinum og hluta af lóninu.
Áfram var haldið og á Fagurhólsmýri var skyggnið farið að minnka. Þegar stigið var út úr bifreiðinni fór mann strax að svíða í augu og háls út af öskunni. Við vorum búin að ákveða að fara ekki lengra og því var haldið heim á leið, það var gaman að fá nasasjón af þessu en í Hamarsfirði mátti sjá í öskuskýið inn af Hamarsdalnum og miðað við veðurspá má allt eins reikna með að skýið gægist eitthvað til okkar í vikunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.5.2011 | 22:09
Hammond
Þá er Hammond hátíðinni lokið. Af þeim sex hátíðum sem haldnar hafa verið var þessi að mínu mati sú skemmtilegasta af ýmsum orsökum. Á fimmtudagskvöld spiluðum við heimadrengirnir okkar prógramm sem innihélt að þessu sinni eingöngu David Bowie lög. Persónulega fannst mér þetta prógramm það skemmtilegasta sem við höfufum verið með á Hammond hátíð en fólk hefur verið ófeimið við að klappa manni á bakið eftir tónleikana og jafnvel stoppa mann út á götu til að gefa hrós.
Föstudagskvöldið var fremur hefðbundið Hammondhátíðarblúsföstudagskvöld, frábærir flytjendur en blessaður blúsinn er ekki minn melrósestebolli. Ég er orðinn leiður eftir eitt lag og athyglisbresturinn veldur því að hugurinn hvarflar út af hótelinu og flýgur á brott til hinna ýmsu staða, en öðru hvoru lendir hann aftur inn á Framtíðinni þegar snillingarnir á sviðinu gera eitthvað eftirtektarvert. Reyndar yljuðu smellir eins og Green onions og Sleep walk manni um nýrnahetturnar. Hann getur spilað á Hammondið litla kvikindið" varð Páli Rózinkranzz að orði, en ungur Hammondleikari,Tómas Jónsson, sýndi ótrúlega fingrafimi sýna á orgelinu. Auðvitað lék Gummi pje á gítarinn eins og hann væri ekki af þessum heimi og svo voru Jói Hjöllll trommari og Róbert bassaleikari eins og einn maður, svo samstilltir voru þeir í taktvissu sinni.
Laugardagurinn var svo sérstaklega skemmtilegur. Hinir ærslafullu Baggalútar hituðu upp fyrir tónleikana með því að lýsa Eurovision kepninni á sinn einstaka hátt, með því að bulla út í eitt um lög, flytjendur og lönd. Sennilega hefur það verið kostur að þekkja flest lögin og textana sem þeir fluttu og það hefur eflaust gert það að verkum að mér fannst þetta laugardagskvöld það skemmtilegasta af öllum þeim laugardagskvöldum á Hammond hátíð sem ég hef verið á.
Tónleikarnir í kirkjunni á sunnudag voru svo vel til þess fallnir að enda hátíðina. Jósep Kiss hóf dagskrána með því að þenja sína miklu tenór rödd þannig að vegna titrings í kirkjubyggingunni sem fylgdi háu séunum hafði maður á tímabili smá áhyggjur af stóru glerrúðunum í kirkjunni, eitthvað kosta þær nú og ekki er sóknarnefndin neitt forrík. Svo tóku Ellen og Eyþór við en Ellen og Jósep eru álíka ólíkir söngvarar og ljón og skógarþröstur. Þægileg rödd Ellenar og spilamennska Eyþórs urðu þess valdandi að manni leið vel á þessum tónleikum, þetta var svona pínu kósí, enda flytjendurnir í meiri nálægð við áheyrendur en á sviðinu á Hótelinu.
Það hafa sem sagt allir átt að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, popp, rokk, jazz, blús, kántrý, klassík og rólegheit. Nú er bara að byrja að láta sig hlakka til næstu hátíðar.
Hér er svo smá sýnishorn frá fimmtudeginum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.5.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 5
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 5
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar