Færsluflokkur: Bloggar
14.5.2011 | 00:10
Rattle your jewelery
Þegar maður les um opnunarhátíðina á hinu glæsilega Tónlistar og ráðstefnuhúsi "allra landsmanna" (hmm?) komi upp í hugann orð John Lennon:
For our last number, I'd like to ask your help. Would the people in the cheaper seats clap your hands. And the rest of you, if you'll, just rattle your jewelry.
![]() |
Harpa tekin formlega í notkun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.5.2011 | 19:39
Tónleikar
Annars verða spennandi tónleikar í boði á árinu. Eistnaflug sem verður dagana 7. - 9. Júlí verður án efa skemmtileg, kannski skemmtilegasta íslenska tónleikahátíðin á árinu, ekki síst fyrir þær sakir að þar verða m.a. SH Draumur, Ham, Dr Spock, Agent Fresco og Mammút. Ég hef ekki séð neina þeirra læf en mig hefur lengi langað að sjá SH Draum og svo ku Ham og Dr Spock vera stórkostlegar á sviði.
Svo hefur það nú alltaf verið í bígerð að fara á Iceland airwaves, hvort sem það tekst í þetta skipti eða ekki. Það væri verulega skemmtilegt þó ekki væri nema til að sjá Beach House, John Grant og Vaccines auk margra íslenskra hljómsveita. John Grant sendi frá sér Queen of Denmark fyrir ekki svo löngu síðan og hún er alveg mögnuð. Svo eru Vaccines taldir ein mest spennandi hljómsveitin í Bretlandi og ekki skemmir fyrir að bassaleikarinn er íslenskur.
Ekki fer maður á Eagles 09.06. og varla að sjá Cindy Lauper 12.06. eða Elvis Costello 12.11. þó að það væri án afskaplega hressandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.4.2011 | 08:38
Súla.
Farfuglarnir hafa streymt að, og syngja inn vorið og söngur þeirra hefur vakið mig á nóttunni og greinilega hefur hann vakið fleiri en mig af því að gróður, tré og runnar virðast líka hafa vaknað við þetta af vetrardvala sínum og eru farin að taka á sig grænan lit auk þess sem stöku fíflar eru farnir að skjóta upp kollinum. Fátt er nú sumarlegra en fíflar.
Í gær eftir hádegið var Súla að svamla í höfninni, tveimur tímum seinna lá hún steindauð við hafnarkantinn. Ég kom ekkert nálægt því en ég tók hana og stakk henni oní frystikistu saman við brauð en þegar ég ætlaði að loka, hún hreyfði sig hún var víst ekki alveg dauð ég ákvað þarna aðeins að doka. Nei ,jú, hún var alveg dauð og hver veit nema að hún verði þess heiðurs aðnjótandi að verða stoppuð upp og fái heiðurssess meðal sjófugla á fuglasafninu. Annars er magnað að sjá Súlur í sínu náttúrulega umhverfi þegar þær stinga sér í tugatali úr 30 - 40 metra hæð, þæg gera sig ufsilon laga þar sem goggurinn er neðstur og svo hverfa þær ofan í sjóinn á gríðarlegum hraða eins og örvaregn, til að ná sér í æti. Súlan er tignarlegur fugl enda er hún stærsti sjófuglinn, 90 - 110 cm löng og vænghafið er 170 - 180 cm. Því miður var ég ekki með myndavélina við hendina þannig að ég set ekki inn mynd af Súlu, þið verðið bara að gúggla, leitarorðin eru Súla, Gannet eða Morus bassanus. Set samt inn mynd af Stöng. Stöng eða Súla skiptir það máli?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.4.2011 | 09:43
Mars
Í vinnunni hefur undirbúningur fyrir flutning á fiskinum milli kvía tekið mestan tímann en nú teljum við og böðum fiskinn árlega og mars - apríl er hentugasti tíminn fyrir það af því að þá er sjávarhiti er í lágmarki.
Á menningarsviðinu hefur Karlakórinn okkar verið með vikulegar æfingar og vonandi getum við sýnt smá afrakstur af því í lok starfsársins. Það er annars gaman að sjá hvað náðst hefur að virkja menn til söngs en yfirleitt eru 14 - 16 manns á æfingum og það þykir mér nokkuð gott. Svo er það sérstaklega ánægjulegt að uppistaðan í kórnum eru menn sem hafa lítið eða ekkert fengist við söng og aldrei hafa heyrst syngja, ekki einu sinni í fjöldasöng á þorrablóti. Undirbúningur fyrir Hammond er líka farinn í gang og þar tekur Dallas group inc þátt að venju en að þessu sinni er ég óvenju ánægður með væntanlegt prógramm hópsins en hvað það verður kemur í ljós 14. maí.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.3.2011 | 18:44
Og svo kom Ferguson
Það að ráðast persónulega gegn Atkinson gat auðvitað ekki endað öðruvísi en með því að Ferguson gamli lenti í vandræðum. Ferguson kannast svo sem við þetta en hann fékk tveggja leikja bann árið 2009 eftir að hafa gagnrýnt líkamsástand Alan Wiley. Ef hann fer í bann núna munu liðið hans, já og dómararnir(hans?), ekki fá að njóta krafta rauðnefs í síða frakkanum með tyggjóið á Reebok leikvanginum og svo á Old Trafford. Síðast þegar hann var í banni gekk liðinu reyndar vel og hann mun auðvitað vonast til að svo verði einnig nú, þrátt fyrir að undir yfirborðinu búi sú tilfinning að liðið hans sé ekki nægilega gott til að fara alla leið í titilbaráttunni. Ef hann nær að fela það fyrir andstæðingunum með því að beina athyglinni að öðru, þá er honum sennilega sama þó hann fái smá bann. En, er kannski tími Arsenal kominn? Eða er Ferguson bara "bad loser"?
![]() |
Ferguson kærður fyrir ummælin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
28.2.2011 | 22:35
Mottumars
Þá er hinn yndislegi mottumars hafinn og nú brennur þessi spurning á mér, á ég að safna mottu eður ei? Í æsku, þegar ég var svona 10 ára, fannst mér það verulega töffaralegt að vera með möstasj og ætlaði svo sannarlega að vera með svoleiðis skraut þegar ég yrði eldri. Þá voru fyrirmyndirnar t.d. ofurtöffararnir í hljómsveitinni Dr Hook og svo einhverjir fótboltamenn eins og Bruce Grobbelaar og fleiri.
Ég hef samt aldrei látið verða af því að safna mottu enda tekur það mig meiri tíma en ég hef þolinmæði í, enda er skeggvöxtur minn sennilega tiltölulega hægur. Ég veit ekki hvort mars dugir mér til annars en að rækta örlítinn hýjung á efri vörina. Málstaðurinn er samt góður og kannski þess virði að gera tilraun ef það nýtist til styrktar krabbameinsfélaginu.
![]() |
Mottur á allra vörum í mars |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.2.2011 | 09:48
Staðgöngumæðrun
Jódís og Tómar gátu ekki átt barn af því að Jódís var með góðkynja bandvefsæxli, þannig að hún gat ekki gengið með barn, hins vegar gat hún myndað heilbrigð egg. Jódís og Tómas langaði til að eignast barn saman þannig að þau settu sig í samband við staðgöngumóður, Söru, sem samþykkti að ganga með barnið fyrir þau. Mánuði áður en barnið átti að fæðast létust Jódís og Tómas í bílslysi. Sara ákvað þá að hún skyldi fæða barnið og ala það upp sjálf. Hún reiknaði ekki með að þetta yrði flókið, lagalega séð, þar sem báðir foreldrarnir voru látnir. En, systir Jódísar, Ellen, lagði fram kröfu um að hún fengi forræði yfir barninu. Hvort er staðgöngumóðirin eða fjölskylda foreldranna rétthærri í að taka að sér barnið?
Lög og reglur þurfa meðal annars að geta tekið á svona aðstæðum með einföldum og skýrum hætti en við eigum að nýta okkur þá tækni og þekkingu sem til staðar er í dag til þess að gera líf fólks betra.
![]() |
Andstaða við tillögu um staðgöngumæðrun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.2.2011 | 09:39
Noregsferð
Ég yfirgaf hótelið um kl 04:40 á þriðjudagsmorgun og ók til Keflavíkurflugvallar. Man eiginlega ekkert eftir ferðalaginu út á flugvöll, enda afskaplega syfjaður. Sennilega hef ég samt verið numinn á brott af geimverum en það er víst algeng skýring ef menn muna ekkert eftir einhverju ferðalagi frá A til B. Í flugvélinni horfði ég á íslensku kvikmyndina Brim og fannst hún bara alveg ágæt. Eftir að hafa skipt um flugvél í Osló lenti ég í Bergen um kl. 12:20. Ég tók rútu niður í bæ og tókst svo á einhvern óskiljanlegan hátt að ramba á hótelið mitt en eftir að ég hafði komið mér fyrir þar tók ég smá göngutúr um miðbæinn. Um kvöldið buðu svo Ingþórog Olla til veislu og þegar fór að líða á kvöldið fórum við Ingþór í góðan bíltúr, keyrðum upp á eitthvað fjall þar sem hægt var að horfa yfir Bergen og svo enduðum við í plötubúð áður en við kvöddumst og ég hélt upp á hótel.
Það var setið á ráðstefnu frá morgni miðvikudags til seinniparts og hlustað á ýmsa gagnlega fyrirlestra. Sá fyrirlestur sem vakti mesta athygli mína var fyrirlestur stúlku frá National University of Ireland,ekki vegna innihalds fyrirlestrarins, heldur vegna bakgrunnsmyndarinnar sem voru á glærunum, en það er mynd af þorski sem ég tók í kví í Berufirði sumarið 2008. Hvernig hún komst á bakgrunnsmynd á glærusýningu hjá Háskólanum á Írlandi er mér hulin ráðgáta. Þessi mynd var reyndar líka notuð á auglýsingaplakat hjá Háskólasetri Vestfjarða í Bolungarvík. Það mætti ábyggilega græða á þessu ef maður kynni það. Að ráðstefnu lokinni náði ég svo að hitta Gunnar Stein en við fórum og fengum okkur flatböku og spjölluðum um heima og geima en að því loknu var farið upp á Hótel og haldið í næsta ferðalag, um draumalendurnar.
Frægur þorskur:
Á fimmtudagsmorgun var ráðstefnunni framhaldið fram að síðdegiskaffi en þá var tímabært að hypja sig burt frá Björgvin. Á Flesland flugvelli í Bergen var hins vegar töluvert uppnám og rask á flugi þar sem einhver sem var búinn að innrita sig í flug öskraði að hann væri með sprengju í farangrinum. Maðurinn var fjarlægður og settur í dýflissuna í Bergen og allur farangur var grandskoðaður. Þetta hafði þó ekki áhrif á mitt flug og SAS flaug með mig til Kaupmannahafnar. Ég náði að labba sautján skref á Kastrup en þá var ég kominn í röðina á Flugleiðavélinni og settist svo í sæti 33A. Fyrir framan mig var maður með konu og þrjú börn en hann var færður fram í til flugfreyjunnar vegna ofsa flughræðslu sem hann var haldinn. Ekki nema hann hafi verið orðinn leiður á kellingunni og frekar viljað halda í höndina á yngri og fallegri konu. Þetta er allavega góð leið til þess ef maður vill prófa það. Þegar flugvélin nálgaðist svo Keflavík fór hún að hristast og hoppa, enda var vindhraði um 20 m/sek. Niður á jörðina komumst við samt en þurftum að bíða í flugvélinni í um hálftíma af því að ekki var hægt að tengja hana við flugstöðvarranann vegna roks og þar sem hún stóð á planinu hristist hún og skalf engu minna en hún hafði gert í aðfluginu. Allt hafðist þetta þó að lokum og ég fékk aftur gistingu hjá þeim í Síðumúlanum.
Þar sem skítaveður var fyrri part fimmtudags, ákvað ég að fara ekki af stað austur fyrr en eftir hádegi en hitti þess í stað aðeins á Karen. Austurleiðin var tíðindalaus en þó stoppaði ég í um klukkutíma í Mýrdalnum til þess að taka þátt í símafundi. Ég var feginn að hafa ekki farið á gönguskíðunum af því að snjórinn var allur farinn og það er víst ansi tímafrekt að koma sér áfram á gönguskíðum í auðu. Heim var svo komið rétt fyrir níu. Já og ráðstefnan var gagnleg.Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
6.2.2011 | 21:43
Bergen
Dagskráin er eftirfarandi:
Miðvikudagur 9. Febrúar
- 1. Heilbrigði og afföll í matfiskeldi
- 2. Seiðagæði
- 3. Eldisþorskur: Markaður og vörur
Fimmtudagur 10. Febrúar
- 1. Framtíð þorskeldis
- 2. Reynsla af öðrum eldistegundum sem nýst getur í þorskeldi
- 3. Þróun og notkun erfðamerkja í kynbótastarfi
Svo er bara að vona að þetta nýtist okkur til uppbyggingar á þorskeldi á Íslandi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.2.2011 | 21:20
Hetja hafsins
Eitt af því sem veitir manni ánægju og yl í hjarta er að ganga niður á bryggju og sjá smábáta koma heim úr róðri með góðan afla. Einn maður hér í bæ hefur sennilega gert slíkt, þ.e. komið heim úr róðri með góðan afla, oftar en nokkur annar í þessu litla sjávarþorpi og jafnvel þó víðar væri leitað. Í síðustu viku sigldum við fram hjá þessum manni þar sem hann var að draga netin sín. Við kölluðum til hans og spurðum um aflabrögð, Ég er allavega búinn að fá í soðið" var svarið, og tóbakstaumarnir láku af efri vörinni niður hökuna og niður á sjóbuxurnar en þarna var hann búinn að fá ýsubirgðir út febrúar. Þessi sjón var eiginlega hápunktur vikunnar, meid mæ dei. Það er með ólíkindum að 85 ára gamall maður stundi það að fara á netaveiðar einn á báti, jafnvel í janúar, og dragi upp með höndunum þau tonn sem hann má veiða. Þetta er maður sem lent hefur í mörgu á sinni sjómannsævi og það væri mikil þörf á því að skrifa bók um þennan mann, íslenskan sjómann í 70 ár, en ég tel þá fáa merkilegri hér um slóðir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
S Kristján Ingimarsson
Bloggvinir
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.5.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar