Færsluflokkur: Bloggar

Veistu hvar ég var?

Ég hef heyrt fólk segja frá því að það man nákvæmlega hvar það var statt og hvað það var að gera þegar fréttin um morðið á John F Kennedy barst því til eyrna.  Það eru nokkrir svona atburðir sem fólk man og flestir muna sennilega hvar þeir voru 11. September 2001.  Ég var á ferðalagi í Skotlandi.  Svo eru nokkrir aðrir atburðir sem einhverra hluta vegna hafa staðið eftir í minningunni.

Lát Mao Tse Tung. Maó lést 9. September 1976 en hann var stofnandi og formaður kínverska kommúnistaflokksins frá 1949 - 1976. Ekki veit ég af hverju í ósköpunum ég man eftir þessu en mér hefur sennilega þótt Maó verulega merkilegur maður þrátt fyrir að ég væri aðeins átta ára gamall. Þetta er eitt af því fáa sem ég man úr barnæsku og kannski eitt af því fyrsta Ég man að foreldrar mínir voru ekki heima þennan dag og það var verið að passa mig. Þau komu svo heim daginn eftir og þegar rauða fólksvagen bjallan renndi í hlað, í sólskini og fallegu septemberveðri, hljóp ég út til að segja þeim tíðindin, að nú væri Maó formaður allur.

Lát Elvis Presley. Elvis lést 16. Ágúst 1977. Sennilega hefur mér þótt Elvis merkilegasti tónlistarmaður sem ég hafði á 9 ára ævi minni heyrt í, enda var gamla rokkið það fyrsta sem maður hlustaði á og meðtók. Allavega var ég staddur í eldhúsi foreldra minna og það var verið að hlusta á hádegisfréttirnar á „gömlu gufunni". „Jæja er hann dáinn blessaður" varð einhverjum að orði þegar fréttirnar voru lesnar.

Ísbjarnarblús. Platan Ísbjarnarblús með Bubba var gefin út 17. Júní 1980 og ég man ennþá þennan bjarta júnídag, þegar ég sat við eldhúsborðið heima, skömmu eftir hádegi og lagið Ísbjarnarblús var spilað í útvarpinu. Maður hrökk við, þetta var allt öðruvísi en sú tónlist sem hafið verið í gangi fram að þessu, miklu aggressívari og groddalegri. Það tók mann smá tíma að melta þetta en smám saman náði þessi tegund tónlistar, þ.e. hrátt og groddalegt rokk yfirhöndinni á tónlistarsmekknum.

Morðið á John Lennon. Lennon var myrtur þann 8. Desember 1980. Á þessum tíma hafði tónlistarsmekkurinn færst úr rokkabillí yfir í Bítlana sem voru orðnir í miklu uppáhaldi þarna, og eru reyndar enn. Þar sem ég sat í eldhúsinu heima í hádegishléi í skólanum og snæddi rúgbrauð með síld var fréttin um dauða John Lennon eins og að heyra af láti einhvers sem maður þekkti vel. Dagana og vikurnar á eftir var mikið spilað af tónlist Lennon en lagið Starting Over af plötunni Double fantasy varð vinsælt í kjölfar dauða hans.

Lát Kurt Cobain.  Kurt Cobain lést 5. Apríl 1994.  Kannski áttaði maður sig ekki á því hve mikil áhrif grunge rokkið og Nirvana hafði á mann fyrr en Cobain lést en hann var auðvitað eitt stærsta nafnið í rokkinu á þessum tíma.  Ætli Nevermind sé ekki eitt þekktasta plötuumslag allra tíma.  Ég var, eins og svo oft áður þegar merkisatburðir gerast, staddur heima hjá foreldrum mínum ásamt Karen dóttur minni í heimsókn, nýlega fluttur austur frá Reykjavík.  Á sama tíma og fréttirnar um dauða Cobain voru lesnar var Karen að kalla til mín og biðja mig að hjálpa sér með eitthvað, ég lokaðist fyrir umhverfinu og hvarf inn í sjónvarpið á meðan fréttin var lesin og rankaði aftur við mig þegar var kallað „Kristján, Kristján, Karen er að kalla á þig"! In Utero var mikið spiluð á þessum tíma en Cobain fer í flokk með Jimi Hendrix, Jim Morrison, Janis Joplin og fleiri tónlistarmanna sem dóu fyrir aldur fram en goðsögnin lifir.


Pressa

Nú í nóvember síðastliðinn ákvað ég að vera duglegur að taka ljósmyndir í desember, en desember  er fallegur mánuður ef maður horfir í kring um sig og drekkur í sig skammdegisbirtuna.   Síðan útbjó ég möppu á Facebook  þar sem ég sló því fram að ég myndi setja inn að minnsta kosti eina mynd á dag í desember.  Þar með var ég búinn að setja á mig mikla pressu en sama hvað, ég varð að ná einni góðri mynd á dag.  Það hljómar einfalt en þegar myndavélin sem notuð er í verknaðinn er þeim kostum gædd að verulega erfitt er að taka óhreyfðar myndir í fókus auk þess sem þær verða aldrei nógu hreinar, enda mistókust nokkrar myndir sem hefðu verið svakalega góðar EF maður hefði haft betri myndavél í höndunum.   Allavega kom þetta betur og betur í ljós eftir því sem leið á mánuðinn en samfara meiri myndatöku fer maður ósjálfrátt að spá meira í samsetningu og gæði myndanna.  Pressan að koma með mynd var, ég segi kannski ekki óbærileg, en hún var alltaf til staðar og því er eins og maður sé kominn í sumarfrí núna eftir þessar desembermyndatöku.  Verkefnið var samt afskaplega skemmtilegt og ég fékk margar fallegar athugasemdir  við myndirnar í möppunni og fyrir þær er ég þakklátur.  Nú er það hins vegar orðið nokkuð ljóst  að það verður ekki hjá því komist að fjárfesta í þokkalegri myndavél, enda er maður orðinn gagnrýnni á sjálfan sig hvað þetta varðar.

Her eru nokkur sýnishorn en megi annars nýja árið færa ykkur gleði og hamingju.

Sænes á útleið

Egg

Búlandshöfn


Fótboltaárið

Sammála.  Stjóri ársins er að sjálfsögðu Jose Mourinho, þrátt fyrir að Roy Hodgson hafi verið kjörinn sá besti í Englandi, en Mourinho vann allt sem hægt var að vinna, fór svo til ríkasta klúbbs í heimi og benti arftaka sínum hjá Inter á að hann gæti þakkað sér fyrir að Inter varð heimsmeistari.  Maðurinn er einfaldlega sigurvegari og hann segir líka sjálfur að hann eigi það skilið að verða kjörinn stjóri ársins. Hann er nú aldeilis ekki þekktur fyrir að kasta gleri úr steinhúsi blessaður.

Hápunkturinn á fótboltaárinu var auðvitað HM þar sem Spánverjar urðu heimsmeistarar en mörg eftirminnileg atvik áttu sér stað. 

Sá punktur sem kemur næst á eftir HM var að sjálfsögðu þegar Chelsea urðu tvöfaldir meistarar í Englandi í maí með því að sigra Wigan 8 - 0 í síðasta leik og svo með því að sigra Portsmouth 1 - 0 í úrslitum bikarsins.

Númer þrjú er svo árangur íslenska U-21 árs landsliðsins sem tryggði sér sæti í úrslitakeppni EM sem haldin verður í Danmörku.  Það hefur líka verið afar ánægjulegt að fylgjast með þessum strákum spila með sínum félagsliðum og þá kannski sérstaklega honum Gylfa Þór.


mbl.is Mourinho: Ég er þjálfari ársins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Voðalegar sveiflur eru þetta

Það var afar sérstakt að upplifa veður eins og var í gær en sennilega tekur maður sérstaklega eftir þessu þegar vinnan manns er að hluta til háð veðri.  Um morguninn þegar við sigldum inn Berufjörðinn bærðist ekki hár á höfði og fjörðurinn var spegilsléttur og var þannig fram undir hádegi .  Á svona hálftíma breyttist veðrið úr logni yfir í rok þar sem hviður fóru yfir 30 m/sek, samanber veðurstöðina á Öxi.  Lengstum var norðvestan en um tíma umpólaðist hann yfir í austanátt.  Þrátt fyrir þennan vind var óvenju hlýtt í veðri en mælirinn í bílnum sýndi 14°C sem er sambærilegt við það sem var skráð á Teigarhorni á svipuðum tíma.  Tveimur dögum fyrr var 10 stiga frost, þannig að sveiflan í hita á þessum tíma er næstum 25 gráður, hvort sem mælt er á Celsíus eða Kelvín skala.  Auðvitað er þetta langt frá öllum metum en engu að síður óvenjulegt.

Logn í Berufirði 10. des

Berufjörður um kl 11:00.

 

Stormur í Berufirði 10. des 

Berufjörður um kl 14:30

Það er samt ekki bara hér á þessum punkti  á jarðarkortinu sem eru sveiflur eða óvenjulegheit í veðurfari.  Á Grænlandi eru menn að upplifa mikil hlýindi en í Nuuk voru rúmar 16 gráður fyrir nokkrum dögum, á sama tíma var fólk að frjósa í hel í Póllandi en á meðan börðust menn við skógarelda í Ísrael.

Í lok dags glöddu svo falleg glitský okkur með nærveru sinni.  Ólafur frændi minn sem bjó í Kambshjáleigu, kallaði glitský ísský en fólk tengdi þau gjarnan við hafís.  Mér vitanlega eru engin tengsl þar á milli önnur en kuldinn og árstíminn.  Annars er skýjafarið og birtan búin að vera alveg einstök síðustu dagana.

Glitský

Sólsetur og glitský

Gyllt ský


mbl.is Óvenjulegheit og veðurnördar gleðjast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tvær sólir

Í dag sáust tvær sólir á lofti í Berufirði.  Þetta er ekki algengt en sést helst þegar sól er lágt á lofti, 22° yfir sjóndeildarhring held ég,  og sólin skín í gegnum slæðu af háskýjum þannig að regnbogalitir blettir birtast, stundum einn en stundum tveir, sitt hvoru megin við sólina.  Þessir blettir hafa fengið nöfnin gíll sem var vestan við sól og úlfur sem var austan við sól.  Áður fyrr fylgdi þessum aukasólum hjátrú en þá var sagt „Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni".  Þetta þýddi sem sagt að slæmt veður var í aðsigi ef aukasól var vestan við sólina en ekki ef austari aukasólin, úlfurinn, fylgdi á eftir.  Þessar aukasólir geta sést hvar sem er í heiminum ef réttu skilyrðin eru til staðar en á ensku kallast þetta fyrirbæri sun dog.  Hér er svo mynd af herlegheitunum:

Tvær sólir

 

Og svo ein af Sturlu í Djúpavogshöfn í morgunsárið:

Sturla í Djúpavogshöfn


Desembermyndir

Ég hef það sem af er desember sett inn að minnsta kosti eina mynd á dag inn á feisbúkk og mér finnst vel til fundið að skella þeim hingað inn líka.  Nú er ég enginn sérstakur ljósmyndari og get varla sagt að ég eigi myndavél, allavega ekki almennilega myndavél.  Það er nú samt þannig að þegar sólin er lægst á lofti þá er birtan sem umlykur okkur, þessa stystu daga ársins á sextugustu og fjórðu breiddargráðu, einstaklega falleg og desember er án efa fallegasti mánuður ársins hvað birtu varðar.   Það er því ekki annað hægt en að reyna  að festa eitthvað af þessu á filmu og planta afrakstrinum hér á þessa síðu.

Höfnin og hótelið á Djúpavogi

Vetrarsól við Djúpavog

Sólarupprás við Papey

Skýjafar í Flugustaðadal

Jóhanna Gísladóttir

Sólsetur við Berufjörð

Sólarupprás í Berufirði


Tónleikar

Á síðustu átta dögum er ég búinn að fara á þrenna tónleika og ef ég hugsa til baka þá eru þetta sennilega í fyrstu tónleikarnir sem ég fer á frá því á Hammond hátíð í apríl.  Þetta er náttúrulega allt of langur tími sem líður á milli enda var tónleikaþorstinn farinn að segja til sín.  Auðvitað stóð til að fara á Airwaves eins og svo oft áður en ekkert varð af því og því tekur maður fegins hendi það sem býðst þegar svona langt líður á milli.

Fimmtudaginn 25. nóv voru einsöngstónleikar með tónlistarkennaranum okkar Jozsef Kiss í Djúpavogskirkju.  Ekki fer á milli mála að þar er á ferð góður söngvari  en á efnisskránni voru nokkur sönglög úr ítölskum óperum, óperettum og söngleikjum auk þriggja íslenskra laga, m.a. Í fjarlægð eftir Karl O Runólfsson.  Það er lag sem meira er á bak við en virðist við fyrstu hlustun og lagið fær meira vægi þegar maður þekkir söguna.  Lagið varð til þegar Margrét, fyrri kona tónskáldsins, lá á banabeði á Kristneshæli við Eyjafjörð.  Karl ætlaði sér að heimsækja hana en var veðurtepptur.  Á sömu deild lá maður að nafni Valdimar Hólm Hallstað, eða Cæsar eins og hann kallaði sig og bað Margrét hann að yrkja fyrir sig ljóð til Karls.  Þegar Karl svo komst loksins á leiðarenda beið hans bréf við rúmgaflinn og Margrét var þá dáin.  Í bréfinu var kvæði sem hljómaði svona:

Þig sem í fjarlægð fjöllin bak við dvelur

og fagrar vonir tengdir líf mitt við,

minn hugur þráir, hjartað ákaft saknar,

er horfnum stundum ljúfum dvel ég hjá.

Heyrirðu ei, þig hjartað kallar á?

Heyrirðu ei storm er kveðju mína ber?

Þú fagra minning eftir skildir eina,

sem aldrei gleymist meðan lífs ég er.

 

Kvöldið eftir var svo Svavar Knútur með tónleika í Löngubúð og ég held að þetta sé í fjórða skipti á tveimur árum sem hann er með tónleika þar.  Svavar var að spila lög af nýútkominni  plötu sinni sem nefnist  Amma.  Tónleikarnir voru mjög rólegir og notalegir en Svavar er þannig að maður skemmtir sér ágætlega  við það eitt að hlusta á bullið sem kemur upp úr honum milli laga.

Í gærkvöldi bauðst mér svo að fara á Frostrósatónleika en þeir hafa að mér skilst verið gríðarlega vinsælir meðal landsmanna.  Ekki hef ég nú haft neinn sérstakan áhuga á Frostrósunum en þar sem þetta var frítt lét maður sig hafa það og við Íris höfum nú svo sem ekki farið mikið tvö þannig að ákveðið var að fara út að borða í leiðinni.  Hjá Frostrósum er valinn maður í hverju rúmi og allt afskaplega vel gert hjá þeim.  Tónleikarnir áttu að hefjast klukkan sex í Egilsstaðakirkju og vorum við mætt tuttugu mínútum fyrir.  Þá var kirkjan orðin smekkfull og einu lausu sætin voru fremst til hliðar við sviðið.  Þar var búið að stilla flyglinum upp og því sá maður ekki neitt annað en flygilinn og skó flytjendanna. Þarna sátum við á meðan fyrstu lögin voru flutt  og horfðum á skó og hlustuðum á jólalög.  Eftir smá tíma gáfumst við þó upp og létum koma okkur fyrir á betri stað þaðan sem við höfðum ágætt útsýni.  Ekki þótti mér tónleikarnir neitt betri en ég átti von á en tvennt þótti mér þó standa upp úr.  Jóhann Friðgeir og strengjasveitin.   Jóhann Friðgeir af því að hann er góður söngvari og það er gaman að fylgjast með honum syngja en þegar hann þarf að taka á verður hann óskaplega brúnaþungur og það kemur glampi í augun á honum eins og að hann ætli að hlaupa til manns og berja mann.  Strengjasveitin fannst mér skemmtileg, kannski aðallega vegna þess að maður sér ekki strengjasveit á tónleikum á hverjum degi.  Ég væri til í að eiga eina svona strengjasveit sem myndi fylgja mér við hvert fótmál og spila fyrir mig.  Þegar við svo ætluðum að finna okkur veitingastað á Egilsstöðum eftir þetta kom í ljós að hvergi var hægt að komast að vegna jólahlaðborða eða annarra hremminga,  það endaði því þannig að við átum á N1 stöðinni.  Jei, þetta sem átti að verða að notaleku útaðborðaog tónleikakvöldi varð því þannig að við fórum að horfa á skó og borðuðum á bensístöð.  Við vorum samt ánægð með kvöldið.


Ég kýs ekki

Það eru víst kosningar í dag og ég ætla ekki að kjósa.  Ég hef ekki haft tíma til að kynna mér þessa fimmhundruð og tuttugu og fimm frambjóðendur  og get því ekki með nokkru móti ákveðið mig.  Það verður nú líka að segjast eins og er að þessir fimmhundruð tuttugu og fimm frambjóðendur hafa gert lítið til að kynna sig allavega hef ég ekki orðið var við að margir séu að koma sér á framfæri.  Þetta er kannski bara staðfesting á því að flokkakerfið virkar miklu betur en persónukjör þó að þessi svokallaði fjórflokkur sé orðinn algjörlega úreltur og orðinn fastur í einhverri pólitískri hringekju.  Ef ég vissi hverjir af þessum fimmhundruð tuttugu og fimm frambjóðendum vilja engar breytingar á stjórnarskrá myndi ég sennilega dratthalast á kjörstað og færa númerin þeirra inn á kjörseðilinn.

Mér finnst þessar kosningar ekki vera það sem Ísland þarf á að halda núna.  Þegar bankarnir fara á hausinn af hverju er þá þörf á að breyta stjórnarskránni?  Var  það stjórnarskránni að kenna að efnahagshrunið varð. Nei. Svo er það nú þannig að stjórnarskráin hefur verið í stanslausri endurskoðun frá árinu 1944 þar sem stjórnarskrárnefnd hefur verið starfandi í þessi 66 ár og aldrei hafa menn fundið nægjanleg rök fyrir því að breyta henni.  Stjórnvöld hér á landi hafa lýst því yfir að þau þykist vera velferðarstjórn sem þurfi að skera niður og hækka skatta til að eiga möguleika á að ná að rétta af þjóð sem er nánast gjaldþrota.  En samt á að kasta fleiri hundruð milljónum í stjórnlagaþing.   


Gott kvöld?

Bogi Ágústsson las fréttir á RÚV í kvöld.  Hann byrjaði á að bjóða gott kvöld en það sem á eftir kom gekk að mestu út á það að gera manni ljóst að þetta væri ekki neitt sérstaklega gott kvöld.  Írland á kúpunni, deilur á Alþingi, vítaverð vinnubrögð hjá Landsdómi, kvartanir vegna símafyrirtækja, málaferli vegna ýmissa glæpa, stjórnlagaþing of flókið fyrirbæri og fleira í þeim dúr.  Alveg sérstaklega hvetjandi, upplífgandi og jákvætt fyrir þá sem vilja hafa gott kvöld.  Auðvitað nennir maður ekki að hlusta á þetta á sunnudagskvöldi og því var ekki um annað að ræða en að skipta  um stöð eða lækka.  Batteríin í fjarstýringunni voru samt orðin léleg og ég stóð mig að því að ýta fastar á takkana á henni.  Af hverju? Veitiggi. 

Landinn er samt fínn.  Þá er ég að meina þáttinn og jú kannski líka drykkinn. Þátturinn rífur mann aftur upp (j´aog drykkurinn líka) eftir að búið er að rífa mann niður með fréttum.


Vegalagning á Öxi

Jæja loksins er komið að því að við fáum betri veg yfir Öxi og jafnframt styttast smám saman þeir hlutar þjóðvegarins sem eru ekki með bundnu slitlagi sem er okkur Íslendingum til háborinnar skammar.  Þetta eru samt gleiðtíðindi.  Annars kemur hér kópíeraður og peistaður texti af heimasíðu Vegagerðarinnar:

Axarvegur, Hringvegur í Skriðdal og Hringvegur um Berufjarðarbotn - Frummatsskýrsla

18.11.2010

Vegagerðinni hefur verið falið að endurbyggja Hringveg á kafla í Skriðdal, byggja nýjan veg um Öxi á milli Hringvegar í Skriðdal og Hringvegar í Berufirði og endurbyggja Hringveg um botn Berufjarðar auk þess að færa hann til á kafla og byggja þar nýja brú yfir Berufjarðará og nýjan Hringveg.

    Hringvegur í Skriðdal er lagður malarslitlagi á kafla frá klæðingarenda við Vatnsdalsá við norðurenda Skriðuvatns í Skriðdal að Axarvegi. Fyrirhugað er að endurbyggja hann og leggja bundnu slitlagi á um 6 km löngum kafla.

    Axarvegur er hlykkjóttur malarvegur sem telst ekki til heilsársvega. Fyrirhugað er að leggja nýjan  heilsársveg,  19,0-21,0 km langan í grennd við núverandi Axarveg.

    Hringvegur um botn Berufjarðar er lagður malarslitlagi á 8,3 km löngum kafla. Hann nær frá Hvannabrekku í Berufirði norðanverðum að Lindarbrekku sunnan fjarðarins. Á kaflanum er einbreið brú yfir Berufjarðará. Fyrirhugað er að endurbyggja  Hringveginn um Berufjarðarbotn á sama stað á 2-3 km kafla en færa hann til á 3-4 km kafla og byggja nýja brú yfir Berufjarðará. Nýr og endurbyggður vegur verður samtals 5-7 km langur. 

Heildarlengd nýrra og endurbyggðra vega verður 30-34 km. Óvíst er hvenær ráðist verður í framkvæmdir en áætlað er að þær taki 3-5 ár, háð fjárveitingum í vegáætlun.   

Framkvæmdir við Axarveg falla undir 5. gr. laga nr. 106/2000 m.s.b. um mat á umhverfisáhrifum, þ.e. framkvæmdir sem eru ávallt háðar mati á umhverfisáhrifum. Framkvæmdir á Hringveginum falla undir 6. gr. sömu laga, þ.e. framkvæmdir þar sem kanna þarf matsskyldu. Í samráði við Skipulagsstofnun tók Vegagerðin ákvörðun um að meta umhverfisáhrif Hringvegar í Skriðdal og Hringvegar um Berufjarðarbotn án undangenginnar könnunar á matsskyldu framkvæmdanna og meta umhverfisáhrif ofangreindra vegaframkvæmda saman. Framkvæmdirnar geta þó verið óháðar hvorri annarri. Framkvæmdaraðili er Vegagerðin og ber hún ábyrgð á mati á umhverfisáhrifum fyrirhugaðra framkvæmda.

Vegagerðin hefur metið umhverfisáhrif vegna fyrirhugaðra framkvæmda í samræmi við matsáætlun og í samráði við ýmsa sérfræðinga. Í þessari frummatsskýrslu er tilhögun fyrirhugaðra vegaframkvæmda lýst og umhverfisáhrif þeirra metin. Frummatsskýrslan skiptist í ellefu kafla auk þess sem teikningahefti og viðaukar fylgja henni.

Frummatsskýrsla er lögð fram til athugunar hjá Skipulagsstofnun samkvæmt lögum nr. 106/2000 m.s.b. Við athugunarferlið mun stofnunin leita umsagnar opinberra umsagnaraðila og athugasemda almennings.

Allir hafa rétt til að leggja fram athugasemdir. Athugasemdir skulu vera skriflegar og berast Skipulagsstofnun eigi síðar en þann dag sem frestur til athugasemda rennur út. Athugasemdafrestur er til 7. janúar 2011.

Þá mun Skipulagsstofnun senda Vegagerðinni umsagnir og athugasemdir sem hafa borist. Í kjölfarið mun Vegagerðin vinna endanlega matsskýrslu á grundvelli frummatsskýrslu þar sem gerð verður grein fyrir framkomnum athugasemdum og umsögnum og tekin afstaða til þeirra.

Matsskýrsla verður send Skipulagsstofnun sem hefur 4 vikur til að gefa álit sitt á hvort skýrslan uppfylli lög nr. 106/2000 m.s.b. um mat á umhverfisáhrifum og hvort umhverfisáhrifum sé lýst á fullnægjandi hátt. Matsskýrsla er ekki auglýst.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 4
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband