Færsluflokkur: Bloggar

Hjá tannsa

Í síðustu viku skrapp ég til tannlæknis.  Ég er ekki eins og sumir, kvíðnir fyrir að heimsækja tannlækni, nema ef vera skildi kvíði fyrir því að sjá reikninginn sem manni er sýndur að heimsókn lokinni.  Í þetta skiptið hafði ég fundið fyrir óþægindum í tönn hægra megin niðri.  Ég var afskaplega afslappaður, reyndar svo afslappaður að ég sofnaði á meðan á viðgerð stóð.  Þegar ég rankaði við mér aftur hafði verið gert við aðra tönn en þá sem ég hafði ætlað að láta skoða, en nú var búið að laga fyllingu í tönn uppi vinstra megin.  Nú hef ég sem sagt verk bæði hægra megin og vinstra megin, synu meiri þó í þeirri sem var gert við og var í fínu lagi fyrir og því verð ég að vera annað hvort á fljótandi fæði eða tyggja með framtönnunum.  Guði sé lof og dýrð í upphæðum að maður er ekki jórturdýr.

Það sem vakti hvað mesta athygli í fréttum í vikunni var viðtalið við borgarstjórann í Kastljósinu þar sem hann sagðist vera geimvera og predator.  Hann viðraði líka þá hugmynd að hafa lokað í Bláfjöllum í 365 daga í stað 360 og margir töldu hann klikkaðan fyrir það.  Væntanlega hafa menn jafnað sig á því en það hlýtur einmitt að vera verkefni þeirra sem stjórna að athuga hvar hægt sé að spara og þá eru útgjöld  vegna íþróttamála ekki undanskilin.  Þeir á Álftanesi brenndu sig aðeins á þessu en þeir settu sveitarfélagið á höfuðið vegna íþróttamála.

tannsi


Bílalán

Ég er með bílalán hjá SP fjármögnun.  Nú í vikunni fékk  ég endurútreikning á láninu og verð að segja að ég var ánægður með hann.  Höfuðstóll lánsins lækkaði um 600.000, þannig að mánaðarlegar afborganir lækka aðeins í kjölfarið.  Já og vextirnir ásættanlegir rúm 6%.  En.  Þegar fyrirtæki er dæmt fyrir að gera ólöglega samninga er það sama fyrirtæki væntanlega orðinn lögbrjótur.   Ef ég brýt lög, þá get ég verið viss um að ég þarf að greiða sekt eða jafnvel fara í fangelsi.  Í þessu tilviki, þrátt fyrir að fjármálafyrirtæki ættu í hlut, hefði maður haldið að það sama gilti um þau.  Það er samt ekki svo, þau eru verðlaunuð með því að láta ólöglegu samningana halda sér en það ólöglega er tekið út og nýir vextir settir inn, án tillits til hvort lántakinn sé því samþykkur eða ekki.  Lögbrjóturinn er sumsé skorinn niður úr snörunni og sá sem brotið var á aðstoðar hann við að komast á lappirnar.  Svona er nú íslenskt réttarkerfi.  En ég er glaður og bíllinn minn er til sölu.

Október

Október er búinn að vera kreisí.  Mikið að gera og þegar ég hugsa til baka hef ég ekki fengið fríhelgi til að eyða með fjölskyldunni síðan í ágúst.  Tölvunotkun mín í október hefur sennilega náð lægstu lægðum síðan árið 2004, sumir dagar algjörlega tölvulausir en aðrir næstum því tölvulausir. Það er margt sem maður hefur misst af  en á móti kemur að maður hefur fengið margt í staðinn.

T.d. var Airwaves í október og það er oft búið að plana Airwaves ferð.  Í þetta sinn átti að taka hluta af sumarfríinu í þessa frábæru hátíð sem er barmafull af góðu og spennandi tónlistarfólki.  Að sjálfsögðu tókst það ekki og ég missti af SH draumi og Bombay Bicycle club.  Ætli maður fjárfesti ekki í Goð+ í sárabætur.

Svo voru tónleikar með Yoko Ono.  Ég hefði ekki getað hugsað mér að fara á þá tónleika.  Í fyrsta lagi hef ég bara heyrt leiðinleg lög með Yoko og í öðru lagi kom það ekki til greina að fara á tónleika með manneskjunni sem splundraði Bítlunum.  Ég held að flestir þeir sem fóru hafi farið af því að hún er ekkja John Lennon en ekki út af tónlistarhæfileikum eða skemmtanagildi.

Svo var landsleikurinn Ísland - Portúgal.  Auðvitað hafði ég hugsað mér að fara á hann en það gekk ekki upp því miður, þannig að maður missti af því að sjá vel smurða lærleggi Ronaldos og taka myndir af honum á símann.  Hins vegar styttist með hverjum deginum í það að maður skelli sér á leik.

Svo er búinn að vera ægilegur hiti út af trúmálum, aðallega trúarfræðslu í skólum.  Mér finnst sjálfsagt að kynna hin ýmsu trúarbrögð fyrir krökkum.  Markmiðið með flestum trúarbrögðum er jú að kenna fólki að greina á milli góðs og ills og hvað er rétt og hvað er rangt, þannig að e.t.v. ætti að efla trúarfræðslu í skólum.  Mér finnst fólk hafa misst sig algjörlega í umræðu um þetta og það skín í gegn hjá fólki að að kristni sé slæm.  Ef allt fer á verst veg verður dregið verulega úr jólaundirbúningi skólanna,  sennilega hætt að kynna Hallgrím Pétursson  og fleiri stórskáld fyrir börnum.  Annars veit ég ekki af hverju ég er að velta mér upp úr þessu með skólana, þetta á aðeins við um Reykjavík, en umræðan hefur samt sem áður verið áberandi að undanförnu. 

Þjóðmálin:  Úff, það vantar einhver til að stjórna .

Bæjarbragurinn:  lífið í bænum gengur sinn vanagang en þó verður að segjast eins og er að lífið við höfnina er búið að vera, tja dautt.  Október hefur yfirleitt verið aðalmánuðurinn hér en í ár verður hann einn af slökustu mánuðunum.  Því miður.  Svona er nú sjávarútvegurinn óútreiknanlegur.

Í staðinn fyrir þetta fékk ég nokkrar fjallgöngur, námskeið á vegum Landsbjargar fyrir harðbotna slöngubáta, stjórnendanámskeið fyrir slökkviliðsmenn, fiskeldisráðstefnu norður á hinum sögufrægu Hólum í Hjaltadal, betri heilsu og meiri hæfni og þekkingu.  Þannig að ég er ánægður.

Spáin er slæm fyrir helgina þannig að maður dundar sér líklega mest heima við, kominn tími til, hlustar á Deerhunter, eldar, les og lummast.


Göngur

Ég er búinn að klæða mig upp sem gangbrautarvörður nokkrum sinnum að undanförnu, þ.e. í neongult vesti og svo hef ég fengið talstöð í hendur og síðan tölt af stað í leit að lausafé.  Þetta er eitthvað sem ég hef afskaplega gaman af, ekki er það að klæða sig í búning eða eltast við óþægar rollur sem ég held mest upp á, heldur ganga um íslenska náttúru og austfirska dali.  Nú í haust er ég búinn að fara í Hamarsdal, Skammadal og tvisvar sinnum í Hofsdal.  Svo er þessi tegund af útiveru afskaplega holl fyrir sál og líkama en í lengstu göngunum er gengin vegalengd ekki undir 40 km og eftir 10 - 12 tíma labb og hlaup er fátt betra en að komast heim í gott bað og fá góða hvíld.

Í gær var farið inn í Hofsdal, gengið upp úr Geithellnadal, inn undir Hofsjökul og svo fram dalinn.  Lagt var af stað klukkan sex um morguninn og komið heim klukkan níu um kvöld.  Hofsdalurinn er einn sá fegursti hér á landi, þar er stærsti náttúrulegi skógur landsins og þar ilmar allt af íslensku birki, eini, berjalyngi og fjalldrapa og í þessum dölum mætir maður gjarnan hreindýrum, refum, rjúpum og fleiri fuglum, auk þess sem maður sér alltaf eitthvað áhugavert og lærir eitthvað nýtt.   

Á svona ferðum er mikilvægt að borða vel áður en lagt er af stað, bæði kvöldið áður og svo um morguninn.  Ekki er þægilegt að þyngja sig með miklum nestisburði en banani og fullt af Snickers halda manni gangandi ótrúlega lengi, auk þess sem íslenska fjallavatnið sem rennur í tærum lækjum niður fjallshlíðarnar er öllum smaladrengjum lífsnauðsyn.

Annars hefur verið mikið að gera síðustu vikurnar og varla tími til að kveikja á tölvu.  Auk smalamennsku hefur Slysavarnafélagið tekið drjúgan tíma en nú er unnið að því að efla bátadeild félagsins hér.


Búinn 2010

Nú er í gangi hér í bæ heilsuátak sem kallast „Búinn 2010".  Þetta er að mínu mati lofsvert framtak en átakið snýst um það að fá sem flesta íbúa bæjarins til að hreyfa sig.  Hvað hefur maður ekki oft heyrt fólk tala um að nú verði það að fara að hreyfa sig og ef tækifærið er ekki núna þá veit ég ekki hvenær.   Hver og einn ætti að geta fundið eitthvað við sitt hæfi, hvort sem það er ganga, skokk, lyftingar, sund, boltaíþróttir eða eitthvað annað.  Átakið stendur í þrjá mánuði en vonandi verður það til þess að fólk heldur áfram að hugsa um heilsuna en það er ákveðinn lífstíll að gera það og heilsan er jú það dýrmætasta sem við eigum.  Það skemmir svo ekki fyrir að í lok átaksins verða veitt hin ýmsu verðlaun, s.s. jákvæðast búinn, duglegasti búinn, sterkasti búinn, Congó búinn og fleiri búar sem ég man ekki  eftir í augnablikinu.  Fyrir mig breytir þetta ekki svo miklu þar sem ég hef reynt að skokka tvisvar til þrisvar í viku en auðvitað er það ákveðin hvatning að göngu og skokk hópurinn mætir á sama tíma.  Ætli maður bæti ekki við skokkið einhverjum boltaíþróttum.  Á meðan á göngu og skokki stendur er svo boðið upp á barnapössun þannig að nú er ekki hægt að nota barnapíuleysi sem afsökun fyrir því að hreyfa sig ekki.  Búinn 2010 er mjög jákvætt framtak.

Svona í framhaldi af þessu, þá hef ég vanið mig á að nota mp3 spilara þegar ég hleyp, auk þess að vera með skrefamæli, kílómetramæli, skeiðklukku og brennslumæli.  Maður er sumsé hlaðinn tækjabúnaði og spurning um að bæta súrefniskút á bakið ef maður skyldi lenda í andnauð, já og kannski hjartastuðtæki ef hjartað skyldi ekki ráða við álagið.  Allavega hef ég komist að því að það er misjafnt hvaða lög virkar vel að hlusta á á meðan maður skokkar og ég hef tekið eftir því að yfirleitt greikka ég sporið þegar lagið hér fyrir neðan kemur:


Sultur fyrir norðan

Nú er ég í sumarfríi og er nýkominn úr bústað í Fnjóskadal.  Fnjóskadalur er fyrir norðan.  Þar búa Norðlendingar.  Veðrið lék við okkur en óvenju hlýtt hefur verið hjá Norðlendingum nú í september.  Húsavík var heimsótt en heimsókn á hið íslenska reðasafn var hápunkturinn.  Við vorum að ræða hvað væri nú sniðugt að setja upp svo óvenjulegt safn en það hefur vakið heimsathygli.  Til vonar og vara spurðum við Telmu hvort hún vissi hvernig safn þetta væri,  Nei hún var ekki viss.  Þetta er typpasafn sögðum við. Eftir smá umhugsun spurði hún hvort hún mætti prófa allt þar.  Það verður að viðurkennast að viðbrögð föðurins við þessari spurningu 15 ára dóttur hans voru á þá leið að hann varð frekar vandræðalegur.  Hvað á maður að halda að hún hafi verið að hugsa?  Því varð að fá aðeins meiri upplýsingar um hvað hún var að hugsa.  Jú er ekki fullt af svona hippadóti þarna.  Nei þetta er typpasafn, ekki hippasafn Telma.  Safnið var samt áhugavert þrátt fyrir þennan misskilning.  Akureyri var að sjálfsögðu líka heimsótt með tilheyrandi heimsókn á Greifann, Glerártorg og Brynjuís.  Síðan var keyrt inn Eyjafjörð og kíkt við á Hrafnagili og á Grund.  Að öðru leiti var bara slakað á í bústaðnum en það hefði ekki verið verra að geta verið aðeins lengur. 

Næsta vika frísins verður m.a. notuð til veiða og berjatínslu en á heimilinu er stefnt á að gera hinar ýmsu gerðir sultna þetta árið.  Nú þegar er búið að framleiða hefðbundna rabarbarasultu, rabarbara apríkósusultu, rabarbara gráfíkjusultu, rabarbara sítrónusultu, bláberjasultu og appelsínumarmelaði.  Nú þarf að bæta við 2  - 3 tegundum til þess að eiga lager fram á næsta ár enda er víst kreppa um þessar mundir.

Reðasafnið


Landmannaluagar - Þórsmörk

Um síðustu helgi var haldið í ferðalag og var ferðinni heitið í Landmannalaugar og Þórsmörk.  Ég, Billi og Kári lögðum í hann frá Djúpavogi eftir hádegi og beygðum svo upp afleggjarann að Fjallabaki nyrðra.  Fyrsti viðkomustaður var í Hólaskjóli en þaðan var ekið í Eldgjá.  Í Landmannalaugum biðu okkar Ragnar Rafn og Ingi Ragnars en þeir höfðu komið í þangað frá Reykjavík.  Hungrið var farið að sverfa að og því var tendrað upp í grillinu og steikinni skellt á.  Kvöldinu lauk svo í hinni frægu heitu laug í Landmannalaugum. Það var svo þegar upp úr var komið að við rákumst á tilkynningu, A4 blað sem var heftað á staur við laugina.  Á blaðinu voru baðgestir varaðir við sundmannakláða sem orsakast af lirfum sníkjudýra sem lifa á fuglum.  Til að fjölga sér bora þær sér undir húð fugla, fara inn í taugakerfið, upp mænuna, í heilann og þaðan í nasirnar.  Þar breytast þær í snigla en fuglarnir drepast.   Lirfurnar troða sér líka undir húð fólks, án þess að maður verði þeirra var, vegna deyfandi efna sem þær gefa frá sér.  Þetta getur leitt til kláða eða ofsakláða.  Ekki er þó önnur hætta á ferðum þar sem lirfurnar drepast þegar þær komast í snertingu við mannsblóð og af því stafar kláðinn.  Mér vitanlega hefur enginn okkar orðið var við kláða ennþá.  Annað sem við urðum varir við eftir að upp úr var komið var kuldinn, en það var næturfrost í Landmannalaugum þessa nótt.

Fjöllin í kringum Landmannalaugar eru falleg en þau eru marglit.  Ganga á þau varð að bíða betri tíma í þetta skiptið en freistandi væri að skottast upp á Bláhnjúk.  Þess í stað var haldið að Ljótapolli, sem er alls ekki svo ljótur, Landmannahelli og Rauðufossa. Þaðan var haldið í Hrafntinnusker.  Mér finnst ekkert sérstaklega fallegt þar en mikið er af fallegri hrafntinnu á víð og dreif þar.  Í Hrafntinnuskeri kom landverja hlaupandi á móti okkur og sagði okkur að við værum á vitlausum stað,  öll bílaumferð væri bönnuð þar en við höfðum aðeins fylgt bílaslóðunum þangað sem voru reyndar frekar ógreinilegir og torfarnir.   Við gerðum því eins og verjan bað og snerum frá og héldum í íshellinn sem er þar skammt frá.  Að því loknu var ekið í átt til Þórsmerkur með viðkomu við Álftavatn.  Það var svolítið önugt að þurfa að keyra niður Fljótshlíðina og niður á þjóðveg til að komast í Þórsmörk, töluvert margir kílómetrar, í stað þess að komast beint yfir Markarfljót á móts við Þórsmörk.  Það voru svangir ferðalangar sem mættu þangað, enda var tekið hraustlega til matarins, sem að þessu sinni var grillað lamb, áður en lagst var til hvíldar.

Sunnudeginum var svo varið í Þórsmörk en það er að mínu mati einn af fallegustu stöðum landsins, þrátt fyrir mikla ösku sem er yfir öllu þar.  Gengið var frá Langadal yfir í Húsadal, með viðkomu í Snorraríki.  Útilegumaðurinn Snorri er sagður hafa flúið í hellinn Snorraríki þegar hann var á flótta undan heimamönnum sem hugðust taka hann fastan fyrir að stela sauðfé af bændum í sveitinni. Héraðsmenn náðu honum ekki því Snorri varnaði þeim uppgöngu í hellinn. Hugðu þeir þá svelta hann inni. Þegar hann átti aðeins eitt læri óétið eftir, þá kastaði hann því út. Töldu menn þá einsýnt að hann ætti nógan mat og hurfu frá.

Síðan var gengið upp á Valahnjúk og svo var hin töfrandi Stakkholtsgjá heimsótt en þangað ættu allir að fara sem heimsækja Þórsmörk.  Að lokum var svo keyrt inn að Gígjökli en þar var fyrir nokkrum mánuðum mikið jökullón.  Nú er þar hins vegar ekkert annað en aska og sandur auk þess sem Gígjökull hefur minnkað til muna en það eru afleiðingar gossins í Fimmvörðuhálsi í vor og hlaupsins í Markarfljóti.

Að þessu loknu var haldið heim en þetta var ákaflega skemmtileg ferð. Langidalur í Þórsmörk var eini staðurinn í ferðinni sem ég hafði komið á áður og alltaf er gaman að koma á nýja staði og sjá eitthvað nýtt.  Í lok ferðarinnar var rætt um að fara aftur á næsta ári en ganga þá Laugaveginn sem liggur frá Landmannalaugum yfir í Þórsmörk, og jafnvel ganga Fimmvörðuhálsinn, frá Þórsmörk yfir í Skóga.  Tíminn verður að leiða í ljós hvort af því verður.

Maountain Mall í Landmannalaugum

Við Ljótapoll

Einhyrningur

Hoppað inn Stakkholtsgjá

Hér var einu sinni lón


Ný tölva?

Jæja nú hefur það gerst að blessuð tölvan mín hefur gefið upp öndina eftir að hafa þjónað mér dyggilega í sex ár.  þetta var HP Compaq 7010 og miðað við fartölvu sem mikið hefur verið notuð er þetta víst ekkert svo slæm ending.  Rafhlaðan var náttúrulega löngu ónýt og lóðningar við hana,  þar sem hleðslutækiið er sett í samband, orðnar lélegar þannig að örlítil hreyfing á l0ftinu varð til þess að slokknaði á henni.  Svo í seinni tíð tók það hana tuttugu og sjö mínútur að komast í gang sem er langur biðtími þegar tölvur eru annars vegar en það sem fór endanlega með hana var að skjárinn varð skyndilega svartur.

Nú verður maður væntanlega að fjárfesta í nýjum grip og þá er það spurning hvort það verður aftur HP eða hvort maður á að fara yfir í Dell eða jafnvel Lenovo?

Annars er bara allt gott að frétta.  Tölvuleysið háir manni örlítið við blogg, facebook skoðun og fréttalestur.  Sem er reyndar allt í lagi, og þó að að hljómi hálf súrrealískt,  þá er nefnilega hægt að finna sér nóg að gera þó að engin sé tölvan. 

Svo er greinilegt að það er að koma haust en haustið er afskaplega skemmtilegur árstími eins og reyndar allir árstímar.  Í dennn var skólabyrjun og síld það sem einkenndi haustið hjá manni en nú er það rómantíkin, þegar byrjar að skyggja á kvöldin, litir náttúrunnar, berjasulta, gæsir, smalamennska já og svo einhvern veginn róast allt með þeirri rútínu sem kemst aftur á eftir sumarfríin.  Ég hugsa nú samt að ég fari í smá sumarfrí í haust.   Enda þarf maður að njóta haustsins í næði.

images


Á Laugarvatni

Það hefur ekki enn verið mikið um sumarfrí enn sem komið er á þessum bæ, sem er náttúrulega bara rugl.  Maður lifir ekki til að vinna, heldur vinnur maður til að lifa.  Við Íris erum þó búin að taka sitt hvora vikuna í frí en það er til komið vegna frís á leikskólanum og það þarf víst að hugsa um gríslinginn.  Ætli við komumst nokkuð í betra frí fyrr en í september október.  Við náðum þó að fara á smá flakk um verslunarmannahelgina og að þessu sinni var Laugarvatn verslunarmannahelgardvalarstaðurinn.  Þar var helginni eytt ásamt góðu fólki og margt var um manninn við vatnið enda veðrið ágætt þar eins og víðast hvar á landinu.  Á laugardeginum var haldið til veiða í Hólmaá en þar var ekki neitt líf og því fórum við í það að redda bát og róa út á Apavatn.  Þar glæddist veiðin og náðum við átta vænum urriðum á tveimur tímum.  Þeir voru svo grillaðir um kvöldið og brögðuðust afskaplega vel eins og er svo algengt með það sem maður veiðir sjálfur. 

Sunnudagurinn fór fram í mestu rólegheitum og enn lék veðrið við okkur.  Á Laugarvatni, þessum stað sem hefur alið af sér fjöldann allan af íþróttakennurum, er afskaplega athyglisverð hjólhýsabyggð, en þar hefur verið hrúgað saman fjöldanum öllum af hjólhýsum, sem eru hvert ofan í öðru og reistir hafa verið pallar og útbúin bílastæði við þau.  Mjög sérstakt.  Ekki myndi ég nú hafa neinn sérstakan áhuga á að eiga svona hjólhýsi/sumarbústað, þar sem hjólhýsi eru gerð til þess að ferðast með þau og í flestum sumarbústöðum er maður útaf fyrir sig, öfugt við það sem er þarna.

Veiði

Á Laugarvatni


AC/DC

Í dag eru 30 ár liðin frá því að AC/DC gaf út plötuna Back in Black.  Þetta var ein mest spilaða platan á unglingsárunum og sennilega varð hún þess valdandi að maður varð aðdáandi þeirra og AC/DC plaköt þöktu veggina í herberginu í bland við Iron Maiden og fótboltaplaköt.  Þetta er fyrsta platan sem sveitin gerði eftir að Brian Johnson kom til liðs við þá félaga og kom hún út aðeins fimm mánuðum eftir að Bon Scott féll frá aðeins 33 ára eftir að hafa, að því er sagan segir drukknað í eigin ælu.  Það er rokkaralegt en samt er einhvern veginn ekki mikil reisn yfir slíkum dauðdaga.  AC/DC er enn í uppáhaldi þó að ekki sé eins mikið hlustað á þá nú eins og hér áður fyrr og ekki hefur maður enn látið þann draum rætast að fara á tónleika með þeim.  Kannski maður setji það á listann yfir það sem verður að gera innan fárra ára.  Svo er nú ekki úr vegi að rifja upp eitt kunnuglegt lag af þessari merku plötu:

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 3
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband