Færsluflokkur: Bloggar

Gleðidagur

Það er mikill gleðidagur í dag eftir að hafa náð þessum frábæra árangri að vinna eftirsóttustu verðlaun enskra liða.  Mínir menn áttu þetta svo sannarlega skilið en þeir spiluðu oft á tíðum frábæran fótbolta þannig að unun var á að horfa, enda skoraði liðið 103 mörk á tímabilinu sem er met í úrvalsdeildinni, auk þess sem liðið fékk fæst mörk á sig.  Þá skoruðu þeir 7 mörk eða fleiri í fjórum leikjum, unnu flesta leiki og töpuðu fæstum, áttu markahæsta leikmanninn og þann markmann sem hélt oftast hreinu.  Ekki er úr vegi að hrósa nokkrum köllum sérstaklega:

Didier Drogba:  Hefur staðið sig einstaklega vel í vetur, verið í byrjunarliði í  37 leikjum í vetur og þrisvar komið inn á sem varamaður og skorað í þessum leikjum 36 mörk, þar af 29 í deildinni og er því markahæstur, já og hann tekur ekki víti þannig að þetta er allt úr opnum leik eða aukaspyrnum nema annað markið hans í dag. Svo missti hann mánuð úr vegna Afríkukeppninnar þannig að þetta er ekki slæmur árangur.  Þá hefur verið allt annað að sjá til hans inn á vellinum en hann hefur tekið sig verulega á í vetur í því að liggja í grasinu, en augu hans opnuðust fyrir því þegar sonur hans skammaði hann fyrir að úthúða norska dómaranum Ovrebo, sem dæmdi undanúrslitaleik Chelsea og Barcelona í fyrra.  Valinn leikmaður ársins af Chelsea aðdáendum.

Frank Lampard:Það er ótrúlegt að Frank Lampard skuli ekki hafa verið valinn í lið ársins á Englandi þar sem hann hefur staðið sig best allra miðjumanna í enska boltanum og verið einn besti maður Chelsea í vetur.  Þessi hægláti Lundúnabúi hefur byrjað inn á í 45 leikjum í vetur og komið inn á sem varamaður í tveimur.  Í þessum leikjum hefur hann skorað 24 mörk, þar af 20 í deildinni eða meira en nokkur annar miðjumaður þar að auki hefur hann átt 14 stoðsendingar.

Florent Malouda:  Er sá leikmaður sem vaxið hefur mest í áliti hjá mér í vetur.  Malouda er síðasti leikmaðurinn sem Mourinho keypti til Chelsea og mér fannst hann ekki geta neitt á síðustu leiktíð en í vetur hefur hann sprungið út.  Hann hefur byrjað inná í 24 leikjum í deildinni og komið inn á í 7.  Í þessum leikjum hefur hann skorað 12 í deildinni.

Branislav Ivanovic:hefur sýnt í vetur hversu góður leikmaður hann er.  Hann er miðvörður að upplagi og spilar þá stöðu, við hlið Vidic, í serbneska landsliðinu.  Hann hefur hins vegar spilað frábærlega í stöðu hægri bakvarðar í vetur og sennilega einn besti hægri bakvörðurinn í deildinni.  Allavega var hann valinn í þá stöðu í lið ársins í deildinni.

Ashley Cole:  Alveg örugglega besti enski vinstri bakvörðurinn ef ekki sá besti í deildinni en þeir eru mjög áþekkir hann og Evra hjá Manutd.  Hann er hinn fullkomni nútíma bakvörður,  góður í að verjast en bregður sér oft og títt í sóknina enda búinn að skora 4 mörk í 24 leikjum í deildinni, sem er ágætt af bakverði að vera.

Og svo eru það vonbrigðin

Joe Cole:  Því miður hefur þessi einstaklega flinki leikmaður ekki náð sér á strik eftir meiðsli sem hann varð fyrir í fyrra.  Eflaust hefur hann þurft aðeins meiri tíma og vonandi verður hann búinn að ná sér fyrir næstu leiktíð en ég efast ekki að hann mun ná að blómstra þá.

Michael Essien:  Essien hefur ekkert getað spilað síðan í desember vegna meiðsla.  Ég er alveg klár á því að ef Essiens hefði notið við hefðum við verið búnir að tryggja okkur titilinn fyrir þó nokkru síðan.

John Obi Mikel:Svo sem engin sérstök vonbrigði, það var alveg vitað að hann væri einn slakasti leikmaður okkar. Seljann takk.

Já og verður maður ekki líka að hrósa Ancelotti, aðeins einn maður hefur áður unnið deildina á sínu fyrsta ári sem stjóri og hann heitir Jose Mourinho þannig að þetta er einstakur árangur.  Vel gert Carlo.  Svo er bara að bæta öðrum bikar í safnið um næstu helgi.
mbl.is Chelsea meistari eftir 8:0 sigur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Listaleysi

Ekki var skilað inn neinum listum fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í tæka tíð hér í sveit.  Það verður því að segjast eins og er að áhugi virðist lítill á þessum málum og ætli megi ekki túlka það sem svo að almenn ánægja ríki með þau störf sem unnin hafa verið s.l. kjörtímabil.  Allavega stígur enginn fram til þess að setja saman lista.  Hvort sem um er að kenna áhugaleysi, framtaksleysi, tímaleysi eða öðru leysi  þá stefnir allt í að kosið verði milli manna og mér þætti áhugavert að sjá svoleiðis kosningar fara fram.  Það þarf ekki að vera verra en að smala fólki á lista og jafnvel snúa upp á hendur til þess enda er það greinilegt að fáir vilja vera á lista og þeir sem vilja fara á lista vilja oftast vera neðarlega svo að þeir lendi ekki inn í sveitarstjórn.  Ég veit um fólk sem væri til í að starfa í sveitarstjórn en það vill ekki vera á lista, þannig að þetta listaleysi er alls ekki verri kostur eins og staðan er núna.  Ég fór eitt sinn í sveitarstjórn, tímabilið 1998 - 2002 og það var afar lærdómsríkt.  Það var listi skipaður fólki milli 20 - 30  ára og margt gekk vel en annað hefði maður viljað hafa öðruvísi eins og gengur en það sem mestu máli skilti var að þau stefnumál sem sett voru fram fyrir þær kosningar komust flest öll í framkvæmd.  Nú er bara að sjá hvort einhverjir taka við sér og nái að snúa upp á hendur og smala á lista áður en viku aukafrestur er liðinn til að skila inn lista.

Þingmannabollur

Nú er sumarblíða hér á bæ.  Þá er virkilega hægt að njóta þess að vinna úti.  Ekki skemmir það heldur fyrir að stöku sinnum er hægt að renna fyrir fiski og yfirleitt líður ekki á löngu þar til kominn er fiskur á krók.  oft eru það vænstu þorskar sem koma á en þeir eru yfirleitt á bilinu 3 - 8 kg.  Í gær tilkynnti ég skipstjóranum að ég ætlaði að hafa fiskibollur í kvöldmatinn og bað hann að stoppa svo ég gæti veitt þær.  Færið var varla komið í sjó þegar tveir þorskar bitu á og úr þeim voru búnar til dýrindis fiskibollur.  63 bollur fengust úr þessum tveimur fiskum, jafnmargar og þingmennirnir eru.  Þingmannabollur.  18 bollur voru hafðar í kvöldmatinn en það jafngildir þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Hreyfingarinnar.  Þær stóðu ekki í okkur.  Restin af þingmönnunum fór í kistuna.  Það er annars nóg við að vera í vinnunni, undirbúningur fyrir talningar og seiðakomur ásamt fleiri verkefnum.  Svo er ánægjulegt að sjá að lífið við höfnina er að aukast, en nú keppast smábátaeigendur við að gera bátana klára fyrir sumarið og eru nokkrir nýir bátar að bætast í hópinn. 

Múkki

tindurinn

aðgerð


Streptococcus pyogenes

Nú liggur maður heima með hálsbólgu.  Auðvitað langar mann aldrei meira út þegar ástandið er svona, ahhh hvað væri ljúft að fara út að skokka, á skíði, fjallgöngu, kafa, þrífa bílinn eða vottever.  Bara að komast út í góða veðrið.  Það er víst einhver streptókokkasýking að ganga og ætli maður hafi ekki náð sér í nokkur eintök af blessuðum streptókokkunum þó að það hafi ekki verið staðfest með testi.

Eftirfarandi einkenni geta fylgt sýkingunni:

  • Bólgnir hálskirtlar.
  • Hvítir blettir á hálskirtlum.
  • Vont að kyngja.
  • Viðkvæmir hálseitlar.
  • Bólgur á hálsi.
  • Hiti.
  • Höfuðverkur.
  • Slappleiki og vanlíðan.
  • Andremma.
  • Magaverkur, ógleði.
  • Kláði.
  • Útbrot
  • Kuldahrollur.
  • Lystarleysi.
  • Eyrnaverkur.

Ég hef orðið var stærstan hluta þessara einkenna.  Það sem veldur streptókokkasýkingu er bakterían Streptococcus pyogenes sem er kúlulaga, gram jákvæð baktería, c.a. 0.5-1.2 µm í þvermál, sem vex í löngum keðjum og veldur svokölluðum streptókokka sýkingum en bakterían veldur einnig gigtarsótt og skarlatssótt.

Talið er að tíminn frá smiti og þar til einkenni koma í ljós séu yfirleitt tveir til fimm dagar en getur farið upp í átta.  Hálsbólga af völdum Streptococcus pyogenes smitast með snertingu við smitaðan einstakling. Ef sýkingin lagast ekki af sjálfu sér er hægt að fara á tíu daga pensilín kúr en ekki er hægt að láta bólusetja sig gegn Streptococcus pyogenes.  Ætli ég prófi ekki bara Viský, ég held að það sé ágætis vopn í baráttunni við þessa litlu djöfla, hella þá bara fulla, allavega er það þess virði að prófa, manni líður allavega aðeins betur af því. 

Streptococcus pyogenes


Dekk

Það fer sennilega ekki fram hjá þeim sem eiga bifreið að hjólbarðaverð hefur hækkað eins og svo margt annað.  Ég hef farið inn á þó nokkrar vefsíður fyrirtækja sem gefa sig út fyrir að veita hjólbarðaþjónustu til þess að skoða dekk og bera saman verð.  En það er ekki hægt.  Hvergi eru gefin upp verð á dekkjum.  Af hverju ekki?  Er það ekki hluti af þjónustunni?  Eru menn hræddir við samkeppni eða hvað er í gangi?  Auðvitað er hægt að senda inn fyrirspurnir og auðvitað er líka hægt að hringja en einhvern veginn finnst manni ekki að dekkjaverð eigi að þurfa að vera eitthvað leyndarmál sem ekki má birta á vefnum, það er margt sem er birt á netinu sem manni finnst alls ekki að ætti að birta.  Af hverju samt ekki dekkjaverð?

Guð er hugtak

Ef ég hefði verið spurður um tvítugt hvort ég væri trúaður hefði ég örugglega sagt nei.  Ef hefðu verið til samtök þá sem hétu vantrú hefði ég mjög líklega skráð mig í þau.  Ef ég hefði vitað um tilvist ásatrúarfélagsins þá, hefði alvarlega hugsað um að skrá mig í þau.  Mér fannst svo margt fáránlegt í kristinni trú auk þess sem í manni blundaði uppreisnargirni (það er ekki svona girni til að veiða með).  Að á himnum sæti gamall gráhærður öldungur, að maður hefði gengið á vatni, að maður hefði gefið blindum sýn, að maður hefði breytt vatni í vín, ofurdýrkun á æðri máttarvöld, stríð í nafni trúarinnar o.s.frv. fannst manni alveg út í hött og þykir reyndar ennþá. 

Eftir því sem árin hafa liðið hefur viðhorfið breyst þó að seint verði ég talinn trúrækinn.  Í mínum huga snýst ekki trúin um þetta sem talið var upp hér að framan.  Í rauninni snýst trúin, hvort sem hún er kristin, hindúa, Búdda, Múhameðs eða eitthvað annað, aðeins um eitt grundvallaratriði.  Kærleik.  Að sýna þeim sem maður umgengst kærleik t.d. með því að hjálpa, með því að vera heiðarlegur gagnvart sjálfum sér og þeim sem maður umgengst, með því að sýna öðrum manneskjum virðingu og fleira í þessum dúr.  Í mínum huga er trúin sem sagt lífsmottó frekar en guðadýrkun eða trú á bókstafi.  En ef trú, sama hvaða tegundar hún er, snýst a mestu um kærleika af hverju velur maður sér þá ekki alveg eins Búdda eða Múhameð?  Ég vel mér kristna trú og Íslensku þjóðkirkjuna af því að það er miklu einfaldara að skreppa upp í kirkju til þess að rækta sína trú eða sinna trúarlegum athöfnum heldur en að þurfa að leita eitthvað lengra, jafnvel til Mekka eða Indlands.


Að lokinni Hammond hátíð

Jájá börnin góð, þá er Hammond hátíð að baki og hægt er að segja að hún vaxi frá ári til árs.  Hátíðin í fyrra var góð og þessi enn betri.  Góður stígandi var í hátíðinni sem byrjaði frekar rólyndislega á fimmtudag, aðeins meiri keyrsla á föstudag og svo var punkturinn settur yfir iið á laugardag þegar Hjálmar mættu á svæðið í troðfullt Hótelið og stemmingin eins og best verður á kosið og eiginlega ólýsanleg.  Jú had tú bí ðer. 

Maður getur farið að láta sig hlakka til næstu hátíðar sem verður að ári en ekkert hefur enn verið ákveðið hverjir koma þá til að spila.  Hins vegar er það að verða eftirsóttara að spila hér á hátíðinni og án efa verða það góðir gestir sem koma á næsta ári en þess má geta að í gær var haft samband frá stóru bandi og óskað eftir að fá að spila hér á næstu hátíð.

Við fengum eins og svo margir bæjarbúar, góða gesti, sem var einstaklega ánægjulegt

Mestu andstæðurnar:  Bassaleikarinn í hjálmum og bassaleikarinn í 56 riffs (Þorleifur Guðjónsson).  Annar var álíka hreyfanlegur á sviðinu og Rakkabergið, hinn var eins og Íþróttaálfurinn.

Bestu tilþrifin:  Björgvin Gíslason.  Ég held að hann sé ekki skyldur Ingibjörgu Sólrúnu þó að þau séu lík,  hann er sennilega frekar skyldur Þvottakínverjanum í Lukku Láka:

Helsta uppgötvunin:  Margrét Guðrúnardóttir.  Dóttir Ásgeirs Óskarssonar, hörku söngkona, píanóleikari og lagasmiður, það hlýtur að eiga eftir að heyrast meira í henni í framtíðinni.

Hápunktur hátíðarinnar:  Kindin Einar.

Ég er ekki enn búinn að setja inn myndbandsupptökur frá hátíðinni en það er eitthvað komið inn á síðu tónleikafélagsins á Facebook.

Hins vega ætla ég að setja inn myndband með nýju lagi Elízu Geirsdóttur Newman, en það var hringt í hana frá sjónvarpsstöðinni Al-Jazzeera og hún beðin að skýra út hvernig ætti að bera fram nafnið Eyjafjallajökull.  Hún gerði það með því að semja lag um það og það varð strax mest skoðaða efnið í netútgáfu sjónvarpsstöðvarinnar auk þess sem það fer eins og eldur í sinu um heiminn á Youtube.  Síðan var hringt í hana daginn eftir að þetta kom og henni boðin útgáfusamningur.  Þetta er ævintýri líkast og gott að einhver græðir á þessu gosi en það ber vott um markaðslega kænsku að gefa út lag um gosið en mér skilst að  eitthvað hafi verið fjallað um það utan landsteina Íslands.


Aumingja Ólafur

Aumingja Ólafur.  Þegar hann opnar munninn verður allt vitlaust.  Það er vandlifað í þessum heimi.  Fólk hefur haldið því fram að það sé afskaplega bagalegt að hann hafi sagt frá því að Katla muni gjósa einhvern tímann í framtíðinni. Hann sé ekki jarðfræðingur og eigi af þeim sökum ekki að tjá sig um þetta.  Þetta er nú samt eitthvað sem jarðfræðingar eru búnir að vera að tala um að undanförnu og hefur verið í fréttum á fleiri en einni sjónvarpsstöð í heiminum.  Það er líka hjákátlegt að gagnrýna fólk fyrir að tjá sig um málefni sem það hefur ekki háskólagráðu í.  Svo hefur forysta ferðamálasamtakanna gagnrýnt hann og segja að hann sé að vinna gegn sér.  Enginn reiknar með að Kötlugos verði svokallað túristagos en eins og staðan er núna gæti ferðaiðnaðurinn kannski sér tækifærin sem felast í eldgosunum og umfjölluninni.   Það er samt alltaf nóg um úrtöluraddirnar og gagnrýnina.  Hrakspár eins þessi, að Katla muni gjósa virðast ekki eiga upp á pallborðið hjá öllum,  en það áttu reyndar ekki hrakspár árið 2007 um efnahagshrun heldur.

Í hraun og ösku

Byrjaði daginn í sumarblíðu í sól og logni, sem var gott,  þar sem verið var að setja stýri undir Sigurrós á fjörunni.

Endaði daginn í vetrarveðril roki og snjókomu, þar sem Sigurrós var færð úr fjörunni að bryggju, ferðalag sem varð spennandi af því að stýrisblöðin voru laus og hún lét illa að stjórn í vindinum með fjöru og grjót á aðra hönd og smábáta á hina.  Allt tókst þetta nú að lokum.  Sem var gott.

andlit

Mögnuð þessi mynd af gígunum í Eyjafjallajökli.  Andlit djöfulsins.  Þetta er svo sem ekki eina tengingin við kölska en víða hefur mátt sjá eftirfarandi texta:

Vitið þið af hverju eldgos eru svona algeng á Íslandi?  Það er verið að búa til pláss í helvíti handa þeim sem eru ábyrgir fyrir bankahruninu.  Það var meira að segja gert hlé í nokkra daga til þess að skoða Rannsóknarskýrsluna svo að hægt væri að áætla hvað þyrfti mikið pláss.

Og þennan:

Fréttir herma að hið látna íslenska hagkerfi hafi átt þá síðustu ósk að öskunni verði dreift yfir Evrópu

Svo í framhaldi af þessu er talað um að af því að íslenska stafrófið inniheldur ekki C þá hafi menn ruglast, þegar Bretarnir báðu um cash þá var það misskilið og þeir fengu ash.  Ætli þeir rukki okkur ekki bara um kolefnisgjald í staðinn en því er haldið fram að mun meira CO2 hafi farið út í andrúmsloftið en t.d. flugvélarnar hefðu gert, hefðu þær flogið síðustu daga.

Svo er gaman að segja frá því að ASHley cole mætir aftur í slaginn með Chelsea á morgun. Sem er gott.

Ég var með nokkur lög í huga til að setja hér inn í tilefni gosss.

Ash - burn baby burn, Miniature tigers - Tell it to the volcano, Deep Purple - smoke on the water, David Bowie - Ashes to ashes

En að sjálfsögðu varð svo Hraun fyrir valinu. Sem er gott.


Athyglisvert myndband

Svona í tilefni þess að páskarnir eru að koma er ekki úr vegi að setja eitt hressandi íslenskt popplag hér inn.  Þetta er hinn eini sanni Berndsen sem gaf út plötuna Lover in the dark fyrir síðustu jól.  Þeir sem eru hrifnir af eighties tónlist ættu að hafa gaman af þessu en þó að þetta lag sé ágætt finnst mér myndbandið (sem ég held að sé tekið upp í Krýsuvík) eiginlega enn athyglisverðara og ekki kannski beint í samræmi við hressandi lagið.  Gleðilega páska.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 66440

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband