Færsluflokkur: Bloggar

Ganga

Ég skrapp í ágætis göngutúr í gær.  Fyrst var ekið inn Geithellnadal og inn að Hvannavöllum en þar hófst gangan um kl hálf níu og gengið var yfir í Hofsdal, inn í stafn og svo út Hofsdalinn en göngunni lauk um kl hálf sjö.  Veðrið var ágætt, bjart, frost og smá norðangola.

Hér eru nokkrar myndir úr ferðalaginu, verst þykir mér þó að hafa ekki náð mynd af refnum sem gægðist upp fyrir stein rétt fyrir framan mig, skjannahvítur með stórt skott.

Sunnutindur (1158m ) gengur fram úr Þrándarjökli í Geithellnadal:

Sunnutindur 

 Horft yfir Buga og Flötufjöll,  Geithellnadalur vinstra megin, Hofsdalur hægra megin:

Flötufjöll og dalir

 Horft út Hofsdal, Tungan fyrir miðri mynd.

Frá Hrossahjalla út Hofsdal

 Sólin að koma upp yfir Hofsdalnum:

Sólin í Hofsdal

Séð inn í stafn á Hofsdal þar sem upptök Hofsár eru og Hofsjökullinn á að vera vinstra megin:

Hofsjökull

 

 


Hlaup

Ég geri mér það stundum til gamans að reima á mig hlaupaskó og hlaupa í 30 - 60  mínútur en ég tók upp á þessari áráttu fyrir nokkrum árum síðan.  Já ég sagði til gamans.  Áður en ég tók upp á þessum hlaupum leit ég á svona hlaup sem hreina kvöl, enda eru minningar mínar frá undirbúningstímabilum fótboltans tengdar langhlaupum í hríðarbil en fyrir mér var það eitthvað sem fótbolti átti alls ekki að snúast um.  Nú hef ég gaman að því að hlaupa en kannski hefur maður bara útvíkkað hugtakið "gaman".  Yfirleitt er gaman tengt við Verslunarmannahelgi (eh já, eða bara helgi), sumarfrí, horfa á vídeó, rúnta, fótbolta,  sveifla sér í köðlum og annað í þeim dúr.  Ekki er hægt að neita því að flokka má ýmislegt annað sem gaman og tengist hlaupum eins og að vakna kl 6 til að ná að taka eitt hlaup, hlaupa með vindinn í fangið og láta rigninguna lemja sig í andlitið, finnast lungun vera að springa, blöðrur á fótunum og annað slíkt.  Ef þú ert enn í vafa um hvort þetta sé skemmtilegt, hvað gerist ef barn, já eða ef við skoðum gruneðlið enn frekar, hundi er sleppt lausum þar sem er nóg pláss?  Barnið eða hundurinn fer að hlaupa.  Þetta er skemmtilegt.  Enda á maður bara að haga hlaupinu þannig að maður njóti þess. Hvað sem öðru líður, þá eru hlaup og skokk afskaplega hressandi, bæði fyrir líkama og sál.  Kosturinn við hreyfingu af þessu tagi er að maður stjórnar sér algjörlega sjálfur,  bæði hraðanum, vegalengdinni og hversu oft maður fer.  Ef maður er illa upplagður fer maður bara hægar og eða styttra en samt reynir maður náttúrulega að fara oftar en sjaldnar.

Sumir reyna reyndar að halda því fram að skokk sé eitthvað nördalegt en hvaða íþrótt er það ekki?  Ég man ekki eftir neinni.  Hins vegar getur það litið  nokkuð einmanalega út að hlaupa einn dag eftir dag.  Það hefur allavega blessaðri sauðkindinni fundist sem fór að elta mig um daginn.  Hún tók sig út úr kindahóp og elti mig  í svona hálfan kílómetra.  Mér leið hálf asnalega, sem betur fer sá enginn til mín með kindina á hælunum.  Sennilega hefur hún verið einmana líka og litið á mig sem álitlegan félagsskap.

Í dag þurfti ég samt ekki að hlaupa einn en ég var plataður upp í Egilsstaði til að taka þátt í 10 km hlaupi.  Það var góð tilbreyting að hlaupa innan um fólk en um 20 manns tóku þátt og ég var einhversstaðar í miðjunni á heldur betri tíma en ég hafði þorað að vonast eftir og var bara nokkuð sáttur við það.  Að loknu hlaupi fór svo stór hluti hlauparanna í pottinn til að slaka á eftir átökin.  Ætli maður verði ekki að vera duglegur að hlaupa meira næstu vikurnar en það verður aftur hlaupið á Egilsstöðum eftir mánuð og þá er ekki hægt annað en að reyna að bæta tímann.  Fyrst er það nú samt Þorrablót.


Spjaldfiskur

Það er búið að standa til í nokkurn tíma að prófa að leggja línu í Berufirðinum og nú er loksins búið að láta verða af því.  Þegar búið var að redda tveimur línum og beitu var Sigvaldi í Dvergasteini fenginn í að beita, síðan var línunum komið fyrir um borð í Sigurrós og að loknum hefðbundnum störfum í fyrradag var línan látin fara á heimleiðinni í blíðskaparveðri.  Í morgun var svo kominn strekkingsvindur og frost en þá var farið inn í fjörð að draga.  Með í för var beitningamaðurinn.  Veiðin var ekki upp á mara fiska en allir höfðum við ánægju af þessu og allir fengu í soðið en þorskur, ýsa og koli komu upp úr krafsinu.  Ætli verði ekki reynt aftur með hækkandi sól.  Annars má fyljgast með aðförunum hér á þessum myndbandsstúf.  Sjómannavals hljómar undir í boði Luther Wright and the wrongs.


The thin ice

Stundum bölvar maður sjálfum sér í sand og ösku.  Eins og í gær í vinnunni fyrir að taka ekki með myndavél.  Blankalogn og sólskin og fjörðurinn ísi lagður. Kjörið myndefni.  Þau ár sem ég hef verið að þvælast um Berufjörðinn hef ég ekki séð jafn mikinn lagnaðarís en hann náði frá botni fjarðarins, stranda á milli og út fyrir Svartasker þar sem hann var reyndar orðinn að hraungli.  Þar sem hann var þykkastur var hann 10 mm og því hefði verið slæmt að vera á trébát eða plastbát en í fínu lagi fyrir stálbát.  Aðstæður fyrir lagnaðarísmyndun voru búnar að vera fyrsta flokks, töluverð rigning í nokkra daga, þannig að ferskvatnslag myndast efst í sjónum, og svo frost og logn í tvo daga auk þess sem sjórinn hefur kólnað hratt síðustu vikurnar og er nú í tveimur gráðum sem er heldur lægra en á sama tíma síðustu fjögur ár.  Sunnan áttin sem fylgdi svo í kjölfarið eyddi svo þeim ís sem hafði myndast.  Héðan í frá verður myndavélin alltaf með í för.

Jú eint sín noþþing jet

Þessi vinsæli frasi kemur þessu bloggi ekkert við, þetta er bara svo skemmtilegur frasi.

Eftir þann lengsta frostakafla sem komið hefur hér um slóðir í a.m.k. 10 ár hefur nú hlýnað á ný og síðustu vikuna hefur veðrið leikið við okkur en það er afar hentugt þegar vinnan er háð veðri og vindum.  Reyndar var ég ekki svo háður vindunum og veðrinu í vikunni þar sem hún einkenndist af fundastandi.  Fyrst var fundur í Menningarráði Austurlands þar sem umfjöllunarefnið var styrkir til menningarstarfsemi á Austurlandi.  Eins og annarsstaðar er minna til af peningum hjá Menningarráðinu en þó eru einhverjar krónur til skiptanna.  Það er athyglisvert hversu mikið er af góðum tónleikum sem hafa fest sig í sessi hér á Austurlandi og kannski væri hægt að tengja þá saman með einhverjum hætti.  Tónleikarnir sem ég man eftir í svipinn eru Hammond hátíð, Norðurljósablús, Jazzhátíð, Bræðslan, Eistnaflug, Rokkveisla Brján og fleiri, en þá eru ekki upp taldir þeir tónleikar þar sem klassísk tónlist er flutt.  Það er því hægt að þræða tónleika á Austurlandi á hverju ári.

Að loknum menningarfundi var brunað til höfuðborgarinnar til þess að funda vegna vinnunnar.  Farið var yfir stöðuna og reynt að skyggnast inn í framtíðina.  Áframhaldandi uppbygging eldisdeildarinnar er framundan og spennandi verður að takast á við þau verkefni sem því fylgja.

Að loknum fundum var svo haldið austur en þó var ég ekki einn á ferð þar sem Telma ákvað að flytja austur.  Þetta er stór ákvörðun hjá henni og mikil breyting fyrir alla en vonandi mun þetta ganga vel hjá henni.  Til gamans læt ég svo fylgja eitt stykki myndband sem Telma gerði þar sem hún syngur lagið Love Story.


Plötur ársins

Það er  til siðs hjá mörgum að velja 10 bestu plötur hvers árs um áramót.  Ég er búinn að velja mér þær 10 plötur sem mér fannst skara fram úr á árinu.  Auðvitað er þetta alltaf umdeilanlegt og fer eftir smekk auk þess sem fullt af góðum plötum fer fram hjá manni.  Plötunum er ekki raðað í neina sérstaka röð, þetta er bara pakki með 10 góðum.

Arctic Monkeys - Humbug:  Það er bara eitthvað við Arctic monkeys sem er svo heillandi.

Muse - The resistance:  Matt Bellamy er einfaldlega snillingur og þessi plata gefur fyrri Muse plötum ekkert eftir en þær hafa allar verið í miklu uppáhaldi hjá mér auk þess sem þremenningarnir í Muse eru sennilega orðin stærsta hljómsveit í heimi um þessar mundir.

Miniature tigers - Tell it to the volcano: Sú plata sem var í mestu uppáhaldi hjá mér á árinu og ég myndi setja hana númer eitt á þennan lista.  Hér fyrir neðan er eitt jútjúb sýnishorn.

Eels - Hombre lobo: E er snillingur, einfaldlega frábær plata.

Dead weather - Horehound:  Ég hef ekki hlustað oft á hana en Jack White og félagar ná algjörlega til mín á þessari plötu.

Wilco - Wilco (the album): Það er mikið búið að hlusta á þessa í sumar en hún var kjörin besta plata ársins á Rás 2.

Lady Gaga - The fame monster:  Það er ekki hægt að neita því að Lady Gaga er ein mesta poppstjarnan í dag og það er að stórum hluta þessari plötu að þakka.

Green day - 21st century breakdown:  Ekkert bull, einfalt rokk og ról, einhvern tímann hefði þetta flokkast sem pönk en það er ákveðinn samhljómur með Green day og t.d. The Clash.

U2 - No line on the horizon:  Mér finnst þessi nú bara með þeim betri frá U2 en það eru ekki allir sammála því, og ég viðurkenni að Unforgettable fire, Rattle and Hum og Achtung baby voru betri.  Lenti í þriðja sæti í Rásar2 kosningunni.

Phoenix - Wolfgang Amadeus Phoenix: Ég hlustaði mikið á þessa í sumar. Fínasta popp.

Þessir komu líka sterklega til greina en rétt misstu af þeim heiðri að fá að komast inn á listann: Richard Hawley, The Ettes, El Perro del mar, Pastels/Tenniscoats, Týr, Madness, Weezer, Grizzly bear, St Vincent, Pearl Jam, Girls, Yeah yeah yeahs, Bat for lashes, Florence and the machine.

Í kosningu Rásar 2 um bestu íslensku plötu ársins 2009 var platan Hjálmar IV og ég get tekið undir það en það sem kom mér mest á óvart í þeirri kosningu var að plata Emiliönu Torrini, Me and Armini komst ekki inn á topp 20.  Annars hef ég ekki hlustað nægilega mikið á íslenska tónlist undanfarna mánuði og úr því þarf að bæta.  Það eru t.d. nokkrar plötur á Rásar2 listanum sem vekja áhuga minn t.d. með Múm og Árstíðum.


Björgun

Það er erfitt að gera sér í hugarlund þær aðstæður sem unnið er við þarna á Haiti en íslendingarnir eiga hrós skilið fyrir störf sín.  Vonandi muna  sem flestir það þegar flugeldar verða keyptir næst.

Annars rakst ég á þetta myndband á Youtube en þar er um að ræða frétt frá AP fréttastofunni þar sem Íslenska björgunarsveitin sést bjarga Haitískri konu. 


mbl.is Alltaf von um að finna fólk á lífi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjöllin eru gay

Vá,  ekkert blogg komið hér inn síðan í fyrra. Gleðilegt ár.  Síðasta ár var alveg stórfínt, efnahagskreppa, aflabrestur, farsótt og landinu stjórnað af apaköttum.  Nú vantar bara að það komi hafís (hann er um 50 km frá Vestfjörðum núna þannig að það er enn möguleiki) og að það verði náttúruhamfarir eins og eldgos.  Þá væri óáran okkar íslendinga fullkomnað. Kannski væri það nú samt fínt að fá eldgos, þá fengjum við e.t.v. einhverja jákvæða athygli.

Nú er búið að ákveða að gera þetta ár einstaklega gott og svo er bara að láta það ganga eftir.  Eftir að krakkarnir fóru aftur til Grindavíkur er búin að vera einmuna blíða hér á bæ og síðustu daga hefur útivinnan verið einstaklega hressandi en í morgunroðanum verður fjallahringurinn bleikur.  Dáldið gay.

frá bryggjunni

 


Myndbönd á youtube

Þegar ég byrjaði með þetta blog ætlaði ég að vera duglegur að setja inn myndbönd, þannig að þetta yrði blanda af blog og vlog.  Nokkur myndbönd fóru inn fyrstu mánuðina en svo hef ég upp á síðakastið ekki verið nægilega duglegur við að setja inn myndbönd.  Aftur á móti er ég með youtube síðu og það er nokkuð gaman að fylgjast með gangi mála þar.  hér eru þrjú mest skoðuðu myndböndin sem ég hef sett inn þar:

 Nr 1:  Æfingaferð í Fossárdal í jánúar 2009 (Tómt bras við að koma sér inn dalinn, affelgað á tveimur, fastur í drullupytti en engu að síður mjög skemmtileg ferð).  Mest skoðaða myndbandið mitt, en það hefur verið skoðað 3850 sinnum þann 30. des 2009.

Nr 2:  Emilíana Torrini og Megas syngja dúett, hið yndislega lag, Tvær stjörnur, þar sem ást og dauði er umfjöllunarefni.  Hljómgæðin eru frekar lök en þrátt fyrir það er þetta næst mest skoðaða myndbandið mitt.

Nr 3: Skarfur gleypir marhnút í heilu lagi.  Nokkuð merkilegt að þetta ómerkilega myndband sé í þriðja sæti yfir mest skoðuðu myndböndin mín.

Vonandi koma svo fleiri myndbnd þarna inn með tíð og tíma.


Pants Yell! og jólin

Eitt agnarlítið tríó frá Boston er allrar athygli vert, en það heitir Pants Yell!  Tríó þetta var einmitt að senda frá sér sína fjórðu plötu sem heitir "Received pronunciation".  Það sem eftir stendur eftir hlustun á henni, er minimalismi, en lögin eru stutt og einföld, aðeins níu talsins þannig að heildarlengd plötunnar er 26 mínútur.  Það að platan sé svona stutt þýðir, að ekki er pláss fyrir mikið annað en það allra nauðsynlegasta, engin löng gítarsóló, engar langar og tilfinninganæmar ballöður, engir auka millikaflar, ekkert auka textablaður.  Þetta þýðir ekki að á plötunni sé ekki komið víða við þar sem fjallað er um kulnaða ást (cold hands), hroðalegur fúkyrðaflaumur (got to stop),  kærasta vinkonu hans sem er fáviti (someone loves you), og nostalgíu í einu ballöðunni (not wrong).  Lögin hjá þeim eru fín og þau bestu eru Cold hands, Someone loves you, og Frank and Sandy en eftir að hafa hlustað á öll níu lögin vildi maður eiginlega að þau hefðu verið aðeins fleiri.

 

Annars voru jólin hjá mér svona:

Aðfangadagur:

Éta.

Pakkaupptaka.

Éta.

 

Jóladagur:

Éta.

Gönutúr.

Éta.

Skauta.

Éta.

Horfa á sjónvarp.

Éta.

 

Annar í jólum:

Éta.

Lesa.

Éta.

Spila fótbolta.

Éta.

Horfa á sjónvarp.

Éta.

Lesa.

Éta.

 

Þriðji í jólum:

Éta.

Telja fugla.

Sækja krakka.

Éta.

Bless.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 8
  • Frá upphafi: 66440

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 7
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband