Fornleifaskoðun

Í dag ákvað ég að fara í fornleifaskoðun enda er af nógu að taka hér á Orkneyjum og ef til vill er hægt að líta á Orkneyjar sem nirvana fornleifafræðinga og þrátt fyrir næstum tveggja ára dvöl hér og að margur fornleifaskoðunartúrinn hafi verið farinn hef ég ekki skoðað allar þær fornminjar sem hér eru.

Fyrst varð á vegi mínum hér í Kirkwall neðanjarðarbyrgi sem nefnt er Grain Earth House.  Neðanjarðarbyrgi þetta, sem er væntanlega um 3000 ára gamalt, hefur líklega verið notað sem geymsla.  Byrgið var lokað og því komst ég ekki niður í það að þessu sinni en ég var ekkert eyðilagður yfir því af því að annað svipað byrgi var á forleifaskoðunardagskrá dagsins. 

Ég hélt  því áfram og stoppaði næst við Tormiston Mill sem er vatnsmylla frá 19. öld notuð til þess að mala korn.  Hægt er að ganga um og skoða allar þrjár hæðirnar í mylluhúsinu og þar er lítið að sjá, en þar er líka minjagripaverslun og miðasala fyrir Maeshowe sem er 5000 ára grafhýsi sem er þannig úr garði gert að í nokkra daga á ári, í kring um vetrarsólstöður, lýsir sólin allt grafhýsið upp  í gegnum innganginn.  Ég hef séð önnur grafhýsi hér frá þessum tíma og þar sem aðgangseyririnn var 5,5 pund var ég fljótur að koma mér í burt.  Ég hefði samt átt að athuga málið betur, kannski var matur og skemmtiatriði innifalið í verðinu og jafnvel ball á eftir, hver veit. 

Alavega hélt ég áfram en skammt frá er Unstan chambered cairn sem er annað grafhýsi, töluvert minna en álíka gamalt og Maeshowe og það sem var best, þar þurfti ekki að borga til þess að komast inn.   Til þess að komast þangað þarf að keyra í gegnum hlaðið á sveitabæ og leggja bílnum í hlaðinu þannig að maður hefur það hálfpartinn á tilfinningunni að maður sé að þvælast um á prívat eign heimilisfólksins og að maður eigi ekki að vera þar og trufla heimilisfriðinn.  Ég gekk að grafhýsinu og leit nokkrum sinnum um öxl til þess að fullvissa mig um að öskureiður bóndi með hlaðna haglabyssu væri ekki á hælunum á mér.   Veggirnir í grafhýsinu eru hlaðnir og meðfram þeim eru útskot sem voru ætluð fyrir látið fólk en mannabein fundust þar þegar grafhýsið fannst. 

Frá Unstan chambered cairn lá leiðin til Corrigall farm museum og það var eiginlega skemmtilegasta heimsókn dagsins enda var hægt að labba um og sjá eitthvað.  Vegurinn þangað var mjög svo hlykkjóttur og líklegasta skýringin er sú að þeir sem lögðu hann hafi ekki horft fram fyrir sig til þess að athuga hvert þeir ættu að fara, heldur bara sturtað efninu í veginn án þess að hugsa um afleiðingarnar. Ég nálgaðist staðinn af töluverðri varúð enda var ég ekki viss um hvort krafist væri aðgangseyris en þegar ég kom auga á skilti þar sem skrifað var á “free admission” sá ég að öllu var óhætt að því undanskildu að bitmý sveimaði um allt þarna.  Á Corrigall farm museum er hægt að ganga um gamlan Orkneyskan sveitabæ þar sem þau tól og tæki sem notuð voru á 19. öldinni.  Bærinn samanstendur af gripahúsi, smiðju og íbúðarhúsi.  Í öðrum enda íbúðarhússins eru vistarverur og í hinum hluta hússins hefur matur verið geymdur og unninn.  Þegar komið var inn í setustofuna lagði notalega lykt fyrir vitin þar sem mór var brenndur í arninum og þar fyrir ofan logaði á kolu.  

DSC_0014 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Corrigall Farm Museum

Frá Corrigall fór ég yfir til Barnhouse village, sem eru rústir 5000 ára gamals þorps sem stendur  á milli steinhringjanna frægu, Brúargarðsbaugsins og Steinnessteinanna.  Það er svo sem ekki mikið að sjá nema grunn og útlínur þeirra bygginga sem þarna voru en talið er að í því stærsta þeirra hafi farið einhverjar trúarathafnir fram. Það er líka talið að íbúarnir hafi þekkt vel til steinhringanna fyrrnefndu.

DSC_0042 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Barnhouse village

Fornleifaskoðunarferðinni lauk með skoðun á Rennibister Earth House sem er svipað neðanjarðarbyrgi og það sem ég ætlaði að skoða í upphafið fornleifaskoðunarferðarinnar.  Til þess að komast að byrginu þarf að leggja bílnum um 200 metra frá sveitabæ og labba niður heimreiðina, framhjá beljum með renniskitu sem hafa ekki hugmynd um að þær verða fljótlega að hamborgurum í brauði, þangað til er komið í bæjarhlaðið þar sem jarðhýsið er.  Byrgið, sem er um 3000 ára gamalt,  fannst fyrir tilviljun árið 1926 þegar þreskivél hrundi niður í það.  Þar voru þá líkamsleifar af 18 manneskjum, þar af 12 barna.  Talið er að byrgin hafi gegnt ýmsum hlutverkum, sem geymsla, híbýli, grafhýsi og fleira.  Þetta var hinn ágætasti dagur og þrátt fyrir að ég sé búinn að skoða helstu fornminjar Orkneyja síðustu mánuði, þá er töluvert eftir enn.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 5
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband