Tækifærin eru handan við hornið

Í gær birtu Norðmenn tölur úr sínum sjávarútvegi.  Þar kom fram að útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 107,3 milljörðum NOK sem jafngildir 1498 milljörðum íslenskra króna.  Þar af var lax 72,5 milljarðar NOK eða rúmir þúsund milljarðar ISK og magnið var um 1,1 milljón tonna.  Verðmætið jókst um 7% milli ára og skýrist það m.a. af aukinni eftirspurn t.d. frá Kína og reiknað er með að eftirspurn eftir laxi aukist enn frekar á þessu ári.  Aukinheldur er því spáð að framleiðsla norðmanna muni tvöfaldast næstu 30 árin eða svo. 

Við Íslendingar eigum svo sannarlega mörg ónýtt tækifæri í laxeldi og þó að við munum ekki komast með tærnar þar sem Norðmenn hafa hælana ættum við auðveldlega að geta farið yfir 100.000 tonna framleiðslu innan fárra ára.  Nú er lag.  Ef Hafrannsóknarstofnun og pólitíkusar standa ekki í vegi fyrir uppbygginu er framtíðin björt fyrir greinina.  Er laxeldið ekki einmitt það sem við þurfum?


mbl.is Eldið gæti náð 25 milljörðum króna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofveiði??

Samkvæmt þessu er hætta á ofveiði í íslenskum laxveiðiám.  Ef til vill er kominn tími á veiðistjórnun í laxveiði eins og gert er með eveiðar á öðrum villtum dýrum á Íslandi, hvort sem um er að ræða hefðbundnar fiskveiðar, fuglaveiðar eða veiðar á villtum spendýrum.  Kannski væri besta leiðin til að vernda íslenska laxinn að draga úr veiðum eða stöðva þær tímabundið og auðvitað að draga úr seiðasleppingum en þær veikja jú náttúrulegu stofnana þó að fjöldinn aukist.

Þá er veiða sleppa aðferðin afar umdeild en samkvæmt heimildum sérgreinadýralæknis hjá Matvælastofnun þá deyja 30 prósent fiska sem veiddir eru og sleppt aftur innan sjö til tíu daga auk þess sem dýravelferðarsjónarmið eru ekki höfð til hliðsjónar þegar sú aðferð er brúkuð.

Gallinn við að stöðva veiðarnar er hins vegar sá að þá minnka þær tekjur sem renna inn á reikninga félaga eins og Dylan Holding á Tortóla.


mbl.is Hafró hvetur til hófsemi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vestfirðingar og austfirðingar beittir ofbeldi af hálfu stjórnvalda.

Vegna formgalla í afgreiðslu þeirra stofnana sem fjalla um málið blasir nú við atvinnuleysi, gjaldþrot og fólksflótti frá Vestfjörðum nema að skynsemin fái að ráða og ríkisstjórn og alþingi taki í taumana.  Það er með líkindum að líf hundruða fjölskyldna sé sett úr skorðum af því að fyrirtækin sem það vinnur hjá voru ekki beðin að segja hvað þau ætluðu ekki að gera.  Úrskurðarnefndin virðist heldur ekki hafa leitað sérstakrar ráðgjafar  við þessa ákvörðun, ekki haft samráð við þær stofnanir sem um ræðir og svo vekur það líka grunsemdir að úrskurðurinn er sambærilegur ályktun Landverndar.  Er það tilviljun að hún var gerð þegar núverandi umhverfisráðherra var framkvæmdastjóri þar? 

Það sem um er að ræða er sem sagt eldi á geldfiski, eldi í lokuðum kerfum og landeldi.  Ekkert af þessu er komið nægilega langt í þróun til þess að raunhæft sé að byggja það upp en fyrirtækin hafa hafið starfsemi en ætla ekki að byggja upp starfsemina eftir 20 – 30  ár. 

Landeldi krefst mikils landrýmis og gríðarlegrar orku þannig að við þyrftum að byggja stórar virkjanir til að ráða við  það.  Þá er áhættan miklu meiri af því að lítið má út af bera til þess að massadauði verði eins og dæmin sanna.  Um 0,1% af laxi sem framleiddur er í heiminum í dag er alinn á landi og ef landeldi nær að ryðja sér til rúms í framtíðinni verður það líklega í Kína eða nær helstu mörkuðunum.  Sjókvíaeldi er hinsvegar raunhæfur kostur hér þar sem náttúrulegar aðstæður eru góðar.

Sama sagan er með lokuð kerfi.  Miklar tilraunir hafa verið í gangi með þær en engin lausn hefur enn komið fram sem hægt er að stóla á.  Þá eru dæmi um það að laxalús verði miklu stærra vandamál í lokuðu kerfunum ef lúsin kemst inn. 

Geldfiskur er enn í þróun og á mörg ár eftir þar til hann getur talist raunhæfur kostur en eflaust munu eldisfyrirtækin taka honum fagnandi ef tekst að þróa hann.

Það er kaldhæðni örlaganna að þetta gerist nú á afmæli hins svokallaða bankahruns en nú er annað hrun framundan á landsbyggðinni vegna þessa.  Hvernig ríkið ætlar að bregðast við er ekki enn ljóst en reikna má með að skaðabótakrafa ríkisins muni nema milljörðum ef ákvörðunin verður látin standa.  Það skýtur skökku við að á sama tíma og þarf að auka útflutning um 1000 milljarða á næstu tuttugu árum til að viðhalda þeim lífsgæðum sem við höfum nú, þá er unnið gegn því að auka við útflutninginn og fjölga þeim stoðum sem þarf að skjóta undir þann útflutning sem fyrir er.  Annars birti SA ágætis grein um þetta í gær sem má lesa hér.


mbl.is Sjá fram á gjaldþrot og uppsagnir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

15 ár þangað til að vegurinn verður kominn í stand

Á sama tíma og þetta var að gerast var verið að birta nýja samgönguáætlun. Þar kemur fram að vegurinn um Öxi verður ekki gerður að heilsársvegi fyrr en árið 2033 eða eftir 15 ár.  Þar með er öryggi vegfarenda um þessa leið, sem styttir vegalengdina til Egilsstaða um 71 kílómetra. Um er að ræða 18 kílómetra kafla sem er búið að hanna fyrir löngu síðan og í rauninni átti að fara í þessar framkvæmdir fyrir tíu árum, en þá kom bankakreppa og verkefninu var sópað út af borðinu.  Það er því útlit fyrir að þessar samgöngubætur bíði í að minnsta kosti í aldarfjórðung. Það verður seint sagt að stjórnsýslan vinni hratt og örugglega. 

Þetta er þvert ofan í samþykktir sveitarstjórnafólks á Austurlandi fyrir nokkrum dögum en á ársþingi Samtaka Sveitarstjórna á Austurlandi (SSA) var samþykkt að þessi vegur ætti að vera í forgangi og var mikil samstaða um það að þessu sinni.  Það sýnir kannski vel hversu bitlaus landshlutasamtökin eru að pólitíkusarnir hunsi algerlega vilja þeirra.


mbl.is Tvö bílslys á Öxi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Framleiðandi ársins

Það er gaman að segja frá því að eldisstöðin sem ég rak á Orkneyjum var að vinna til eftirsóttra verðlauna hjá bresku verslunarkeðjunni Marks og Spencer fyrir uppskeru á kynslóðinni sem ég ræktaði þar.  Verðlaunin kallast Outstanding producer of the year.   Þau eru veitt matvælaframleiðanda fyrir frábæran árangur í að afhenda gæðavöru og þar sem vel er staðið að starfsmannamálum, öryggismálum, umhverfismálum og ýmsu fleiru.  Stöðin var sem sagt talin besti framleiðandi matvæla, ekki aðeins í flokkinum ferskur fiskur, heldur þótti hún standa sig betur en aðrir framleiðendur í hvaða ferskvöru sem er, hvort sem um er að ræða kjöt, mjólk, egg, grænmeti, ávexti eða annað.  Þetta val fer fram eftir úttekt hefur verið gerð og sú úttekt er nokkuð ströng þar sem farið er yfir allar skráningar og innra eftirlit auk þess sem stöðin er skoðuð hátt og lágt.  Það er ánægjulegt að hafa verið þáttakandi í að ná þessum árangri en auk þessa fékk stöðin sérstaka viðurkenningu frá verslunarkeðjunni Waitrose þar sem hún fékk bestu niðurstöðu úr úttekt sem nokkur annar framleiðandi hafði fengið. Hægt er að lesa nánar um þetta hér.

Wyre (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Íslensk fyrirtæki, verslanir og veitingastaðir sem eru að kaupa lax og aðrar ferskvörur hér á Íslandi mættu taka þetta fyrirkomulag til fyrirmyndar, þ.e.a.s. að gera úttektir hjá framleiðendum.  Með því myndi skapast meira traust milli neytenda og framleiðenda og fagmennska í matvælaframleiðslu myndi aukast en eins og Richard, fyrrverandi yfirmaður minn sagði þegar hann tók á móti verðlaununum að þá hefur sá hái standard sem M&S setur verið hvatning fyrir framleiðendur til að standa sig vel.  Með þessu yrði líklega komið í veg fyrir annað brúneggjamál svo eitthvað sé nefnt.

Og svona til þess að monta mig enn meira af mínum fyrrverandi vinnuveitendum þá voru þeir líka að fá sérstök verðlaun fyrir hversu vel er staðið að starfsmannamálum en verðlaunin fá þeir fyrir m.a. hvernig staðið er að þjálfun en fyrirtækið var með starfsfólk á námskeiðum í 3755 daga á síðasta ári, starfsmannavelta er lág, fjarvistir fáar (1,5%) og ýmislegt fleira. Hér má lesa meira um þetta.

Ef rétt er staðið að laxeldi og það áfram byggt upp af fagmennsku getum við íslendingar náð jafn góðum árangri og vinir mínir Skotar en laxeldið er ein sú umhverfisvænsta og samfélagsvænsta matvælaframleiðslugrein sem hægt er að byggja upp hér um slóðir.


Er Hafrannsóknarstofnun hæf til að koma að fiskeldismálum á Íslandi?

Hafrannsóknarstofnun hefur nú hvað eftir annað á nokkrum mánuðum komið fram með mjög svo ófagmannlegum hætti í málum er snúa að fiskeldi.  Hvað sem veldur því, kunnáttuleysi eða persónulegar skoðanir einstakra starfsmanna er ekki gott að segja, en ef á að byggja upp fiskeldi af fagmennsku væri ef til vill best að fá einhverja aðra en Hafró að þeirri vinnu frekar en að fela Hafró nánast alræðisvald í þessum málum þrátt fyrir að stofnunin misstígi sig trekk í trekk.  Núverandi ríkisstjórn hefur einmitt lýst því yfir að hún vilji styðja við áframhaldandi uppbyggingu á fiskeldi í sátt við náttúru og menn og er það vel enda er laxeldi ein umhverfisvænasta matvælavinnsla sem hægt er að stunda ef vel er að því staðið.

Sigurður Guðjónsson sem áður starfaði fyrir veiðimálastofnun og núverandi forstjóri Hafró er að margra mati of tengdur veiðiklúbbunum til þess að hann geti talist hæfur til að koma að skipulagninug fiskeldis á Íslandi.  Þegar hann starfaði fyrir Veiðimálastofnun skrifaði hann m.a. skýrslu sem bar heitið „Even the evil needs a place“ þar sem umfjöllunarefnið var laxeldi og hvernig væri hægt að hafa það í lágmarki.  Þá helt hann fyrirlestur á málþingi um neikvæð áhrif sjókvíaeldis í apríl 2016.  Fiskeldisiðnaðurinn hefur sýnt mikla þolinmmæði og reynt að koma á móts við þá vinnu sem Hafró ynnir af hendi með þá von í brjósti að persónulegar skoðanir ekki látnar flækjast fyrir vísindalegum vinnubrögðum.

Mynd_0402140

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Mynd af vef LV

 

Aðrir starfsmenn sem hafa komið að þessari vinnu eru líka fyrrverandi starfsmenn veiðimálastofnunar sem hafa bein tengsl við stangveiðigeirann og Ragnar Jóhannsson efnafræðingur.  Eflaust eru þetta hinir mætustu menn en hvort þetta séu þeir bestu sem völ er við gerð áhættumats og erfðablöndunar má eflaust setja spurningamerki við, allavega er verið að sá fræjum vafans með núverandi fyrirkomulagi.

Burðarþolsmat

Hafró gaf út burðarþolsmat í mars árið 2017.  Var það talið grunnur að því fiskeldi sem hægt væri að byggja upp margar mismunandi skoðanir voru á burðarmatinu, sumum þótti það of lítið og öðrum of mikið.  Það sem var þó athyglisvert við matið var hversu ónákvæmt það var en mat hvers fjarðar hleypur á þúsund tonnum. 

Áhættumat

Í júlí 2017 gaf Hafró svo út svokallað „áhættumat“ vegna erfðablöndunar.  Það var strax ljóst að það var illa unnið og fékk það á sig mikla gagnrýni.  Hér verða nefnd nokkur atriði sem bera vott um ófagmannleg vinnubrögð sem stofnun sem ætlar að láta taka sig alvarlega hlýtur að taka mjög nærri sér.

  • Áhættumatið hefur ekki hlotið rýni annarra vísindamanna sem gæti bent til þess að starfsfólk Hafró viti hversu gallað áhættumatið er og vilji ekki fá álit annarra vísindamanna á því.
  • Hugtakið áhættumat. Athyglisvert er að þeir sem unnu að „áhættumatinu“ hafa enga menntun hlotið í því hvernig á að framkvæma áhættumat enda metur reiknireglan sem fundin er ekki áhættu heldur líkindi.
  • Í skýrslunni eru með afar hæpnum forsendum reiknaðar út líkur á að fiskur komist upp í á. Þegar áhætta er reiknuð út þarf að taka inn í dæmið hvaða afleiðingar það hefur í för með sér en það er ekki gert í áhættumatinu.  Þar með er titill skýrslunnar rangur og þá væntanlega niðurstaðan líka og hið svokallaða áhættumat er því ekki áhættumat og skýrslan þar með fallin um sjálfa sig.  Þetta bendir til kunnáttuleysis þeirra sem að gerð skýrslunnar komu og líklegt verður að teljast að enginn af þeim sem komu að gerð skýrslunnar hafi hlotið tilsögn í gerð áhættumats.  Hvað afleiðingarnar varðar þá er það með ólíkindum að hafbeitarám sé gefið sérstakt verndargildi en árið 2004 var sjókvíaeldi leyft á vestfjörðum og austfjörðum vegna þess að á þessum svæðum voru árnar ekki taldar hafa sérstakt verndargildi.  Þess má geta að í Noregi er bannað að sleppa fiski í ár til að rækta þær upp en þar í landi þykir það of mikið inngrip enda með því komið í veg fyrir náttúrulegt val.
  • Fjölgunarhæfni eldisfisks. Það hefur verið sýnt fram á að fjölgunarhæfni eldisfisks er ekki nærri þvi jafn góð og villts fisks sem leiðir til þess að líkurnar á að eldisfiskur fjölgi sér minnka.  Þá kemur fram í „áhættumatinu“ að reiknað er með að 15% af þeim fiski sem mögulega myndi sleppa væri kynþroska þegar staðreyndin er sú að 0% er kynþroska við slátrun.
  • Í skýrslunni er gengið út frá því að eldisfiskur sleppi og þar er fullyrt að 0,8% af hverju framleiddu tonni sleppi.  Þetta er algjörlega úr lausu lofti gripið þar sem ekkiert samband er á milli tonnafjölda og sleppinga.  Nær væri að miða við fjölda seiða sem sett eru út.  Með þessum rökum væri hægt að draga úr sleppingum með því að slátra stærri fiski. Þar að auki er talan 0,8% að hluta til miðuð við þá tíma í Noregi þegar ekki var búið að taka í notkun reglur um öruggan eldisbúnað en eftir að staðall um búnað í fiskeldi dró umtalsvert úr sleppingum og nú er svo komið að sleppingar eru nánast úr sögunni.
  • Ratvísi eldisfiska. Því er haldið fram í skýrslunni að 15% eldisfiska sem sleppa leiti upp í straumvötn.  Þetta er u.þ.b. 20 föld ratvísi miðað við tölur frá veiðiréttarhöfum og þeim fjölda sem þeir hafa sleppt í árnar.  Hver vegna Hafró kýs að nota þessa tölu er óskiljanlegt en augljóslega skekkir þetta niðurstöður reiknilíkansins sem margir kalla „áhættumat“.
  • Þá er ekki tekið tillit til stærðar þess fisks sem sleppur en það skiptir verulegu máli þar sem stærri fiskur fer síður upp í árnar.
  • Miklu plássi skýrslunnar er eytt í umræðu um geldfisk en sú umræða er algerlega ótímabær. Vonandi kemur að þeim tíma sem geldfiskur verður nothæfur í eldi en það geta liðið mörg ár þangað til það verður.  Það að ætlast til þess að í fiskeldi sé notuð tækni sem ekki er búið að þróa er afar hæpið, svona álíka eins og að skikka Ferðaskrifstofur til að selja ferðir til Mars.
  • Engar tilraunir eru gerðar til þess í matinu að meta áhrif fyrirbyggjandi aðgerða s.s. notkun ljósa, stærri útsetningarstærðar og fleira sem reyndar er gert nú þegar.

Svikin Loforð um endurskoðun áhættumats.

Fulltrúar ráðuneyta, LF og LV skrifuðu undir stefnumótun í fiskeldi þar sem áhættumat Hafró var lagt til grundvallar og þar var samþykkt að áhættumatið yrði endurskoðað og að tekið yrði tillit til nýrra upplýsinga.  Með þetta skrifaði LF undir og olli það mikilli óánægju meðað félagsmanna, m.a. sagði HG sig úr samtökunum.  Nú hefur Hafró svikið þetta samkomulag og enn og aftur sett uppbyggingu fiskeldis í algera óvissu.  Í fréttatilkynningu á heimasíðu Hafró segir m.a.:

  • „Áhættumatið var unnið af sérfræðingum Hafrannsóknastofnunar ásamt erlendum sérfræðingum og hefur hlotið rýni erlendra sérfræðinga.“ Hér er ekki sagt satt og rétt frá af því að áhættumatið hefur ekki hlotið rýni erlendra sérfræðinga en til þess að rýni teljist marktæk þar fað birta hana í viðurkenndum ritum, ekki er nóg að erlendir aðilar lesa yfir eða setja nafn sitt við skýrluna eða hluta hennar iens og raunin virðist vera.
  • „Í kjölfar vinnu nefndarinnar var skrifað frumvarp til laga um breytingar á lögum um fiskeldi .... Því miður varð frumvarpið ekki að lögum á vorþingi en til stendur að endurflytja málið á komandi haustþingi“. Þetta er athyglsivert orðalag þar sem persónulegar skoðanir stufnunarinnar fá pláss í opinberri fréttatilkynningu.
  • „Helstu stofnanir eins og Skipulagsstofnun, Umhverfisstofnun og Matvælastofnun hafa stuðst við áhættumatið og burðarþolsmat einstakra hafsvæða í sinni vinnu“. Samkvæmt samtölum við starfsfólk MAST er hér ekki rétt með farið enda eiga þessar stofnanir að starfa eftir þeim lögum sem eru í gildi.
  • „Fyrir liggur að í núgildandi lögum er ekki að finna heimild til að draga úr eldi sem leyft hefur verið á grunni áhættumats reynist leyfilegt eldi vera of mikið.“ Það að Hafró hafi ekki verið búið að kynna sér þetta áður en áhættumatið var gefið út hlýtur að vera afskaplega athyglisvert.
  • „Til að styrkja vísindalegan grundvöll áhættumatsins hefur Hafrannsóknastofnun í hyggju að gera frekari rannsóknir og hyggst stofnunin óska eftir fjármagni í þeim tilgangi“. Öll þessi vinna ber að sama brunni.  Það á að nota þetta til þess að ná út eins miklum peningum eins lengi og hægt er.  Finna má stningar sem eru orðaðar á svipaðan hátt í áhættumatinu og bruðarþolsmatinu já og sennilega á fleiri stöðum.
  • „Meðal annars þarf að gera rannsókn á hvort sá norskættaði stofn sem hér er notaður í fiskeldi lifir af sjávardvöl við Ísland. Þetta yrði gert með rannsóknum þar sem seiðum af eldisstofninum yrði sleppt í hafbeitaraðstöðu á Vestfjörðum og á Austfjörðum. Rannsóknin yrði takmörkuð að umfangi og seiðum af íslenskum stofnum sleppt til samanburðar“. Þeir ætla sem sagt að sleppa eldisfiski í sjóinn til að athuga hvað gerist.  Er þetta ekki það sem áhættumatið átti að koma í veg fyrir?  Hvað segja veiðimenn um þetta?  Verði erfðablöndun vegna þessa verður þá eldisfyrirtækjunum kennt um?
  • „Þá hefur stofnunin í hyggju að gera takmarkaða tilraun í Ísafjarðardjúpi til að rannsaka ákveðna þætti í fiskeldi í samvinnu við eldisfyrirtæki. Tilraunin yrði takmörkuð í magni við hámark 3.000 tonn af frjóum laxi og til 5 ára. Umhverfisþættir yrðu mældir sérstaklega og þá yrði umhverfi kvíanna vaktað sérstaklega með tilliti til lífríkis. Í eldinu yrðu vaktaðir almennir þættir eins og lifitala, vöxtur og kynþroski“. Þarna ætlar Hafró að ná sér í aura til þess að ná í upplýsingar sem þegar eru tiltækar innan eldisfyrirtækjanna.  Þetta segir býsna mikið um þekkingarleysi innan stofnunarinnar.

Að þessari samantekt lokinni má spyrja hvort Hafró sé hæf til að koma að vinnu við fiskeldi.  Ef til vill væri nær að Sjávarútvegsráðuneytið réði til þess aðila sem hafa reynslu á þessu sviði.  Þeir aðilar eru líklega ekki til hér á Íslandi, heldur þyfti að leita út fyrir landsteinana.  Sú óvissa sem nú hefur skapast er algerlega óþolandi enda búið að fjárfest fyrir milljarða og þetta mun tefja verulega og jafnvel hindra frekari uppbyggingu á austfjörðum og vestfjörðum.  Það er ekki verið að biðja um fyrirfram gefna niðurstöðu, heldur að unnið verði af fagmennsku og lögum og reglum í landinu fylgt.


Ársgömul grein um áhættumat Hafró

Fyrir réttu ári birtist þessi grein eftir mig í Morgunblaðinu og olli hún þó nokkru fjaðrafoki, m.a. lentu sjávarútvegsráðherra og formaður Landssambands Fiskeldisstöðva í orðaskaki vegna hennar auk þess sem ýmsir aðriri skrifuðu greinar vegna hennar í framhaldinu.  Vegna þessara tímamóta er kannski við hæfi að birta hana á hinu víðlenda interneti: 

Nú nýlega lét Hafrannsóknarstofnun Íslands vinna fyrir sig skýrslu sem kallast „Áhættumat vegna mögulegrar erfðablöndunar frá laxeldi“ og hefur skýrslan verið birt á heimasíðu stofnunarinnar www.hafogvatn.is.

Það þarf ekki að rýna lengi í skýrsluna til þess að sjá að á henni eru fjölmargir vankantar.  Í titli skýrslunnar er hún sögð vera áhættumat en það er rangnefni af því að í henni er ekki framkvæmt eiginlegt áhættumat.

Þegar áhætta er reiknuð er formúlan í sinni einföldustu mynd margfeldi líkinda og afleiðinga sem eru stuðlar sem fundnir eru út með ýmsum leiðum, allt eftir því hvert viðfangsefnið er.

Í skýrslunni er aðeins annar liður jöfnunnar, þ.e. líkindi, reiknaður út og afar hæpnar forsendur notaðar til þess og má segja að um sé að ræða reiknireglu.  Inn í jöfnuna eru valdir stuðlar sem eru ekki í neinu samhengi við raunveruleikann eða fyrirliggjandi rannsóknir og jafnvel án þess að heimilda sé getið.

Þessi hugmynd að líkani er heimatilbúin og engar tilraunir hafa verið gerðar til að sannreyna það. Það verður því að skoðast eins og áður segir sem svokölluð „reikniregla“ sem hefur ekkert vísindalegt gildi og væri því mjög svo óábyrgt að ætla að hafa skýrsluna til hliðsjónar við stefnumótun í fiskeldi.

Sem dæmi um stuðla sem notaðir eru í reiknireglunni eru gamlar norskar tölur um slysasleppingar sem aukinheldur eru margfaldaðar með stuðlinum 4. Höfundar reiknireglunnar ákveða að velja stuðulinn 4 fremur en 3, 2 eða 1 nú eða einhverja allt aðra tölu en engan rökstuðning er að finna fyrir þessu vali.

Fram kemur í skýrslunni að fjöldi laxa sem sleppur úr kvíum sé á stöðugri niðurleið en skýrsluhöfundar kjósa þrátt fyrir það að taka ekki tillit til þeirrar staðreyndar við útreikninga sína þó að tölurnar séu afgerandi. Miklar framfarir hafa orðið á búnaði sem notaður er í fiskeldi eftir að gæðastaðlar voru teknir upp og slysasleppingum hefur fækkað verulega

Í lok maí s.l. höfðu t.d. aðeins borist  tilkynningar til Norskra yfirvalda um að 24 laxar hafi sloppið.

Hið svokallaða líkan gefur því einhverja furðulega niðurstöðu eða líkindi á að atburður geti gerst.  Til þess að klára dæmið og reikna út áhættuna þarf að finna stuðul fyrir afleiðingarnar en þann lið vantar inn í útreikningana en meta þyrfti áhættuna fyrir hverja á eða svæði fyrir sig ef nækvæmni í vinnubrögðum er óskað. 

Og hverjar yrðu svo afleiðingarnar fyrir Breiðdalsá?  Svarið er litlar sem engar nema ef til vill jákvæðar.

Áin er hafbeitará en eldisfiski hefur verið sleppt í ána frá árinu 1967 og hefur verið notast við nokkra mismunandi stofna við þá starfsemi. Í ánni er því ekki villtur stofn sem getur orðið fyrir áhrifum enda virðist lax eiga erfitt með að klekja út hrognum sínum þar hvort sem um er að kenna hve köld áin er eða öðrum óhagstæðum skilyrðum.  Það er því falskur tónn í því að vilja koma í veg fyrir fiskeldi með það í huga að verja einhvern ímyndaðan sérstakan laxastofn í Breiðdalsá sem ekki er til en sú spurning vaknar hvað hefur orðið um  náttúrulegan bleikjustofn sem eitt sinn var í ánni eftir að sleppingar á laxi í ánna fóru að aukast?

Hagræn neikvæð áhrif verða engin af því að menn munu eftir sem áður koma í Breiðdalsá til þess að veiða.

Ef til vill má leiða líkum að því að áhrifin yrðu jákvæð með sterkari samfélögum á austfjörðum.

Það skýtur óneitanlega skökku við að verndargildi eldisár vegi meira en lífsviðurværi íbúa á Austfjörðum.  Árið 2004 var ákveðið með lögum að aðeins mætti stunda fiskeldi á ákveðnum svæðum við landið og var gert ráð fyrir að hugsanlegum áhrifum laxeldis mundi gæta á svæðum sem voru talin síður viðkvæm og ekki hafa til að dreifa þekktum og stórum veiðiám. Breiðdalsá tilheyrir ekki þeim ám. 

Á Djúpvaogi vinna nú um 50 manns beint og óbeint við fiskeldi og allir hljóta að sjá að það yrði mikið áfall ef þau störf hyrfu vegna þessarar skýrslu.  Ábyrgð þeirra sem ráða er mikil.  Það væri alls ekki faglegt að nota skýrsluna sem tæki til þess að ákvarða framtíðarfyrirkomulag fiskeldis á austfjörðum og svo sannarlega væri verið að fórna meiri hagsmunum fyrir minni á röngum forsendum af því að hér er ekki um vísindalegt plagg að ræða.  Það er hins vegar ekkert því til fyrirstöðu að laxveiði og laxeldi geti blómstrað hlið við hlið hér á landi sem annars staðar, landi og þjóð til heilla.

Það væri virkilega óábyrgt að ætla að láta þessa skýrslu ráða ferðinni í uppbyggingu fiskeldis við Ísland vegna þess að hún er ekki nægilega vel unnin en í henni er farið á svig við grundvallarþætti vísindalegra vinnubragða og verklags og suðst við getgátur og sögusagnir án heimilda.

Mikið er í húfi, orðspor Hafró, hagsmunir sveitarfélaga á svæðum sem hafa átt undir högg að sækja, lífsviðurværi fjölda fjölskyldna, auk þess sem uppbyggingu sem kostað hefur milljarða er teflt í tvísýnu.

Það væri óábyrgt að ætla láta Breiðdalsá, sem er ekki skilgreind sem á með villtan laxastofn, ráða byggðaþróun og atvinnuuppbyggingu á Austfjörðum.


Hafsjór tækifæra

Nú koma þeir fram vísindamennirnir hver á eftir öðrum og mæla gegn því að laxeldi valdi hningnun villtra laxastofna.  Dr Donald Noaks skólameistari Vancouver Island háskóla í Kanada kemst að þeirri niðurstöðu í skýrslu sem ber nafnið Oceans of opportunity að enn frekari takmörkun laxeldis skili engu nema því að komið verður í veg fyrir atvinnusköpun á landsbyggðinni og störf gætu tapast.  Dr Noaks segir að loftslagsbreytingar, bretyingar á búsvæðum tegunda og að ofveiði hafi leitt til þess að laxastofnum hefur hnignað. Noakes segir að gangi spár um frekari loftslagsbreytingar eftir muni stofnunum hninga enn frekar og sumir jafnvel þurrkast út.  Þá bendir hann á hversu lítið við höfum nýtt af hafinu til að framleiða matvæli á meðan að hratt gengur á það land sem nýtanlegt er til matvælaframleiðslu.  Greinin er skrifuð með Kanada í huga en vissulega er margt í henni sem má heimfæra upp á Ísland.

Í skýrslunni bendir Dr Noakes á að reiknað sé með að fólki í heiminum fjölgi um 30% fram til ársins 2050 og verði þá um 10 milljarðar.  Þar sem um 70% af jörðinni er vatn mun fiskeldi gegna mikilvægu hlutverki við að framleiða matvæli fyrir heimsbyggðina. 

Noakes kallar eftir því að lögð verði fram áætlun um hvernig auka megi fiskeldi, einfalda regluverk með það að markmiði að þrefalda framleiðslu úr fiskeldi í Kanada. Í skýrslunni kemur fram að framleiðslan þar sé nú um 200.000 tonn á ári og við iðnaðinn starfa um 25.000 manns en Noakes segir að auðveldlega mætti tvöfalda framleiðsluna á næsta áratug.

Það er til yfirlýst stefna Norðmanna að ná sinni framleiðslu upp í 5 milljón tonn fyrir árið 2050 og þá ætla Skotar að tvöfalda sína framleiðslu fram til ársins 2030.  Við Íslendingar ættum að taka þetta til fyrirmyndar og grípa þetta einstaka tækifæri fagnandi hendi og móta líka stefnu sem miðar að því að auka laxeldi á Íslandi.  Þannig sköpum við fjölda starfa, aukum útflutningstekjur og menntunarstig.   Ef vel er að laxeldinu staðið er um að ræða eina umhverfisvænustu tegund matvælaframleiðslu sem völ er á. 

Þar sem laxeldi er með lægsta kolefnisspor af þeim próteinframleiðslugreinum sem við stundum ættum við að efla laxeldi til þess að leggja okkar af mörkum til að vernda umhverfið og þar með talinn laxinn.

Skýrsluna í heild má lesa hér.


Villtum laxi stafar einna helst ógn af makríl

Samkvæmt rannsókn Dr Jens Christian Holst fiskifræðings eru risatorfur af makríl sögð mesta ógnin við villtan lax í Skotlandi.

Laxeldi, loftslagsbreytingar, selir og ofveiði hafa verið nefnd sem ástæða þess að villta laxastofninum í Skotlandi hefur hnignað en aðeins um 5% stofnsins snýr til baka til hrygningar í ám

Dr Jens Christian Holst, sem áður vann hjá norsku Hafrannsóknarstofnuninni, bendir á að makríl hefur fjölgað verulega og dreift sér svo mikið um skoska strandsvæðið að laxinum er verulega ógnað. 

Í skýrslu sem birtist í The Times segir Dr Holst að stofnstærð makríls í Norður Atlantshafi sé að minnsta kosti 57 milljarðar makríla, meira en sex sinnum þeir 9 milljarðar sem ICES (International Council for the Exploration of the Sea) hefur talið að stofnstærðin væri.

Ofurtorfur

Dr Holst segir að ofurtorfur makríls borði laxaseiði á leið sinni frá ströndum Skotlands til Kanada, Grænlands og Noregs og hafi betur við aðrar fiskitegundir í samkeppni um fæðu.

Samkvæmt kenningu Dr Holst hefur makríllinn líka ryksugað upp dýrasvif og smáfisk í Norðursjó og í norskri fiskveiðilögsögu en það hefur áhrif á afkomu sjófugla s.s. lunda og ritu sem eru hærra í fæðukeðjunni en vísindamenn hafa haft áhyggjur yfir afkomu þeirra.

Í kenningu Holst er stofnstærðarmat ICES dregið í efa en það mat er notað við ákvörðun á makrílkvóta Evrópusambandsins.  Samkvæmt rannsókn ICES var makrílstofninn í Norðuratlantshafi talinn vera 10,3 milljónir tonna en Dr Holst bendir á að stórir hlutar Norðursjávar, norskir firðir og bresk fiskveiðilögsaga voru undanskilin í rannsókninni.

„Tímasetning, magn og útbreiðsla makrílsins er í takt við hnignun laxastofnsins og er möguleg og mjög líkleg skýring“.

Tony Andrews fyrrum formaður Atlantic Salmon Trust.

Kenning Dr Holst hefur hlotið stuðning Tony Andrews sem eru fyrrum formaður Atlantic Salmon Trust og hefur í gegnum tíðina gagnrýnt laxeldi.

Holst og Andrews vilja að rannsókn verði gerð við fyrsta tækifæri.  Ef kenningin reynist rétt getur það leitt til þess að ESB telji nauðsynlegt  að auka makrílkvóta til þess að halda stofninum í skefjum. 

Í skýrslu sem Dr Holst sendi til þingmanna á skoska þinginu segir hann að það sé sterk vísbending um að makrílstofninn í Norður Atlantshafi hafi stækkað úr hófi fram vegna verulegs vanmats sem hefur leitt til varfærinnar kvótasetningar og of lítillar veiði. 

Erfitt að „selja“ kenninguna

Það að nú er makríll farinn að finnast við austurströnd Grænlands, við Ísland, Jan Mayen og Svalbarða þykir styrkja kenningu Dr Holst.

Holst segir í The Times að það hafi verið erfitt að „selja“ kenninguna af því að margir vilja kenna laxeldi og laxalús um hningun villtra laxastofna og jaðrar það oft á tíðum við trúarbrögð.  Hæpið er að kenna laxeldi um þetta þar sem hnignunin hefur orðið meiri á austurströnd Skotlands þar sem ekkert laxeldi er

Hægt er að lesa skýrslu Dr Holst hér.


Kominn heim

Ferðin heim gekk svo vandræðalítið fyrir sig.  Ég passaði mig vel á því að mæta á réttum tíma en ég veit ekki hvort það er af því að ég var búinn að búa einn í nokkra mánuði eða eitthvað annað en mér fannst flugfreyjurnar sýna mér sérstaklega mikla athygli á leiðinni heim.  Flugfreyjan hjá Loganair sem flaug frá Orkneyjum til Aberdeen, Frances að nafni, gaf sig á tal við mig þegar flugvélin var komin í loftið og við ræddum saman um ferðalög og hvernig er að búa á Íslandi og Orkneyjum.  Tíminn var fljótur að líða og áður en ég vissi af var ég kominn upp í næstu flugvél og lagður af stað til Íslands.  Miðja vega yfir Atlantshafinu kom flugfreyjan til mín og bauð mér upp á kaffi.  “Viltu samloku eða eitthvað”? spurði hún.  Ég er ekki mikið fyrir að kaupa mér flugvélamat þannig að ég afþakkaði.  “Ég skal gefa þér samloku, þú ert nefnilega eini Íslendingurinn um borð, hér eru líka frönsk horn og fleira”.  Augnabliki síðar sat ég með fangið fullt af samlokum af ýmsu tagi, súkkulaði og sætindum.  “Viltu ekki bjór líka ég skal gefa þér bjór”,  “Ha? Nei takk ég er að fara að keyra á eftir”  “já, stabíll, það líkar mér” svaraði hún.  Ég var því feginn og saddur og sennilega örlítið feitari þegar ég gekk frá borði, alkominn til Íslands.  Skömmu áður hafði Hvannadalshnjúkur birst út við sjóndeildarhring og svo Skeiðarárjökull og Skaftafellsjökull þegar flugvélin nálgaðist fyrirheitna landið.  Á flugvellinum átti að bíða mín bílaleigubíll en bílaleigan Budget hafði klúðrað öllu skipulagi og upphófst mikil bið.  Ég hefði betur farið á hestaleigu í stað bílaleigu hugsaði ég, það hefði sparað mér mikinn tíma. Eftir tveggja tíma bið og mikið af óánægðum viðskiptavinum fékkst þó bíllinn loksins og svo var keyrt af stað.  Það var dásamlegt að leggjast upp í alvöru rúm, með sína eigin sæng og sinn eigin kodda.  Ég renndi í hlað skömmu eftir miðnætti, Brynja hafði vakað eftir mér og um nóttina vaknaði ég við að Ívar Orri skreið upp í og vafði höndunum um hálsinn  á mér.  Ég var kominn heim.


Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.5.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband