Flutningur heim

Nú þarf ég sennilega að hætta að drekka mjólkina beint úr fernunni (eða öllu heldur flöskunni hér) og ég þarf líka að fara að muna aftur eftir að skilja ekki klósettsetuna eftir uppi en nú styttist í að Orkneyjadvölinni ljúki og að ég snúi til baka heim til ástkæra Íslands og meira að segja er búslóðin farin heim.

Ég hafði samband við íslensku skipafélögin Eimskip og Samskip til þess að fá tilboð í flutning.  Tilboð Eimskips var mun hagstæðara af því að það innifól í sér flutning.  Tilboðið frá Samskip kom ekki þannig að ég reikna ekki með að búslóðin hefði ekki heldur komið til mín til Íslands.  Ég var reyndar áhyggjufullur yfir tilboðinu frá Eimskip af því að sú sem sendi mér tilboðið kenndi sig við móður sína og hún hélt að ég myndi búa í Krikwall í stað Kirkwall auk þess sem hún kunni ekki að fallbeygja Djúpivogur en þess í stað sendi hún tilboð sem fól í sér flutning til Djúpavogar.  Af þessu réði ég að hún væri skilnaðarbarn sem hefði átt erfitt uppdráttar í skóla og ég veit ekki enn hvort hún hefur reiknað tilboðið út rétt.  Það er alltaf líklegt að ef íslenskunámið hefur gengið illa að stærðfræðin hafi jafnvel gengið enn ver.  En hvað með það, stúlkan stóð sig vel og svaraði fljótt og vel og til þessa hafa engin frekari vandamál við flutninginn komið í ljós.  Ekki er þó öll nótt úti enn. 

Tveir flutningamenn frá skoska flutningafyrirtækinu Streamline komu og sóttu brettin, annar þeirra var með svo stóra eyrnasnepla að þeir blöktu eins og fáni í vindi.  Þegar þeir höfðu lokið við að koma brettunum fyrir í bílnum varð manninum með eyrnasneplana að orði  “Mikið hlýtur þú að vera feginn að vera að losna af þessu guðsvolaða skeri”

“Tja, það er nú ágætt að vera hér en það verður gott að komast heim, ert þú héðan”?

“Nei, ég er frá Katanesi en það er alveg jafn mikið rok þar” og með það kvaddi hann og fór inní bíl.  Ég er ekki frá því að ég hafi heyrt flippflappflippflappflippflappflippflapp þegar hann sneri eyrnasneplunum upp í vindinn á leið sinni í bílinn.

Ekki sendi ég allt sem ég er með hér, sumt sel ég.  Til dæmis fiskabúrið og fiskana en fljótlega eftir að Hr Eyrnasnepill og félagi voru farnir kom kona ofan úr Birgishéraði til þess að kaupa fiskabúrið.  Hún virtist mjög glöð með að vera að kaupa búrið en hún flissaði allan tímann sem viðskiptin fóru fram.  Í ljós kom að þetta er ekki fyrsta fiskabúrið sem hún fær sér en fyrir á hún fjögur.  Hún var með myndir af öllum hinum fiskabúrunum í símanum sínum og vildi endilega sýna mér þær.  “Það er bara svo róandi að sitja og horfa á þá” sagði hún og sennilega er það rétt hjá henni en ég er ekki orðinn svo órólegur að ég þurfi fimm fiskabúr inn á heimilið mitt til þess að róa mig niður og vonandi mun það aldrei verða raunin.  En þetta er í góðu lagi ef blessuð konan þarf á þessu að halda og sennilega er undirliggjandi tilgangur gæludýrahalds oft á tíðum til þess að bæta andlega líðan.

Næst bankaði maður upp á til þess að sækja náttborð og glerskáp/skenk.  Þegar ég opnaði stóð fyrir utan vatnsgreiddur maður með sólgleraugu, klæddur í hvít jakkaföt með hvítt silkibindi, á lakkskóm, með hringa á öllum fingrum og eyrnalokka í báðum eyrum.  “Ég er að sækja einhverja hluti fyrir konuna mína” sagði hann.  “Já, skápurinn er í stærri kantinum, heldur þú að hann komist fyrir í bílnum þínum”? 

“Ég er á Volvo”

“Nú þá er nóg pláss, ég skal halda undir hann með þér”

Auðvitað átti ég von á því að jakkafataklæddur maður í lakkskóm væri á 2016 árgerð af Volvo jeppa en svo var nú ekki.  Í ljós kom að hann var á eldgömlum Volvo 240 station, dökkrauðum með fullt af ryðblettum.  Þegar hann opnaði skottið blasti við fullur bíll af drasli.  Hann byrjaði að færa til pappakassa, sópa til tómum gosflöskum, bónbrúsum, olíubrúsum, verkfærum, plastpokum og umbúðum utan af skyndibita.  Þegar því var lokið var hann búinn að búa til pláss sem var álíka stórt og einn og hálfur lófi.  Við vippuðum skápnum og náttborðinu í skottið, allavega var undirlagið mjúkt. Svo ók hann í burt og dró pústið á eftir

bílnum.

Að þessu loknu kom svo ung stúlka með einhentan sendibílstjóra í yfirþyngd og í sameiningu bárum við rúm og ísskáp út í bíl.

Í lok dags kom svo nágranni minn hann James að máli við mig og spurði hvort ég vildi ekki koma yfir og fá mér tvo bjóra með honum.  Ég var að hugsa um að segja nei mig langar það ekkert sérstaklega en ákvað samt að vera kurteis og þiggja boðið enda eru þau hjónin afskaplega indæl. 

Ég hef ekki farið í margar heimsóknir hér á Orkneyjum og þar sem sinn siðurinn er í hverju landinu er ég ekki viss hvort það er til siðs að koma með eitthvað með sér þegar farið er í heimsóknir eins og sums staðar virðist vera.  Ég hugsaði málið og mundi þá eftir reyktum laxi sem var búinn að vera í ísskápnum hjá mér í dálítinn tíma, ég tók hann og þefaði af honum og hugsaði með mér “Nei, þetta mun ég aldrei borða, þetta er tilvalið til að gefa nágrönnunum”.  Með laxinn undir handarkrikanum rölti ég yfir og afhenti pakkann og kvöldstundin var hin ágætasta.

Nú er sem sagt allt farið og í stað þess að henda mér upp í rúm á kvöldin og liggja þar eins og krossfiskur mun ég sofa næstu nætur í sófanum með teppi ofan á mér.  Sjónvarpið er farið en þó hef ég afnot af gömlu túbusjónvarpi sem er svo gamalt að ég á stöðugt von á því  að sjá Nýjasta tækni og vísindi á skjánum.   Ekki verður heldur meiri eldamennska stunduð hér en þess í stað treyst á skyndibita og bjór í öll mál og einmitt í þessum skrifuðu orðum er ég að velta fyrir mér hvort ég á að fá mér Korma kjúkling eða Kebab í morgunverð.   Ég verð allavega vel tilbúinn í grjónagraut og slátur þegar heim verður komið. 


Styttist í heimferð

Nú er greinilega að koma haust af því að okkur er boðið upp á æði margar útgáfur af veðri þessa dagana.  Einn daginn er glaðasólskin, hlýtt og nánast logn eins og oft er á austfjörðum, annan daginn er hávaðarok og rigning og einn daginn var okkur boðið upp á svartaþoku þar sem maður sér ekki á sér fingurna þegar hendurnar eru réttar fram eins og oft er á austfjörðum.  Þegar við sigldum út þann dag vorum við varla búnir að sleppa bryggjunni þegar var eins og væri búið að þurrka Kirkjuvog út og hann væri ekki til lengur, ekkert sást nema sléttur sjórinn í kringum bátinn og grá þokan sem var eins og maður sér stundum í lélegum bíómyndum þegar framliðnir birtast fyrirvaralaust til þess að gera einhvern óskunda.

Þegar ég kom fyrst til Kirkwall þann 17. september 2014 þá var líka þoka og dimmt í þokkabót en á einhvern ótrúlegan hátt tókst flugmanninum að lenda flugvélinni og það sem meira var, hann lenti henni á flugbrautinni, hvernig sem hann fór nú að því að finna hana.  Frá flugvellinum tók ég rútu niður á rútubílastöðina en ég var ekki viss hvort rútubílstjórinn var karl eða kona eins og svo oft er raunin með Orkneyinga (sumir eru sennilega bæði) og frá bifreiðastöðinni þurfti ég að ganga nokkur hundruð metra til þess að finna Kirkwall Hotel.  Í myrkrinu og þokunni paufaðist ég áfram og eftir að hafa tekið nokkrar vitlausar beygjur í bæ sem ég hafði aldrei komið í áður og hafði ekki kort meðferðis, fann ég loksins hótelið sem stendur við höfnina.  Síðan þá hef ég séð margt, upplifað margt og lært margt.  Ekki sé ég eftir því að hafa lagt út í þetta ævintýri og áreiðanlega á maður oft eftir að hugsa til baka með bros á vör, þegar ákvörðunin var tekin á sínum tíma var engin spurning að breytinga var þörf og tími til kominn að hugsa út fyrir spennitreyjuna.  Það eina sem mun áreiðanlega alltaf skyggja á, er að af þessum tveimur árum sem ég hef verið hér hef ég varið helmingnum af tímanum í burtu frá fjölskyldunni, það hefur stundum verið erfitt og það er dýrmætur tími sem aldrei kemur aftur.  Leyfið mér að umorða þetta, börnin mín eru búin að vera föðurlaus í næstum því ár.  Auðvitað læðist sú hugsun að manni að það verði aldrei hægt að bæta þennan tíma, sérstaklega af því að börnin eru átta og fjögurra ára og því á þeim aldri að þau þurfa virkilega á pabba sínum að halda.  Þetta var þitt val segja sumir en það bætir hlutina nákvæmlega ekkert.  Það er líka ýmislegt sem maður á eftir að sakna héðan, eins og til dæmis verðlagið, en matvöruverð er í mörgum tilfellum einn tíundi af því sem gerist á Íslandi.  Annað er kurteisin.  Fólkið er svo kurteist að þegar það mætist í dyrunum í matvöruversluninni byrjar það að afsaka sig fyrir að hafa valið þennan tíma að ganga um dyrnar á sama tíma og manneskjan sem það er að mæta.   Eins heilsa flestir þegar ekið er um sveitir Orkneyja.  Það finnst mér góður siður.  Og að lokum á ég auðvitað eftir að sakna beikonsins (og Haggis, já OK og Black pudding).

Fyrst eftir að ég flutti til Orkneyja var líka ýmislegt sem þér þótti nýstárlegt og margt sem ég vissi ekki.  Ég vissi ekki hvað skammstafanir eins og PPE, HIS, TPA, PPR, NFI og fleiri þýddu, ég vissi ekki hvað Telehandler, Capstan ofl þýddu en stuttu síðar var ég farinn að nota þessi orð og skammstafanir reglulega.  Mér fannst skrýtið að vera ávarpaður sir þegar ég fór að versla, eða að stúlkan í skyndibitavagninum ávarpaði mig honey eða darling þegar ég verslaði þar.  Þar gat maður fengið franskar kartöflur með bræddum osti eða djúpsteikt Mars súkkulaði í orlydeigi sem er svo orkuríkt að þegar maður bítur í það fær maður náladofa í brjóstkassa og upphandleggi þegar kaloríurnar ryðjast út í líkamann. Það er sko alvöru matur.


Túristamengun

Túristamengun er nokkuð vel þekkt hér á Orkneyjum eins og víða annarsstaðar.  Samkvæmt heimasíðu hafnaryfirvalda hér í Kirkjuvogi heimsækja 126 skemmtiferðaskip Orkneyjar í ár en í júní, júlí og ágúst má segja að þeir dagar heyri til undantekninga þegar skemmtiferðaskip er ekki í Kirkjuvogi.   Á morgun, 26. sept kemur síðasta skemmtiferðaskip sumarsins hingað til Kirkjuvog.  Farþegum er yfirleitt smalað í rútu og þeim sýndur Breiðagarðsbaugurinn, Skara Brae og Ítalska kapellan svo eitthvað sé nefnt.  Margir ráfa um stræti Kirkjuvogs þar sem kirkja heilags Magnúsar er helsta aðdráttaraflið, enda dregur bærinn nafn sitt af henni.  Hið tvöfalda hlutverk kirkjunnar hefur orðið að ákveðnu vandamáli hér af því að kirkjan er notuð fyrir almennar messur og einnig einkaathafnir eins og giftingar og jarðarfarir og það er eitthvað sem fer ekki saman við straum túrista. 

St Magnus

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Einn föstudag fyrr í sumar stóð til dæmis yfir jarðarför í kirkjunni þegar hópur ferðamanna kom þar að og hóf að mynda athöfnina í gríð og erg og trufluðu þannig það sem fram fór, þar að auki reyndi einn þeirra að taka selfie af sér og kistunni.  Í annarri athöfn nokkrum dögum fyrr þurfti að stoppa nokkra ferðamenn af þar sem þeir voru að reyna að opna kistuna, kannski líka til þess að taka selfie með hinum látna. Ég hef nokkrum sinnum farið í Magnúsarkirkju til þess að skoða en passa mig á að gera það þegar engin athöfn er í gangi.  Ekki fyrir alllöngu væflaðist ég þangað og þá vildi svo til að hópur af eldra fólki, sennilega af skemmtiferðaskipinu sem var í höfninni, var þar líka og fólkið virtist afar áhugasamt um að komast inn en það ruddist fram fyrir eins og ég væri ekki þarna.  Auðvitað sagði ég ekkert en brosti og huggaði mig við að fólkið væri orðið svo gamalt og því ekki svo langt þangað til það myndi deyja.  Annars sé ég ekki af hverju ekki er hægt að loka kirkjunni fyrir almenningi á meðan á athöfn sem þessum stendur en það er með þetta eins og margt í ferðamannaiðnaðinum (já þeim íslenska líka) skortur á skipulagi (öryggismál og klósett geta fallið undir það),  og að hugsa fram í tímann leiðir oft til vandamála.  En auðvitað er heimska ferðafólksins oft rót vandans, maður verður sennilega að gera ráð fyrir að ferðafólk sé almennt heilaskemmt.


Skara Brae aftur

Hús eru merkilegt fyrirbæri.  Þau eru mjög mismunandi í útliti en þó er nánast sama hvar í heiminum við erum, við getum nánast alltaf getið okkur til um hvort um er að ræða íbúðarhús eða ekki. Meira að segja hús sem voru byggð fyrir 5000 árum síðan.  Dag einn (eða tvo á Orkneyjum) árið 1850 geisaði aftakaveður á Bretlandseyjum þar sem yfir tvö hundruð manns týndu lífi en á Orkneyjum sópaðist sjávarbakki í burtu og í ljós komu ævafornar byggingar sem voru ótrúlega heillegar, þó að þakið vantaði á þær, níu hús allt í allt.  Húsin voru meira en 5000 ára gömul, eldri en Stonehenge, eldri en Pýramídarnir og eldri en flest allar byggingar á jörðinni og þess vegna einstaklega fágætar og merkilegar.  Skara Brae.  

Skara brae (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hvergi annarsstaðar í heiminum er hægt að fá aðra eins innsýn í líf fólks á steinöld.  Og húsin voru merkilega vel búin, þar voru pípulagnir, hægt að læsa hurðum, þar var hátt til lofts og rúmgott, steingólf, geymslur, rúmstæði, vatnstankar og samkomurými svo eitthvað sé nefnt.  Hér á Orkneyjum eru engin tré sem er mikil guðs mildi af því að ef steinaldarfólkið hefði notað timbur sem byggingarefni væri Skara Brae ekki til í dag.  Annars vitum við ekki mikið um þetta fólk, hvaðan það kom eða hvaða tungumál það talaði en þó er talið að það hafi dvalið á Orkneyjum í um 600 ár en einhverra hluta vegna virðist fólkið hafa yfirgefið eyjarnar mjög snögglega dag einn fyrir um 4500 árum síðan.  Af hverju er ekki gott að segja.  Kannski tók annar hópur fólks yfir Orkneyjar og hrakti íbúa Skara Brae á brott.  Kannski kom einhver í heimsókn frá Englandi og sagði: “Hvað eruð þið að hugsa að búa hér?  Vitið þið ekki að veðrið þarna suðurfrá er miklu betra, þar er hlýrra og miklu auðveldara að stunda búskap, rækta hafra eða hvað það er sem þið gerið hér?  Og kvenfólkið maður það er nú eitthvað annað en þessar breddur sem eru hérna”  Og það hefur ekki þurft meira til að sannfæra fólkið um að halda á brott, eða karlpeninginn að minnsta kosti.  Það má líka kannski segja að það sé undarlegt að fólk hafi komið hingað til að byrja með, nóg pláss var á Bretlandseyjum en talið er að aðeins um 20.000 manns hafi búið á Bretlandi á þessum tíma. 

Nú er á Skara Brae opið ferðamönnum og þar er hægt að ferðast aftur í tímann og skoða þessar einstöku fornminjar.


Áhugi á íslenskum fótbolta

Á Facebook er sölusíða fyrir Orkneyinga líkt og er á svo mörgum stöðum.  Þar er hægt að fá allan andskotann keyptan allt frá lifandi býflugum upp í einbýlishús og allt þar á milli.  Ég auglýsti þar til sölu rúmdýnu sem ég hafði ekki not fyrir og það hafði ófyrirséðar afleiðingar í för með sér.

Maður að nafni Marc Boal setti sig í samband við mig en hann áttaði sig á því, væntanlega vegna míns íslenska nafns, að ég væri frá Íslandi og í gær mæltum við okkur mót á einum af pöbbum staðarins til þess að spjalla um knattspyrnu og fleira.  Hann vinnur fyrir ferjurnar hér á Orkneyjum og býr í Aberdeen en hefur mikinn áhuga á íslenskri knattspyrnu, gefur út tímarit og heldur úti Facebook síðu undir nafninu Icelandic football magazine.  Ástæða þess að hann fékk áhuga á íslenska boltanum var sú að hann spilaði með skosku liði sem heitir Dumbarton og spilaði m.a. við F.H. þá vissi hann ekkert um íslenskan fótbolta en fór að kynna sér hann og kom svo aftur til landsins og æfði þá með knattspyrnufélaginu Val.  Upp frá því hefur komið nokkrum sinnum til Íslands, fyrst árið 1992,  til þess að horfa á leiki og skrifa greinar um íslenskan fótbolta og í gegnum þennan áhuga hefur hann kynnst mörgum frammámönnum í íslenskri knattspyrnu.  Þessi nýi vinur minn stefnir á fleiri heimsóknir til Íslands og nú vinnur hann að því að koma á samstarfi milli íslenskra og skoskra liða með leikmannaskipti í huga og þar eru skosku liðin Peterhead, sem spilar í þriðju efstu deild og Inverness CT sem spilar í skosku úrvalsdeildinni.  Mark heillaðist af Ólafsvík í einni heimsókn sinni og Víkingur Ólafsvík það lið sem hann hefur mestar mætur á um þessar mundir. 

Að hans mati hafa peningar eyðilagt skoska boltann, en Skotar eru sárir yfir því að skoska landsliðið hafi ekki komist í lokakeppni stórmóts síðan 1998, og hann hefur áhyggjur af því að það sama geti gerst á Íslandi.   Peningar urðu m.a. Glasgow Rangers að falli en skoska deildin hefur ekki verið svipur hjá sjón eftir að Rangers voru dæmdir niður í neðstu deild vegna peningaóreiðu.  Rígurinn á milli Glasgow liðanna Celtic og Rangers (sem bæ ðe vei voru að spila í deildinni í gær í fyrsta sinn í ein fimm ár) er vel þekktur, sennilega er vandfundinn annar eins rígur milli knattspyrnuliða nokkurs staðar í Evrópu.  Lögregla og sjúkralið þarf að kalla til aukalið vegna aukins álags að meðaltali í fjóra daga í hvert sinn sem liðin eigast við og rígurinn litar ekki bara Glasgow heldur allt Skotland og meira að segja stjórnmálin.  Ef skoskur stjórnmálamaður er stuðningsmaður Rangers verða stuðningsmenn Celtic sjálfkrafa andstæðingar hans og öfugt.  Þetta hefur haft áhrif á kosningar hér og svo einstök mál eins og sjálfstæðisbaráttu Skota.  Já, menn að leika sér með bolta, eða réttara sagt fólk að horfa á menn leika sér með bolta getur haft víðtæk áhrif.  Sjálfur hef ég haldið með Celtic frá barnsaldri af tveimur ástæðum, fyrsti fótboltabúningurinn sem ég eignaðist var Celtic búningur og svo spilaði Jóhannes Eðvaldsson með Celtic þegar ég var smástrákur.  Vegna lítillar samkeppni í deildinni hefur áhuginn aðeins dvínað og vegna þess og staðsetningar minnar hér í Skotlandi get ég ekki gert að því að smáiðið Ross County hefur heillað mig síðustu mánuði. 

Mark finnst sumir íslensku klúbbarnir eyða of miklum peningum í meðalgóða erlenda leikmenn í stað þess að nota íslenska stráka sem hafa farið í gegnum yngri flokkana og staðið sig vel, þar nefndi hann sem dæmi strák hjá Breiðablik sem heitir Höskuldur sem að hans mati ætti möguleika á að ná langt en hefur ekki fengið þau tækifæri sem hann ætti að fá.

Mark fór að sjálfsögðu til Frakklands til þess að fylgjast með íslenska landsliðinu á EM og auðvitað mætti hann á leikina í skotapilsi og íslenskri landsliðstreyju.  Hann og Karen kona hans giftu sig svo á Íslandi í fyrrasumar og það verður að segjast eins og er að það er afar sérstakt að hitta á svona menn sem eru svona áhugasamir um landið okkar eða einhverjum þáttum þess.

Dýnan er hins vegar enn óseld ef einhver hefur áhuga, ég vil fá 15 pund fyrir hana eða um 2300 kr.


Rokk og vísindi

Nú standa yfir tvenns konar hátíðir hér á Orkneyjum, annarsvegar rokkhátíð og hins vegar vísindahátíð.  Rokkhátíðin fór fram á börum og skemmtistöðum hér í Kirkjuvogi og hljómsveitir frá Orkneyjum og Hjaltlandseyjum.  Ég fór að sjá tvö af þessum böndum og þau voru alveg fín en ekkert meira en það.  Kannski hef ég misst af bestu hljómsveitunum.

Vísindahátíðin stendur yfir í viku og ýmislegt forvitnilegt er í boði víða um eyjarnar. Eitt af því var véla og farartækjasýning í miðbæ Kirkjuvogs.   Þar voru stoltir, fornbílaeigendur að sýna fornbíla, stoltir vélhjólaeigendur að sýna vélhjól, stoltir dráttarvélaeigendur að sýna gamlar dráttarvélar og svo voru það ljósavélaeigendurnir sem hlupu sveittir í kringum gamlar ljósavélar, með smurkönnur, vatnsbrúsa og skiptilykla til þess að reyna að koma þeim í gang og halda þeim gangandi.  Fyrir þá sem eru áhugasamir um slíka hluti var vel hægt að gleyma sér í nokkra klukkutíma við skoðun á þessum tækjum og ekki síður sérvitringunum sem væntanlega voru eigendur.   

gömul vél (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Petter 1,5 Hö 1900 árgerð snúið í gang, eldsneyti Paraffin.

Í gær var líka einn af dagskrárliðum vísindahátíðarinnar fyrirlestur um norðurljós sem ég fór á, en fyrirlesari var Dr Melanie Windridge plasmaeðlisfræðingur.  Ég reiknaði með að Dr Melanie væri kona, komin vel yfir miðjan aldur, með úfið hár og utan við sig, búin að týna gleraugunum og væri í vandræðum með að tengja skjávarpann við fartölvuna.  Ljósin í salnum dofnuðu og inn á sviðið gekk ljóska um þrítugt, í þröngum gallabuxum og bol, alls ekki sú staðalímynd sem maður hefur af eðlisfræðingum, sérstaklega plasmaeðlisfræðingum.  Fyrirlesturinn var mjög áhugaverður þar sem eðli norðurljósa var útskýrt og ég varð margs vísari um hvernig norðurljósin verða til, af hverju þau eru oft græn á litinn og margt fleira. Eiginlega eru norðurljósin orðin uppáhalds náttúrufyrirbærið mitt og ég hlakka virkilega til þess að koma heim í vetur og heilsa upp á þau aftur.

Hér á Orkneyjum hef ég ekki séð norðurljós en stundum er víst hægt að sjá þau hér og nyrst í Skotlandi, ég get samt ekki ímyndað mér að þau séu nærri því jafn tilkomumikil hér sunnan við 60. breiddargráðu eins og þau eru þegar maður er kominn norður fyrir, tja eigum við að segja 64. breiddargráðu.

Í dag fór ég á annan fyrirlestur og hann fjallaði um, að því er margir telja eina af merkilegustu uppgötvun vísindanna, eða kannski frekar vísindaafrek, síðustu eitt hundrað ára, aðdráttaraflsbylgjur.  Fyrirlesturinn var haldinn af  Martin Hendry, prófessor við háskólann í Glasgow og einn af þeim sem vinna við og standa að LIGO sem er rannsóknarhópurinn sem uppgötvaði aðdráttaraflsbylgjurnar.  Það er gríðarlega flókið að mæla þessar bylgjur sem verða til þegar tvö svarthol renna saman og standa yfir í 0,2 sekúndur í milljóna ljósára fjarlægð en hópnum hefur tekist þetta.  Það var gaman að fá beint í æð það nýjasta og merkilegasta sem er að gerast í vísindaheiminum, frá manni sem stendur í eldlínunni þó að ekki hafi allir í salnum verið fullir áhuga en héðan og þaðan mátti heyra hrotur.  Ég gekk hins vegar sáttur út og langaði eiginlega mest að fara á fleiri vísindafyrirlestra en mér finnst svona vísindahátíð algjör snilld.  Skyldi vera eitthvað sambærilegt á Íslandi?  Ég veit það ekki.


Fornleifaskoðun

Í dag ákvað ég að fara í fornleifaskoðun enda er af nógu að taka hér á Orkneyjum og ef til vill er hægt að líta á Orkneyjar sem nirvana fornleifafræðinga og þrátt fyrir næstum tveggja ára dvöl hér og að margur fornleifaskoðunartúrinn hafi verið farinn hef ég ekki skoðað allar þær fornminjar sem hér eru.

Fyrst varð á vegi mínum hér í Kirkwall neðanjarðarbyrgi sem nefnt er Grain Earth House.  Neðanjarðarbyrgi þetta, sem er væntanlega um 3000 ára gamalt, hefur líklega verið notað sem geymsla.  Byrgið var lokað og því komst ég ekki niður í það að þessu sinni en ég var ekkert eyðilagður yfir því af því að annað svipað byrgi var á forleifaskoðunardagskrá dagsins. 

Ég hélt  því áfram og stoppaði næst við Tormiston Mill sem er vatnsmylla frá 19. öld notuð til þess að mala korn.  Hægt er að ganga um og skoða allar þrjár hæðirnar í mylluhúsinu og þar er lítið að sjá, en þar er líka minjagripaverslun og miðasala fyrir Maeshowe sem er 5000 ára grafhýsi sem er þannig úr garði gert að í nokkra daga á ári, í kring um vetrarsólstöður, lýsir sólin allt grafhýsið upp  í gegnum innganginn.  Ég hef séð önnur grafhýsi hér frá þessum tíma og þar sem aðgangseyririnn var 5,5 pund var ég fljótur að koma mér í burt.  Ég hefði samt átt að athuga málið betur, kannski var matur og skemmtiatriði innifalið í verðinu og jafnvel ball á eftir, hver veit. 

Alavega hélt ég áfram en skammt frá er Unstan chambered cairn sem er annað grafhýsi, töluvert minna en álíka gamalt og Maeshowe og það sem var best, þar þurfti ekki að borga til þess að komast inn.   Til þess að komast þangað þarf að keyra í gegnum hlaðið á sveitabæ og leggja bílnum í hlaðinu þannig að maður hefur það hálfpartinn á tilfinningunni að maður sé að þvælast um á prívat eign heimilisfólksins og að maður eigi ekki að vera þar og trufla heimilisfriðinn.  Ég gekk að grafhýsinu og leit nokkrum sinnum um öxl til þess að fullvissa mig um að öskureiður bóndi með hlaðna haglabyssu væri ekki á hælunum á mér.   Veggirnir í grafhýsinu eru hlaðnir og meðfram þeim eru útskot sem voru ætluð fyrir látið fólk en mannabein fundust þar þegar grafhýsið fannst. 

Frá Unstan chambered cairn lá leiðin til Corrigall farm museum og það var eiginlega skemmtilegasta heimsókn dagsins enda var hægt að labba um og sjá eitthvað.  Vegurinn þangað var mjög svo hlykkjóttur og líklegasta skýringin er sú að þeir sem lögðu hann hafi ekki horft fram fyrir sig til þess að athuga hvert þeir ættu að fara, heldur bara sturtað efninu í veginn án þess að hugsa um afleiðingarnar. Ég nálgaðist staðinn af töluverðri varúð enda var ég ekki viss um hvort krafist væri aðgangseyris en þegar ég kom auga á skilti þar sem skrifað var á “free admission” sá ég að öllu var óhætt að því undanskildu að bitmý sveimaði um allt þarna.  Á Corrigall farm museum er hægt að ganga um gamlan Orkneyskan sveitabæ þar sem þau tól og tæki sem notuð voru á 19. öldinni.  Bærinn samanstendur af gripahúsi, smiðju og íbúðarhúsi.  Í öðrum enda íbúðarhússins eru vistarverur og í hinum hluta hússins hefur matur verið geymdur og unninn.  Þegar komið var inn í setustofuna lagði notalega lykt fyrir vitin þar sem mór var brenndur í arninum og þar fyrir ofan logaði á kolu.  

DSC_0014 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Corrigall Farm Museum

Frá Corrigall fór ég yfir til Barnhouse village, sem eru rústir 5000 ára gamals þorps sem stendur  á milli steinhringjanna frægu, Brúargarðsbaugsins og Steinnessteinanna.  Það er svo sem ekki mikið að sjá nema grunn og útlínur þeirra bygginga sem þarna voru en talið er að í því stærsta þeirra hafi farið einhverjar trúarathafnir fram. Það er líka talið að íbúarnir hafi þekkt vel til steinhringanna fyrrnefndu.

DSC_0042 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Barnhouse village

Fornleifaskoðunarferðinni lauk með skoðun á Rennibister Earth House sem er svipað neðanjarðarbyrgi og það sem ég ætlaði að skoða í upphafið fornleifaskoðunarferðarinnar.  Til þess að komast að byrginu þarf að leggja bílnum um 200 metra frá sveitabæ og labba niður heimreiðina, framhjá beljum með renniskitu sem hafa ekki hugmynd um að þær verða fljótlega að hamborgurum í brauði, þangað til er komið í bæjarhlaðið þar sem jarðhýsið er.  Byrgið, sem er um 3000 ára gamalt,  fannst fyrir tilviljun árið 1926 þegar þreskivél hrundi niður í það.  Þar voru þá líkamsleifar af 18 manneskjum, þar af 12 barna.  Talið er að byrgin hafi gegnt ýmsum hlutverkum, sem geymsla, híbýli, grafhýsi og fleira.  Þetta var hinn ágætasti dagur og þrátt fyrir að ég sé búinn að skoða helstu fornminjar Orkneyja síðustu mánuði, þá er töluvert eftir enn.


Heimsókn og uppsögn

Um daginn heimsóttu okkur tvær stúlkur úr söludeildinni, Jade og Celine,  ásamt Indverskum kaupsýslumanni, Dutt að nafni,  sem flytur inn mikið magn af fiski til Dubai.  Hann hefur flutt inn töluvert magn af norskum laxi en vill nú helst eingöngu fá lax frá Orkneyjum vegna gæðanna en hann telur að Orkneyskur lax sé besti lax í heimi.  Það kom í minn hlut að sigla með þau norður til Eiðeyjar til þess að heimsækja Phil og hans gengi og að því loknu var farið á stöðina mína.  Veðrið hefði ekki getað verið betra, tuttugu stiga hiti, sólskin og spegilsléttur sjór en þrátt fyrir það vottaði fyrir sjóveiki hjá Jade.  Öll voru þau hæst ánægð með daginn og að loknu ferðalaginu buðu þau mér í kvöldverð á einum fínasta veitingastaðnum hér á Orkneyjum, Foveran. 

Ég var sóttur heim og við stýrið sat Jade.  Hún tók það strax fram að hún væri ekki góður bílstjóri.   Og það voru alls engar ýkjur.  Við höfðum keyrt um það bil tvöhundruð metra þegar hún sveigði framhjá bílum sem var lagt á annarri akreininni og stefndi beint á móti umferð úr gagnstæðri átt á hinni akreininni.  Í stað þess að hægja á sér og hleypa bílunum framhjá, steig hún á bensíngjöfina og aumingja ökumennirnir sem komu úr hinni áttinni þurftu að sveigja út í kant eða upp á gangstétt.  “Æ ég er ekkert góð að keyra svona sjálfskipta bíla” sagði hún.  Ég hélt alltaf að fólki þætti erfiðara að keyra beinskipta bíla.  “Ég ruglast nefnilega oft og stíg á bremsuna þegar ég held að ég sé að fara að stíga á kúplinguna”.  Þegar þarna var komið við sögu komum við að gatnamótum og sveigði strax til vinstri en bílar sem komu úr báðum áttum snarhemluðu til þess að forða árekstri.  Við höfðum aðeins ekið um 500 metra en á þessum stutta kafla var hún búin að stefna lífi okkar í hættu tvisvar og um leið næstum því búin að valda stórtjóni.  Eftir þetta snarhemlaði hún tvisvar sinnum þegar hún hélt að hún væri að stíga á kúplinguna en einhvern veginn tókst okkur að komast lifandi á veitingastaðinn.  Þar heimtaði Indverjinn frá Dubai að fá að keyra til baka. 

Veitingastaður þessi er staðsettur rétt utan við bæjarmörk Kirkjuvogs með útsýni yfir Skapaflóa.  Á túninu fyrir utan voru kýr á beit og inn um gluggann heyrðist öðru hvoru ógurlegt baul þegar við skárum í dýrindis nautasteik sem var borin fyrir okkur.

Þetta var sem sagt hinn besti dagur en daginn eftir beið mín ekki eins skemmtilegt verkefni, sérstaklega ekki eftir jafn góðan dag, en það var að segja upp vinnunni minni þar sem fjölskyldan hefur ekki náð að festa sig í sessi og nú bíða spennandi verkefni eftir mér á ástkæra Íslandinu.  Skrefin inn á skrifstofu svæðisstjórans voru því þung og eftir um hálftíma tvístíg fyrir utan skrifstofuna var ekki um annað að ræða en að láta vaða og auðvitað var gott að losna við þær byrðar af öxlunum.  Nú eru um tveir mánuðir eftir af þessu ævintýri okkar hér og að þeim loknum verða komin tæp tvö ár síðan ég flutti hingað sem saklaus landsbyggðardrengur en fer væntanlega héðan sem goðsögn, reynslunni ríkari.


Til Íslands og til baka

Nú er ég kominn til baka eftir tveggja vikna frí á Íslandi.  Það er erfitt að lýsa því hvað er gott að komast aftur til Íslands eftir árs útlegð.  Þetta er einna líkast því þegar maður kemur úr kafi og fær að anda að sér fersku lofti.  Ekkert jafnast á við að keyra yfir Öxi og sjá Verufjörðinn opnast, keyra upp hæðina hjá Hátúni og sjá yfir að Fýluvogi, já eða fara upp á Bóndavörðu og horfa yfir þorpið fjörðinn og á fjöllin.   Á Íslandi gerði ég allt sem mig langaði að gera, sem sagt ekki neitt nema að vera með fjölskyldu og vinum og mestum tímanum eyddi ég með börnunum og því var lítið gert af tilgangslausum hlutum eins og að vera á Facebook eða horfa á sjónvarp, enda fannst mér það litla sem ég sá af RÚV í þessu fríi einstaklega leiðinlegt áhorfs.  Selfoss í 50 ár, er eitthvað óáhugaverðara og ódýrara sjónvarpsefni til?  Kannski var það bara ágætt þegar ekkert sjónvarp var í júlí.  En það var ekki bara sjónvarpið sem var slæmt.  Verðlagið var afleitt.  Meira að segja verslanir sem gefa sig út fyrir að vera ódýrar eins og Bónus og Krónan voru með óeðlilega hátt verðlag, munurinn er kannski sá að þar var mjög dýrt en ekki ógeðslega dýrt.  Einhver er að græða einhversstaðar, hvort sem það er milliliður, heildsali, smásali, flutningsaðili eða einhver annar, þetta á ekki að þurfa að vera svona.

Alla jafna er ég passasamur með að mæta tímanlega í flug og vil hafa allt á hreinu þegar ég ferðast.  Fjölskyldan fór til Íslands um miðjan maí og því var tilhlökkunin orðin gríðarlega mikil.  Ég gerði ferðafötin tilbúin fyrstu helgina í júlí og lagði þau á sófann, tók fram ferðatöskuna um miðjan júlí og byrjaði að setja í hana það sem ég ætlaði að hafa með auk þess sem ég hringdi í Íslandsbanka og bað um nýtt PIN númer fyrir debetkortið mitt af því að ég var löngu búinn að gleyma því.  “Ertu með leyninúmer á reikningnum?” spurði stúlkan sem hafði það hlutverk að úthluta PIN númeri. Er ég með leyninúmer? Hvernig á ég að muna leyninúmerið ef ég man ekki PIN númerið.  Nei ég er ekki með leyninúmer.  “Ég má ekki gefa þér upp PIN númerið í gegnum síma en ég get sent það í pósti á heimilisfang þitt á Íslandi”  sagði stúlkan.  “Það er fínt,  það verður allavega komið áður en ég kem til Íslands” sagði ég.  Svo rann ferðadagurinn upp.  Einhverra hluta vegna stóð ég í þeirri meiningu að það væri nóg að mæta hálftíma fyrir brottför eins og í innanlandsflugi á Íslandi.  26 mínútum fyrir brottför var ég mættur á flugvöllinn til þess að innrita mig.  “Því miður það er búið að loka, það var lokað fyrir 4 mínútum, þú ert of seinn”. Sagði afgreiðslustúlkan.  Hvert þó í logandi.  Hvað geri ég nú? ég verð að komast til Íslands, hugsaði ég.  Á ég að hundskast aftur heim á mitt Orkneyska heimili og skammast mín? Á ég að leggjast í gólfið og grenja?  Á ég að taka brjálæðiskast og taka starfsmenn í gíslingu, hóta öllu illu nema mér verði hleypt í flugið eða á ég að þykjast vera á barmi taugaáfalls og leita eftir meðaumkun?  Ég valdi síðasta kostinn. ´Ég verð að komast í þetta flug, ég hef ekki hitt fjölskylduna mína í þrjá mánuði” sagði ég á eins örvæntingarfullan hátt og ég gat.  “Bíddu ég skal tala við strákana” sagði hún og hvarf á bak við vegginn.  Skömmu síðar kom hún aftur og sagði að mér yrði hleypt í gegn í þetta skipti en framvegis yrði ég að að mæta tímanlega.  Ég tók við farmiðanum og lofaði öllu fögru.  Ég lofaði líka máttarvöldin fyrir að hitta ekki á rangan tíma mánaðarins hjá stúlkunni sem reyndist mér svona vel.  Svo fór ég í miklum flýti í gegnum öryggisleitina og beinustu leið að brottfararhliðinu.  Þar tók sama stúlka á móti miðanum en þá kom í ljós að tvíbókað hafði verið í sætið.  “Því miður þú verður að koma út úr röðinni og bíða” sagði hún.  Frábært, hugsaði ég, búið að tvíbóka og nú er vélin full og ég kemst ekki með.  Ég var hættur við að láta mér líka vel við stúlkuna sem áður hafði verið hjálpleg.  Að lokum stóðum við tveir eftir, ég og maðurinn sem átti sama sæti og ég.  Stuttu síðar var komið með nýja miða til okkar og þegar út í vél var komið kom í ljós að örfáir farþegar voru um borð og langt frá því að vera yfirbókað.  Það tók nánast alla flugferðina til Edinborgar að jafna sig á þessum taugatrekkjandi mínútum sem ég hafði átt á flugvellinum á Orkneyjum. 

Þegar svo lent var á Keflavíkurflugvelli í Sandgerðishreppi kom í ljós að PIN númerið fyrir debetkortið hafði ekki skilað sér og því þurfti ég að komast í næsta Íslandsbanka, sem var í Keflavík til þess að redda því.  Á leiðinni frá flugvellinum í bankann undirbjó ég heljarmikla skammarræðu um vanhæfni bankanna til að leysa einföldustu verkefni, ofurlaun yfirmanna bankanna og hvernig bankarnir mergsjúga viðskiptavini sína með alls kyns ósanngjörnum vöxtum, afgreiðslugjöldum, þjónustugjöldum, gjöldum fyrir að taka út úr hraðbönkum.  Þegar í bankann var komið var mér vísað á starfsmann sem sat afsíðis, stráklingur um tvítugt, ábyggilega nýkominn af Þjóðhátíð í Eyjum, með úttroðna efri vör af tóbaki.  Ég hélt smá inngang um vandræði mín og var að fara að úthúða bönkum og bankastarfsmönnum þegar hann greip fram í og sagði:  “Ertu með netbanka og auðkennislykil?” “Nei, ég er með Netbanka en auðkennislykillinn er í Skotlandi”. “OK þetta er ekkert mál, hér er auðkennislykil, þarna er tölva, farðu inn á Netbankann og þar getur þú sótt PIN númer”. Sem ég og gerði.  Ég þakkaði tóbakskjaftinum fyrir og fór út og sá eftir þeirri orku sem fór í að semja skammarræðuna löngu sem var farin í vaskinn.  Nokkrum tímum síðar var ég kominn á Djúpavog.

Ferðin til baka var ekkert betri.  Áður en ég fór frá Orkneyjum rétt kíkti ég á farmiðapöntunina og þar stóð greinilega 17. ágúst klukkan 11:10.  Ég mætti tímanlega í þetta sinn á flugvöllinn, var kominn þangað klukkan rúmlega 8 miðvikudaginn 17. ágúst og fór beint að innritunarstöð þar sem ég setti vegabréfið í skannann.  Af þeim flugum sem birtust á skjánum var engin til Edinborgar.  Ég sló því inn staðfestingarnúmerið en sama sagan, ekkert flug til Edinborgar var í boði.  Jæja ég þarf að fá einhvern starfsmann til að hjálpa mér með þetta og skoðaði flugpöntunina.  Þá rak ég augun í það að áætlaður lendingartími í Edinborg var kl 11:10 og brottför 7:10.  Ég var því búinn að missa af fluginu og engin indæl Orkneysk stúlka þarna sem gat reddað mér.  Nú var eini möguleikinn að hundskast heim og skammast sín.  Dagurinn fór því að stórum hluta í að redda flugi út daginn eftir og það kostaði mig um 80.000 krónur, eitthvað sem mér þótti sársaukafullt að þurfa að reiða fram en auka dagur á Íslandi var þess virði.

Nú tekur við tveggja mánaðatörn áður en ég kemst aftur til Íslands.  Þá reynir maður nú að hafa allt á hreinu.  Best að fara að taka til ferðafötin.


Köfun við Eiðey

Það er búið að standa til frá því að ég kom til Orkneyja að skjótast í köfunartúr en Orkneyjar eru afar áhugaverður köfunarstaður fyrir kafara.  Í Scapa flóanum er fjöldinn allur af skipsflökum frá því úr heimsstyrjöldunum en lífríkið í sjónum gerir Orkneyjar að aðdráttarafli fyrir kafara.  Hér um slóðir er  með mikið kafað eftir hörpuskel hér og þó nokkrir hafa atvinnu af því að kafa og tína hörpuskel.   Það var svo ákveðið í síðustu viku að skjótast upp til Eiðeyjar, heimsækja Phil og Suzy og kafa eftir hörpuskel og skoða lífið í sjónum.

Lagardagurinn var því tekinn snemma en ferjan lagði úr höfn í Kirkjuvogi klukkan sjö.  Áður en lagðist að bryggju á Eiðey fór hún fyrst til Strjónseyjar og síðan Sandeyjar þannig að ferjuferðalagið tók þrjár klukkustundir og komið var til Eiðeyjar klukkan tíu. 

Við gerðum okkur klár og ungt par sem hafði aðgang að bát skutlaði okkur út á fyrirfram ákveðinn köfunarstað.  Ég var ekki búinn að kafa í tæp tvö ár og það var því kominn töluverður spenningur.  Þegar á botninn var komið var hvítur sandur og ýmiskonar líf, fiskar, ýmiskonar skeldýr og sniglar, krossfiskar, ígulker og að sjálfsögðu hörpudiskur sem við tíndum í poka.  Þessi Orkneyski hörpudiskur er ekki alveg eins og sá íslenski, önnur skelin er flöt en hin er kúpt og bárurnar á skelinni eru mun stærri auk þess sem fiskvöðvinn sjálfur er mun stærri.  Ekki veit ég hvert hans rétta nafn er en við köllum hann bara hörpudisk til einföldunar.  Gaman væri samt ef einhver gæti komið með hans rétta nafn.

P1010699 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Að lokinni köfun var aflinn tekinn og hreinsaður og grillaður.  Þegar grillað er á Orkneyjum þarf að stilla grillinu upp þannig að lokið veiti skjól fyrir rokinu, síðan þarf fólk að safnast saman í kring um grillið og veita skjól þannig að hægt sé að kveikja upp.  Síðan þarf að taka til fótanna til þess að komast í skjól fyrir rigningarskúrinni sem gengur yfir.  Á milli rigningarskúra er svo grillað en best er að standa til hliðar við grillið annars verður maður svartur í framan af öskunni sem fýkur af grillinu.

DSC_0102 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Hörpudiskurinn bragðaðist dásamlega og Phil gerði sitt besta til þess að halda aftur af Suzy sem tíndi hörpudiskinn af grillinu upp í sig en hún er svokallaður hörpudiskssjúklingur.  Eftir notalegt spjall og át var kominn tími til þess að fara niður á bryggju til þess að taka ferjuna aftur heim.   

20160730_160213 (Large)

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þó nokkrir bílar komu keyrandi niður að höfninni þegar ferjan lagði að en enginn þeirra fór um borð.  Ástæðan er sú að helsta dægradvöl fólks á Eiðey er að sjá ferjuna koma og fara og þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig restin af frítímanum er ef þetta er það skemmtilegasta sem fólkið gerir. Þetta kallast svo sannarlega að lifa drauminn.  Sjálfsagt verður smátt og smátt spennandi að sjá hverjir eru að koma og fara eftir að maður er búinn að búa á þessari eyju þar sem búa rúmlega eitthundrað manns og fátt annað gerist en að ferjan kemur og fer.  Ég trúi ekki öðru en að fólkið sem kemur til að horfa á ferjuni hafi oft hugsað um að fara með ferjunni og koma aldrei aftur.

Ég kom mér fyrir á einum af hinum óþægilegu bekkjum í ferjunni og fljótlega urðu augnlokin óhemju þung, þannig að það var ekki í mannlegu valdi að halda augunum opnum auk þess sem hálsvöðvarnir breyttust í gúmmí þannig að ég missti alla stjórn á höfðinu og það hakan datt hvað eftir annað ofan í bringuna.  Ég hallaði mér því á bakpokann og þegar ég vaknaði leit ég í kring um mig og vonaði að fólkið sem starði á mig hefði ekki séð slefuna renna niður munnvikin á peysuna sem ég þurrkaði með handarbakinu.  Skömmu síðar var lagst að bryggju í Kirkjuvogi og búið er að plana aðra köfun eftir sumarfrí.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

S Kristján Ingimarsson

Höfundur

S Kristján Ingimarsson
S Kristján Ingimarsson

 

Faðir, sambýlismaður, fiskeldisfræðingur, íþróttaáhugamaður, tónlistaráhugamaður, kafari, og með allt of mörg áhugamál.

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • Mynd_0402140
  • 20160922 120421 (Large)
  • gömul vél (Large)
  • DSC_0042 (Large)
  • DSC_0014 (Large)

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (28.3.): 1
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 14
  • Frá upphafi: 66082

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband